21.02.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vildi af þessu tilefni árétta það, sem raunar kom fram hjá mér í morgun við umr. utan dagskrár, að þingflokkur Alþfl. tók í gær til umræðu málaleitan hæstv. forsrh. um þingfrestun í tvær vikur. Niðurstaða þingflokksins var í mjög stuttu máli sú, að við þm. Alþfl. töldum enga sérstaka ástæðu til að gera hlé á þingstörfum, þar sem fjölmörg mál liggja fyrir þinginu sem enn hafa ekki komið á dagskrá og ástæða er til að ræða, og við töldum að þm. gætu mætavel gefið sér tíma til að fjalla um þau næstu viku. Hins vegar varð afstaða okkar sú til erindis hæstv. ráðh., að ef ríkisstj. legði þunga áherslu á að fá þinghlé vegna þess að hún teldi sig þurfa slíkt hlé til að undirbúa stefnumörkun sína og málatilbúnað á Alþ. mundu þm. Alþfl. ekki leggjast gegn því erindi.

Að sjálfsögðu er alveg ljóst að það er ríkisstj. sem óskar eftir þessu. Hlé mun hafa þau áhrif á störf Alþ. að tefja nokkuð meðferð mála og hugsanlega draga þingið fram á vorið, en ég geri ráð fyrir að hæstv. ríkisstj. hafi gert sér fulla grein fyrir því þegar hún óskaði eftir þingfrestuninni.

Ég hef svo engu frekar við þetta að bæta.