10.03.1980
Neðri deild: 41. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Hér eru til umr. utan dagskrár lög nr. 13 frá 1979, sem kveða á um að fullri verðtryggingu skuli komið á sparifé, inn- og útlán, í áföngum fyrir árslok 1980.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason hefur haft uppi ákaflega stór orð í þessari umr. Ég vil sérstaklega leggja áherslu á það, að í þessum lögum segir að verðtryggingu skuli komið á í áföngum fyrir árslok 1980. Það er ekkert í lögunum sem segir í hve mörgum áföngum, heldur eingöngu hvert lokamarkið skuli vera. Hér getur því ekki verið um nein lögbrot að ræða, eins og hv. þm. lýsti hér áðan. Hér er eingöngu um að ræða framkvæmd þessara laga. Og þá verða menn sérstaklega að hafa það í huga að hér hefur nýlega verið mynduð ríkisstj. sem með sérstökum stjórnarsáttmála hefur ákveðið að takast á við verðbólguna í þessu landi með ýmsum aðgerðum, svo sem með því að leggja sérstakar hömlur á verðlagshækkanir, með ýmsum aðgerðum í fjármálum ríkisins, peningamálum, fjárfestingarmálum o.s.frv. Þess vegna er sú ákvörðun eðlileg að vextir hækki ekki nú. Hún er eðlileg og í fullu samhengi og samræmi við aðrar ákvarðanir sem nú er verið að taka í efnahagsmálum og fjármálum ríkisins. Ég get ekki séð að það sé á nokkurn hátt lögbrot sem hér er verið að gera — engan veginn. Og það er alls ekki alfarið bundið vaxtahækkunum að koma á verðtryggingu sparifjár. Það veit hv. þm. Vilmundur Gylfason að hægt er að gera líka með því að ná verðbólgunni niður, og sjálfsagt erum við sammála um að það væri æskilegri leið. Ekki síður vil ég vekja athygli á því, að ákvörðunin um að hækka ekki vexti nú er að sjálfsögðu í samhengi og samræmi við að nú eru menn að leggja fram fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun og ýmsar stefnumarkandi ákvarðanir í efnahagslífi þjóðarinnar er verið að taka einmitt nú.

Ég ætla að virða orð forseta um að fara ekki út í almennar umr., þó að ástæða væri til þess af ýmsu sem hér hefur komið fram. En ég vil þó sérstaklega benda á, vegna ummæla hv. þm. Friðriks Sophussonar áðan um vaxtamálin, að í þeim plöggum, sem sjálfstæðismenn lögðu fram í stjórnarmyndunarviðræðunum fyrir skömmu, voru sérstök ákvæði um vaxtamálin. Og ég vil lesa hér a-lið 4. gr., með leyfi forseta, þar sem segir í plaggi þeirra sjálfstæðismanna:

„Vegna aðgerða í verðlagsmálum verði vextir ekki hækkaðir í febrúar, en þeim haldið óbreyttum uns verðbólgustigið er komið niður fyrir þá og jákvæðir raunvextir tryggðir“.

Þetta er í rauninni alveg í samræmi við það sem menn eru að segja í stjórnarsáttmálanum og reyna að framkvæma.