10.03.1980
Neðri deild: 41. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (1048)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil fagna því að þinghlé það, sem nú er er lokið, hefur haft góð áhrif á hv. 9. þm. Reykv. Hann hefur verið í einhvers konar ræðumennskuhvíld undanfarið, eða þann tíma sem hann var ráðh., og ég fagna því að nú skuli aftur lifna yfir þingstörfunum. (Gripið fram í: Við ættum báðir að hvíla okkur öðru hvoru.) Já, við fengum jafnlanga hvíld báðir tveir svo ég held að við séum báðir tilbúnir í slaginn. En ég skil mætavel að hv. þm. og flokksmenn hans sætti sig illa við nýja ríkisstj. og nýja stefnu í ýmsum málum, ekki bara í vaxtamálum, heldur sætta þeir sig illa við að vera ekki áfram í þeirri aðstöðu sem þeir á mjög óvenjulegan hátt komust í um tíma.

Það er ýmislegt sem ég hef við málflutning hv. þm. að athuga, en þó hef ég meira við málið sjálft að athuga. Vaxtaaukastefnan — þessi raunvaxtastefna sem þeir Alþfl.-menn börðu í gegn á þeim tíma sem þeir voru í aðstöðu til að hafa áhrif á svonefnd Ólafslög — er röng frá upphafi til enda. Ég vil færa nokkur rök að þessum orðum mínum.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. sagði: Það að framfylgja þessari stefnu ýtir ekki undir brask. Ég tel að hin nýja raunvaxtastefna ýti undir aðra möguleika á braski en áður var. Og þeir möguleikar eru, svo sem heyrist að nú eigi sér stað, að menn leggi inn á vaxtaaukareikninga og taki svo út eftir ákveðinn tíma til að leggja inn aftur til að fá svo vexti á vextina plús höfuðstólinn. Þetta er nýtt brask, og þetta brask kom með hinum nýju lögum.

Þessi vaxtaaukatrygging gætir ekki hagsmuna sparifjáreigenda. Það. er langt frá því. Þessi lög gæta hagsmuna bankanna gegn sparifjáreigendum. Og ég er ansi hræddur um að embættismenn hafi komið meira við sögu í mótun þessara laga en á yfirborðinu virðist vera, því að það eru hagsmunir sparifjáreigenda annars vegar og hagsmunir bankavaldsins hins vegar sem hér er um að tefla. Ef höfuðstóll sparifjáreigenda hefði aftur á móti verið tryggður á raunverulegan hátt hefði höfuðstóllinn aukist á vissu mánaðabili — á þriggja mánaða bili — og vextirnir þá kannske verið skaplegir og eðlilegir miðað við það sem vextir eiga að vera þar sem efnahagsástand er eðlilegt. En nú eru 32% innlánsvextir á bundnar bækur, ársbækur, en útlánavextir eru 42%. Mjög stór hluti sparifjáreignar landsmanna er á hinum bundnu bókum, en afskaplega lítill hluti af því fé er lánað út öðruvísi en á fullum vaxtaaukaþunga, sem er 42%. Það er 10% munur á innlánsvöxtum bankaanna og útlánsvöxtum. Þá eru bankarnir orðnar hreinar okurstofnanir, enda er hagur þeirra nú þannig að hann hefur líklega aldrei verið betri. Þar vil ég segja að Alþ. hafi brugðist sparifjáreigendum. Vextir eru reiknaðir um áramót af sparifjárinnstæðu, af höfuðstólnum. Þá kemur vaxtasveiflan á árinu til tekna hjá sparifjáreigendum, í staðinn fyrir að hún ætti að koma sem innlegg á þeim tíma, sem verðsveiflurnar eru reiknaðar út, og bætast þá við höfuðstólinn. Meðan það er ekki gert skulum við ekkert vera áð blekkja okkur, ekki að reyna að bekkja hver annan eða blekkja sparifjáreigendur með því að telja þeim trú um að við séum að gæta hagmuna þeirra. Þetta er ekki eini blekkingarleikurinn sem Alþfl. hefur staðið fyrir.

Það þarf að endurskoða hugsunina bak við þá lagasetningu sem hér hefur verið rætt um. Það þarf að breyta lögunum á þann hátt að sparifjár og hagsmuna sparifjáreigenda sé gætt, eins og hugsunin var og kom fram hér í umræðum á sínum tíma.

Hvað er tapið mikið fyrir sparifjáreigendur ef höfuðstóllinn stækkaði í krónutölu við reikningsskil á þriggja mánaða fresti? Hvað er þá tekjutap sparifjáreigenda mikið ef það er 3%, 1.8 milljarðar á þriggja mánaða fresti? Það fer upp í 7–8 milljarða á ári eða kannske meira.

Ég tel að það sé fyllilega kominn tími til að þessar aðgerðir í vaxtamálum séu rannsakaðar og skoðaðar gaumgæfilega. Ég vil taka undir með þeim sem hafa hreyft þeirri hugmynd á Alþingi nokkrum sinnum síðan ég tók hér sæti, að lög um Seðlabanka Íslands, og þá áhrif Seðlabanka Íslands og hvernig hann er frjáls að því að nota það fé sem er á milli handa í Seðlabankanum, séu endurskoðuð. Ég á t.d. afskaplega bágt með að sætta mig við það, ef það er staðreyndin, — ég á eftir að kanna það sjálfur, en mér hefur borist það til eyrna, — að enginn endurskoðandi sé kosinn í Seðlabanka Íslands, þeir hafi endurskoðunardeild þar sem þeir ráði endurskoðendur og það sé eina endurskoðunin í þeim banka. Ef svo er, þá er það að mínu viti afskaplega óheppilegt og óeðlilegt. Það er margt í rekstri Seðlabankans sem ég vildi gjarnan athuga.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. En ég vil undirstrika að meðan höfuðstóll sparifjáreigenda er ekki tryggður, en vextirnir eru tryggðir á þann hátt sem þeir eru tryggðir nú, er verið að gæta hagsmuna peningastofnananna frekar en sparifjáreigendanna. Því þarf að breyta.