21.02.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það, sem hér er um að ræða er hlé á fundum Alþingis í hálfan mánuð. Um það bil helmingurinn af þeim tíma er vegna funda Norðurlandaráðs, 3. –7. mars, en þegar Norðurlandaþing hefur verið háð hér á Íslandi, sem gert er á fimm ára fresti, er föst venja að fundir Alþingis falli niður þá daga, sumpart vegna þess að þm. og ráðh. sækja þá fundi, en ekki síður vegna hins, að Norðurlandaráðsþing þarf á húsakynnum Alþingis að halda meðan á því stendur. Það, sem hér er um að ræða, er því í rauninni um vikutími sem þingfundir yrðu þá felldir niður að ósk ríkisstj.

Þetta er engin nýlunda og ástæðulaust að gera það að einhverju stórmáli. Það kemur alloft fyrir, að til þess að ríkisstj. gefist betra tóm til að undirbúa þingmál sé gert nokkurt hlé á fundum Alþingis. Auðvitað má segja, eins og hér kom fram, að Alþingi gæti haldið áfram löggjafarstarfi sínu. En mál liggja nú þannig fyrir, að ráðh. eru skyldir að sækja fundi Alþingis, og veitir það þeim að sjálfsögðu meiri starfstíma til að undirbúa þau mál, sem um er að ræða, ef hlé er á fundum Alþingis í nokkra daga. Þetta hefur komið fyrir stundum þegar ríkisstjórnir hafa verið myndaðar á miðjum þingtíma, alveg sérstaklega ef þurft hefur að semja nýtt fjárlagafrv. eins og nú. Alloft hefur það komið fyrir, að hlé hefur verið gert á fundum Alþingis eftir jólahlé langt fram eftir janúarmánuði, einmitt af þessum ástæðum, til að gefa ríkisstj. betra tóm til að undirbúa mál. Nú standa sakir þannig, að ríkisstj. er í miðjum klíðum að vinna að nýju fjárlagafrv. sem ætlunin er að leggja fyrir Alþingi þegar það kemur saman að nýju. Auðvitað þarf að undirbúa ýmis önnur mál í sambandi við fjárlagafrv.

Það er misskilningur hjá hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni, að ágreiningur meðal stuðningsmanna ríkisstj. út af frv. um ríkisábyrgð á láni í sambandi við verðbætur eða útflutningsbætur á landbúnaðarafurðum valdi því, að það frv. hafi ekki gengið fram. Ég vil lýsa því yfir, að allir stuðningsmenn ríkisstj. styðja frv. sem liggur fyrir hv. Ed. Hins vegar er það ljóst vegna þess ágreinings, sem er um þetta mál, að vægast sagt yrði hæpið að fá það afgreitt eða gert að lögum fyrr en eftir helgi.

Í rauninni ræður ekki neinum úrslitum hvort frv. verður að lögum nú eða fljótlega eftir að þing kemur saman að nýju. Eins og hæstv. fjmrh. tók fram í umr. í Ed. þarf nokkurn undirbúning að 3 milljarða lántöku. Tíminn meðan fundir Alþingis falla niður verður notaður til að undirbúa það mál þannig að hægt sé að hrinda því í framkvæmd sem fyrst eftir að frv. verður að lögum, væntanlega strax eftir þinghlé.

Allir stuðningsmenn stjórnarinnar styðja þetta mál og þingflokkur sjálfstæðismanna hefur samþykkt að styðja það. Alþfl. hefur sérskoðun á því máli, en málinu er að sjálfsögðu tryggður framgangur miðað við þær yfirlýsingar sem liggja fyrir.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Ég held að það liggi skýrt fyrir hvers vegna farið er fram á þinghlé, sem í rauninni er aðeins vikutími, að ósk stjórnarinnar. Hitt kemur af sjálfu sér vegna Norðurlandaráðsþings. Engin ástæða er til að vera að gera þetta að neinu stórmáli.