10.03.1980
Efri deild: 44. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ekki skal ég tefja fyrir framgangi þessa máls. Það er öllum ljóst, að Sjálfstfl. leggur á það mikla áherslu að málið nái fram að ganga sem allra fyrst. En mér finnst ekki drengilegt af stjórnarsinnum, eins og kom fram hjá hv. þm. Stefáni Jónssyni, að fara að ráðast að einum þm. Sjálfstfl. sem dyggilega hefur stutt að framgangi þessa máls, Agli Jónssyni, og tala um að hann væri að varpa steini í götu þeirra manna sem af heiðarleik og eindregni vinna að lausn mála. Við vitum ósköp vel að málið strandaði ekki á afstöðu sjálfstæðismanna og kannske síst Egils, sem strax við 1. umr. — og þá var hæstv. landbrh. raunar ekki staddur hér — gaf þá yfirlýsingu fyrir hönd Sjálfstfl., að við mundum greiða fyrir framgangi málsins. Það á að sjálfsögðu ekki að viðhafa slíkan málflutning og síst af þeim sem þykjast leggja á það áherslu að málið nái sem fyrst fram að ganga.

En til þess að öruggt sé að málið nái fram að ganga nú á nokkrum mínútum, þá verðum við að fá upplýsingar um það, hvort stjórnarsinnar séu loksins orðnir sáttir. Þeir voru langt frá því að vera það, þeir voru langt frá því að vinna af heiðarleik og eindrægni að lausn mála hér síðast þegar við skildum, og vissu allir sem hér voru að þar voru bæði óheiðarleiki og flokkadrættir á ferðinni af verstu sort. (Gripið fram í.) Það var einmitt till. hæstv. viðskrh. Tómasar Árnasonar sem ég ætlaði að spyrja um, hver hefðu orðið afdrif hennar. Hæstv. ráðh. sagðist taka sína till. til baka að sinni. Nú veit ég ekki hvað það þýðir á þingskaparmáli. En alla vega lagði hann á það áherslu, að hún væri ekki endanlega tekin til baka. Venjulega segja menn þá: Ég tek till. til baka til 3. umr. Hann gerði það ekki. Hún hefur ekki sérstaklega komið til umr. hér núna og þess vegna vænti ég þess, að sú till. sé úr sögunni og a.m.k. á yfirborðinu séu stjórnarsinnar sammála um afgreiðslu málsins. Og ég held að ég megi lýsa því yfir fyrir hönd allra þm. Sjálfstfl., að við séum reiðubúin að ganga til atkv. bæði við 2. og 3. umr. án frekari málalenginga. Það hafa ekki verið neinar málalengingar af okkar hálfu. Aðrir hafa stofnað til þeirra. Og ég vil ekki segja að hv. þm. Alþfl. hafi gert neina tilraun til að stofna málinu í hættu. Þeir voru reiðubúnir til þess að afgreiða það hér áður en við fórum í fríið, það vissu allir menn, og þeir gáfu um það margfaldar yfirlýsingar. Þó að ég sé ósammála þeim efnislega, þá komu þeir algerlega heiðarlega fram að því er formhliðina varðandi og þingsköp. En ég leyfi mér þá að líta svo á, að till. hæstv. viðskrh. sé endanlega dregin til baka og gangi ekki til atkv.