21.02.1980
Neðri deild: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

Umræður utan dagskrár

Ingólfur Guðnason:

Herra forseti. Þetta er, eins og menn vita, mín fyrsta vera á hv. Alþingi. Ég hlýddi hér á umr. í gær um tollskrá o.fl. Nú er til umr. fsp. frá hv. 3. þm. Vestf. Í gær blandaðist nokkuð inn í umr. virðing Alþingis. Ef þær umr., sem fram fóru í gær og áttu að vera um tollskrá o.fl., og ef þessar umr. halda áfram með sama hætti og nú virðist stefna að, þá hefur það hugtak virðing farið alveg öfugt inn í mitt höfuð. Ég tel ekki að Alþ. sé nein virðing gjörð með þeim skrípalátum sem áttu sér stað hér í gær, þegar hv. þm. hver eftir annan komu og hentu skít á báða bóga, alveg óskylt því málefni sem var til umr. Ég bið menn að grunda vel, hvað er virðing Alþingis og í hverju hún er fólgin. Og mér sýnist að full ástæða sé fyrir Alþ. að taka sér svo sem hálfs mánaðar frí og vita hvort menn verði ekki rólegri þegar þeir koma til baka. Kannske er full þörf á þrem vikum. Framkoma eins og birtist hér í gær og stefnir í nú bendir til þess, að mönnum sé alveg bráðnauðsynlegt að taka sér svolitla hvíld, fara heim og breiða yfir höfuð og hugsa ráð sitt, ef þeir eru á annað borð að hugsa um virðingu Alþingis.