10.03.1980
Efri deild: 44. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Jón Helgason:

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hæstv. landbrh., að ég ætla ekki að fara að hefja hér langar umr. um landbúnaðarmál atmennt. En eftir þá dæmalausu ræðu, sem hv. 5. þm. Vesturl. flutti áðan, tel ég sjálfsagt að segja hér nokkur orð.

Hann beindi orðum sínum sérstaklega til okkar bænda hér í deildinni, og ég vil láta það koma skýrt fram að ég fyrirverð mig ekki fyrir að vera bóndi. Ég tel mér það til gildis. Þó að hann ausi yfir þá orðum eins og hann gerði hér áðan, þá breytir það engu.

Ég hef verið einn í hópi, eins og hann sagði, forustumanna bændastéttarinnar. Ég tel mig ekki vera neinn atvinnubarlómsmann og aldrei hafa verið, en hins vegar vil ég líta á málin af skynsemi og sanngirni.

Hv. 5. þm. Vesturl. spurði sérstaklega um það, hvort við teldum að landbúnaðurinn héngi nú á horriminni. Ég vil aðeins vitna til ársins 1979, þar sem ég tel það sanna hversu traustur landbúnaðurinn er, að hann skyldi standa af sér það árferði og þau áföll af þess völdum eins og þó raun ber vitni. Það hefði landbúnaðurinn ekki gert nema vegna þess hvernig landbúnaðarstefna liðinna áratuga hefur beinst að því að gera hann sterkari og öflugri. Ég tel að það sé ómetanlegt fyrir okkur Íslendinga hversu sterkur landbúnaðurinn raunverulega er: að þola slík áföll án þess að þó fari verr.

En viðvíkjandi því máli sem hér er til umr., vandanum við útflutning landbúnaðarvara, þá er ekki rétt að forustumenn bænda hafi ekki vakið máls á þessu fyrr. Það er öllum kunnugt sem eitthvað þekkja þessi mál, að árið 1972 var flutt hér á Alþ. af þáv. landbrh., Halldóri E. Sigurðssyni, frv. til breytingar á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins, þar sem m.a. áttu að koma inn heimildir til allvíðtækrar stjórnunar á landbúnaðarframleiðslunni til handa Framleiðsluráði landbúnaðarins. Því miður náði þetta frv. ekki fram að ganga og hv. 5. þm. Vesturl. gæti spurt suma af flokksmönnum sínum um það, hver ástæðan var fyrir því.

En allt síðan þá hafa forustusamtök landbúnaðarins óskað eftir að fá slíkar heimildir. En það náði ekki fram að ganga fyrr en á s.l. vori og þá í allt annarri mynd og gekk skemmra en bændasamtökin höfðu óskað eftir. Það er ekki rétt, að bændur vilji eingöngu kasta vandanum frá sér, heldur hafa samtök þeirra árum saman óskað eftir að fá heimildir til þess að koma í veg fyrir að slíkur vandi komi upp sem nú er í útflutningnum. Enda þótt hér sé um vanda að ræða með útflutninginn, þá er langt frá því að það sé hægt að orða það þannig að landbúnaðurinn hangi á horriminni.

Ég held að það komi úr hörðustu átt þegar hv. 5. þm. Vesturl. talar um að menn velti sér upp úr fjölmiðlaljósi. Hver ætli hafi af þeim, sem hér vinna oftar komið fram í sjónvarpi en hv. 5. þm. Vesturl. Hvað meinar hv. þm. með þessum orðum? Ég held áreiðanlega að hann eigi þar margfalt met á við alla aðra.

Ég vil svo að lokum aðeins geta þess, að samtök bænda hafa gert fjölmargar till. um hvernig hægt sé að snúast við þessum vanda á jákvæðan hátt. Öllum ætti að vera kunnugt umtal um nýjar búgreinar og óskir um stuðning til þess að koma slíku á ásamt mörgu öðru. Þess er vænst að það fái stuðning. En það er ljóst öllum sem til þessa, að atvinnugrein getur ekki á einu eða tveimur árum gjörbreytt um framleiðslutegundir. Það þarf nokkurn aðlögunartíma, og það er til þess að komast yfir slíkan aðlögunartíma sem óskað er eftir að þarna verði hlaupið undir bagga af hálfu ríkisvaldsins.