19.12.1979
Neðri deild: 5. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

42. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil bara vegna síðustu orða hv. 3. þm. Reykv. taka það fram, að við erum að sjálfsögðu ekkert að agnúast út í þær framkvæmdir sem hér er ætlað að taka erlend lán til. Það er misskilningur. Það, sem ég var að segja áðan, var ósköp einfaldlega það, að ég vildi fá að vita hvaða framkvæmdir það eru sem erlendar lántökur þarf til á fyrsta hluta ársins 1980, einkum í janúar- og febrúarmánuði. Ef þær væru óverulegar eða takmarkaðar, þá mætti lækka þá tölu, sem hér um ræðir, í samræmi við það, ef hv. Alþ. kæmist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að hafa þessar greiðsluheimildir tímabundnar. Ég bjóst satt að segja ekki við því, að hv. 3. þm. Reykv. teldi nauðsyn bera til að misskilja orð mín á þann veg sem hann gerði áðan. En þar sem hann fann hjá sér þá nauðsyn, þá taldi ég óhjákvæmilegt að koma hér í ræðustólinn til að leiðrétta þann misskilning sem mér fannst gæta hjá honum.