10.03.1980
Neðri deild: 41. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Hér hefur verið minnst á efnahagslögin sem samþ. voru fyrir réttum 11 mánuðum. Eitt af því fáa bitastæða, sem átti að vera í þeim lögum, voru ákvæðin um vaxtamál og verðtryggingu sparifjár. Það átti að koma á jákvæðri ávöxtun fjármagns er menn legðu til hliðar. Hver hefur raunin orðið af framkvæmd þessara laga í 11 mánuði? Hverjir eru þeir áfangar, eins og síðasti hv. ræðumaður Guðmundur G. Þórarinsson nefndi, sem hafa náðst samkv. þessum lögum, miðað við þann tíma þegar lögin voru sett? Ég held að það sé gott ef við stöndum í sömu sporum, og jafnvel er ávöxtun sparifjár neikvæðari nú en var fyrir 11 mánuðum. Mér er nær að halda að sparifjáreigendur tapi meira nú, þrátt fyrir hærri vexti e.t.v. að nafninu til, vegna þess að verðbólgan hefur vaxið ennþá meira.

Við sjálfstæðismenn vöruðum við því, þegar efnahagslögin voru sett, að tengja saman með reglubundum hætti vexti og verðbólgustig þegar fyrirsjáanlegt væri að verðbólgan færi vaxandi, vegna þess að í efnahagslögunum, sem sett voru fyrir 11 mánuðum og bæði Alþb. og Framsfl. og auk þess Alþfl. báru ábyrgð á, skorti ákvæði sem gáfu mönnum vonir um að verðbólgan færi lækkandi. Og það er sama sagan nú, þegar við stöndum í sömu sporum eða höfum e.t.v. stigið eitt sport eða fleiri aftur á bak frá því fyrir 11 mánuðum, þegar rætt er um heilbrigða ávöxtun sparifjár, að við völd situr ríkisstj. sem hefur ekki boðað í málefnasamningi sínum hvernig að skuli standa í baráttunni gegn verðbólgunni þannig að vonir standi til að hún fari lækkandi. Það eina, sem hæstv. ríkisstj. hefur sagt, ef marka má umsögn Seðlabankans, er að hún ætli að framtengja tímann sem fyrrv. vinstri stjórn ætlaði sér til að koma á samræmi á milli ávöxtunar sparifjár og verðbólgustigs. Hún ætlar að framlengja þann tíma fram yfir næstu áramót. Og þá eru allar líkur til, ef við tölum hér saman eftir 11 mánuði, að því verði sama reynslan og við höfum orðið vitni að síðustu 11 mánuði.

Hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson vitnaði til þeirrar hugmyndar sem ég lagði fram í stjórnarmyndunarviðræðunum, þar sem skýrt var kveðið á um að vextir skyldu ekki hækka eða verðbótaþáttur vaxta miðað við 1. mars s.l. Það er alveg rétt. En þessi hugmynd var bundin öðrum aðgerðum á sviði efnahagsmála, og samkv. mati Þjóðhagsstofnunar hefði verðbólgustigið verið komið niður í 26% í ágústmánuði n.k. ef farið hefði verið eftir þeim hugmyndum sem ég lagði fram í stjórnarmyndunarviðræðunum. Undir þeim kringumstæðum var eðlilegt að verðbótaþáttur vaxta væri óbreyttur þar til að vaxtaákvörðun kæmi miðað við 1. sept. n.k. Þá hefði verið komið að því að þeim áfanga eða því markmiði væri náð að um jákvæða ávöxtun fjármagns væri að ræða miðað við verðbólgustig. Það er þetta sem skiptir öllu máli.

Nú er það svo, að auðvitað er ekki hægt að tala um vaxtamál nema í tengslum við aðra þætti efnahagsmála. Það er auðvitað annmarkinn á þeim aðgerðum, sem fyrrv. vinstri stjórn og núv. vinstri stjórn ýmist gera eða boða, að ekki er um samræmda stjórn efnahagsmála að ræða. Það er þörf á slíkri samræmingu ef við ætlum að ná árangri. Nokkrir hv. ræðumenn, eins og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson og raunar fleiri, Halldór Ásgrímsson einnig, hafa nefnt að í vændum væru ýmsar ákvarðanir, eins og t.d. í verðlagsmálum eða kjaramálum, og setning fjárlaga og gerð fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar væri í undirbúningi. Við höfum ekki séð hér á þingi nema það frv. til fjárlaga sem lagt var fram í dag, en af því má marka og þeim fréttum, sem af því höfðu áður borist, að þar sé ekki um fjárlög að ræða sem líkleg séu til þess að hamla gegn verðbólgunni. Þetta eru verðbólgufjárlög. Það er upplýst að utan þeirra eru margir útgjaldaliðir sem við þurfum með öðrum hætti að standa undir, annaðhvort með sérstakri skattheimtu eða með aukinni lántöku sem þá ætti að fella inn í lánsfjáráætlun.

Af þessu tilefni hlýt ég að spyrja: Hvað liður framlagningu lánsfjár- og fjárfestingaráætlunar? Útilokað er að ætlast til þess að Alþingi afgreiði fjárlög án þess að fram hafi komið og rædd hafi verið lánsfjár- og fjárfestingaráætlun fyrir yfirstandandi ár.

Herra forseti. Ég taldi rétt að þessi atriði kæmu fram í tengslum við þær umræður sem átt hafa sér stað varðandi vaxtaákvarðanir eða ákvarðanir um verðbótaþátt vaxta.