10.03.1980
Efri deild: 44. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Það er nú ekki ástæða til þess að ýfa upp miklar umr. um landbúnaðarmál að þessu sinni á grundvelli þess frv. sem hér er til umr. Því var lýst yfir af hálfu stjórnarandstöðunnar áður en þinghlé var gefið, að stjórnarandstaðan mundi greiða fyrir afgreiðslu málsins eftir því sem framast væri kostur. Þeir þm. voru jafnvel fúsir til að vaka daga og nætur til þess að það mætti komast fram. Ég vil því í þessari ræðu aðeins gera örfáar athugasemdir við ræðu hv. síðasta ræðumanns og það í eins fáum orðum og kostur er.

Hv. þm. Eiður Guðnason sagði að hér væri um það að ræða, að það væri gengið lengra en lög heimila í því að greiða bætur á útfluttar landbúnaðarvörur og hér væri aðeins um fyrsta skrefið að ræða á þeirri braut, þannig ætti að halda áfram.

Það er rétt, að hér er farið fram úr því sem hin almenna lagaregla greinir, og það hefur raunar áður verið gert. Þetta er gert til þess að leysa úr bráðum tímabundnum vanda sem bændastéttin stendur frammi fyrir. Það er ástæðulaust fyrir hv. þm. Eið Guðnason að koma í þennan ræðustól og spyrja hvort hér sé um að ræða raunverulegan eða uppblásinn vanda þeirra sem grátið hafa framan í þjóðina í fjölmiðlum. Þetta eru ástæðulausar aðdróttattir og lýsa því, að þessi hv. þm. hefur ekki þær upplýsingar um þjóðlífið og hag landbúnaðarins sem telja verður að honum beri skylda til að hafa. Það á ekki að vera þörf á því hér að rekja það, hvað hér liggur til grundvallar og hvernig þetta kemur við bændastéttina. Það á ekki að vera þörf á því að segja það, að á síðasta ári vantaði 3.5 milljarða til þess að bændur fengju fullt verð fyrir framleiðsluvörur sínar, sem einvörðungu kæmi niður á nettótekjum bænda ef þetta fengist í engu bætt. Það á ekki að vera þörf á að minna á það, að ýmsar aðstæður á árinu 1978, veðurfarslegar og þjóðfélagslegar, urðu til þess að bændastéttin varð þá fyrir mjög alvarlegum tekjumissi. Sumpart er það þess háttar tekjumissir sem bændur þurfa hvenær sem er að vera viðbúnir að mæta og verður aldrei að fullu bættur. Hins vegar eru þær aðstæður þess eðlis, að það gerir meiri kröfur til þess að þeirri tekjuskerðingu sé mætt sem stafar af því, að ekki fæst fullt verð fyrir afurðirnar. Hér á ég við það, að harðindin s.l. ár ollu miklum vandkvæðum í landbúnaðinum. Þau ollu því, að þær tekjur, sem fengist hefðu í meðalári, náðust hvergi nærri og það svo munar, að ég hygg, milljónum á hvert bú í landinu, a.m.k. um norðanvert landið. Ég ætlast ekki til að ég þurfi að fara að rekja þetta hér í smáatriðum. Þetta ætti öllum að vera ljóst. Þess vegna segi ég og ítreka enn, að það er ástæðulaust að koma hingað og spyrja: Er þetta raunverulegur eða uppblásinn vandi.

Hv. þm. spyr hvernig eigi að leysa vanda þessa árs sem vissulega er mikill. Hann segir að þessu hafi verið svarað af mér við setningu Búnaðarþings í ræðu sem hann kallar dýrustu ræðu sem flutt hefur verið á Íslandi. Ég get endurtekið það fyrir þennan hv. þm., sem ég sagði um þetta efni við setningu Búnaðarþings. Með leyfi forseta hljóðar það svo:

„Því miður eru horfur þær á þessu verðlagsári, að miklar fjárhæðir skorti til þess að útflutningsbótafé dugi svo fullri verðtryggingu verði náð. Í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. segir svo um þetta efni: „Leitað verði samkomulags um viðunandi lausn á fyrirsjáanlegum vanda vegna halla á útflutningi búvara á þessu verðlagsári í tengslum við heildarstefnumótun í landbúnaði.

Ég vil taka það fram, að ég mun leita eftir slíku samkomulagi við fulltrúa bændasamtakanna og vænti góðrar samvinnu í þessu vandasama máli á milli fulltrúa bænda og fulltrúa ríkisstj.

Þannig hljóða þau dýru orð sem metin hafa verið af ýmsum skriffinnum eða ræðumönnum Alþfl. á 6–8 milljarða kr., sem sé efnislega það að leita samkomulags um viðunandi lausn á þeim vanda sem við blasir á þessu verðlagsári vegna óverðtryggðrar framleiðslu búvara. Það er metið á þessar fjárhæðir án þess að nokkur stafkrókur sé fyrir því á annan veg. Falsanir af þessu tagi á ummælum manna geta kannske verið hlægilegar í fyrstu lotu og sumpart skemmtilegar. En þær eru síður en svo skemmtilegar, þær eru háalvarlegar þegar síðan á að fara að nota þær til þess að egna fólk gegn tiltekinni stétt í landinu, eins og gerð hefur verið tilraun til í framhaldi af uppfinningu þessara ágætu Alþfl.-manna um þetta efni, sem er hreinn uppspuni frá þeirra hálfu. Það var þess vegna gott að hv. þm. Eiður Guðnason spurði um þetta efni, því að ég vænti þess að það þurfi ekki að tíunda svarið frekar.

Ég vil aðeins bæta því við, að enn hafa ekki hafist neinar samkomulagsumleitanir um þetta mál á milli fulltrúa ríkisstj. og fulltrúa bændasamtakanna. Það mun bíða eftir því að unnt sé af hálfu ríkisstj. að setja fram stefnuatriði sem eftir því sem segir í orðanna hljóðan í stjórnarsáttmála eiga að skoðast um leið og þetta vandamál er metið til úrtausnar. Þess vegna hef ég engin svör um það enn þá til hv. þm., hvað hér verður um að ræða. Hitt held ég að allir geri sér ljóst, að hér verður ekki um að ræða aðstoð til bændastéttarinnar upp á 6–8 milljarða kr., miðað við þær horfur sem nú eru.

Hv. þm. Eiður Guðnason sagði að engin stefnubreyting væri sjáanleg, aðeins ætti að herða á vitleysunni. Nær hefði verið að hann hefði þau orð um í eigin ræðu, því að hver hv. þm. Alþfl. á fætur öðrum hefur komið upp í ræðustól á Alþ. til þess að herða á vitleysunni, eins og við höfum mátt hlusta á og horfa á undanfarin misseri þegar hv. þm. Alþfl. hafa talað um landbúnaðarmál. Þá hafa þeir sannarlega ekki sparað að herða á vitleysunni.

Um stefnubreytingu af hálfu þessarar ríkisstj. í landbúnaðarmálum er of snemmt að fjölyrða. Hv. þm. getur lesið sér til um það sem segir um stefnu um þessi efni í stjórnarsáttmála. Ég skal ekki fara að rekja það hér, en stefnan hefur enn ekki verið fullmótuð. Það er verið að vinna að undirbúningi hennar. En þegar sú stefna liggur fyrir skulum við ræða það mál frekar.