21.02.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég er að vísu ekki óvanur hringlandahætti frá hæstv. forsrh., svo að mér kemur ekkert á óvart þó að það væru tilmæli hans í gær að slíta þinginu á föstudag og í dag að slíta því í dag. Það er eins og við höfum lifað við sem höfum verið í Sjálfstfl., að þar standa orðin ekki allt of lengi. En maður getur nú svo sem látið það eiga sig í bili.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því, sem mér þykir eftirtektarvert varðandi hæstv. ríkisstj., sem mynduð var til að gæta sóma Alþingis, að ráðh. hennar ganga nú hér upp hver á fætur öðrum og segja að það skipti ekki öllu máli hvort þessi lánsfjárheimild sé afgreidd frá Alþ. deginum fyrr eða síðar, það sé hægt að vinna að málinu hvað sem því líði. Það er kannske hægt að taka lánið og eyða því. Það er kannske rétt að hafa þann háttinn á, að Alþ. gangi frá málinu fyrst, áður en menn fara að taka lánið og eyða því. Ég veit ekki hverju er að treysta í þeim efnum hjá hæstv. ríkisstj.

Ég tek undir það með hv. 4. þm. Austurl., að fróðlegt er að sjá hæstv. ráðh. Framsfl. í annað skipti verða til þess að senda þingið heim þegar þetta mál bíður afgreiðslu. Í fyrra skiptið var það til þess að hæstv. núv. utanrrh. gæti náð sér í doktorstign til vesturálfu. Nú er það til þess að hinn doktorinn geti dundað sér við það í næstu viku, segir hann, að marka þá stefnu fyrir ríkisstj. sem hann sagði fyrir hálfum mánuði, þegar hann var að bjarga sæmdinni, að hann væri búinn að marka.

Auðvitað sýnir þetta mál okkur að ríkisstj. er illa á vegi stödd. Tilurð hennar var slík, að það er við því að búast að mörg verði töfin. Það er áreiðanlegt að þetta verður ekki í fyrsta skiptið sem orðin, sem frá henni berast, standa ekki allt of lengi. Ég held að það sé líka áreiðanlegt, að það verður ekki í fyrsta skipti nú í dag sem við óbreyttir þm. verðum varir við launræður milli hæstv. ráðh. Ég gæti trúað að launræðurnar verði býsna margar, við verðum oft varir við þær, eins og allt er í pottinn búið.

Án þess að ég ætli að fara að efna til frekari umr. vil ég aðeins ítreka það sem hér hefur komið fram. Að vísu minnist ég þess, að hæstv. forsrh. talaði um að það væri flokksræði í Sjálfstfl. Hann er nú búinn að lýsa því yfir hér úr stólnum að allir þm., framsóknarmenn, kommúnistar og þetta horn sem klofnaði frá, ætli allt saman að vera með frv. Það er nú meira en lítið flokksræði þar. Hann bíður ekki einu sinni eftir því að hæstv sjútvrh. standi upp til að lýsa afstöðu Framsfl. Hann telur það algert aukaatriði, enda líkti hann sér við Adenauer í sjónvarpinu.

Ég held að það færi nú best á því að afgreiða þetta mál fyrir þinghlé, fyrst allir eru sammála um að samþykkja það. Það tekur ekki langan tíma ef allir eru samhentir.