11.03.1980
Sameinað þing: 29. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

224. mál, lánakortastarfsemi

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Forseti. Ég hef leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp. til hæstv. viðskrh. og hljóðar hún svo, með leyfi forseta:

„1. Þarf að leita leyfis stjórnvalda til stofnunar lánakortafyrirtækis hér á landi?

2. Eru slík fyrirtæki háð eftirliti, t.d. samsvarandi bankaeftirliti?

3. Ef slík lánastarfsemi er óháð lögum, hyggst þá viðskrn. beita sér fyrir lagasetningu, sem tekur til slíkrar starfsemi og tryggir eftirlit með henni?“

Fsp. þarfnast ekki mikilla skýringa. Fyrir allnokkru birtust fréttir um að starfsemi þessi væri að hefjast hér á landi, og vöktu þær mismikla hrifningu. Telja margir að hér sé á ferðinni enn ein leið til verðbólgumyndunar, þar sem þjónusta þessi byggist á að menn kaupi vörur sem greiða má seinna. Eins og menn munu vita verður unnt að taka út vörur fyrir allt að 200 þús. kr. eða meira, ef samkomulag næst, gegn framvísun plastkorta þessara, sem Kreditkort hf. gefa út í samvinnu við alþjóðafyrirtækið Eurocard, sem sagt er að sé eitt hið stærsta sinnar tegundar í heiminum. Tekið er þó fram, að ekki sé unnt að nota kort þessi erlendis þar sem gjaldeyrisreglur hér í landi leyfi það ekki, en þó er talað um að nýleg rýmkun á gjaldeyrisreglum geti undir vissum kringumstæðum leyft notkun kortanna erlendis og verði frekari rýmkun, segir í frétt, geti Íslendingar brátt verslað með alþjóðlegum lánakortum frá Eurocard. Mánaðarlega munu svo menn fá senda heim gíróseðla og skulu þeir þá greiða úttekt sína að frádregnum 10% af úttektarheimild viðkomandi korthafa, en ætlast er til að þá upphæð greiði korthafinn inn á viðskiptin 15 dögum eftir fyrsta úttektardag. Forsvarsmenn fyrirtækisins leggja á það áherslu, að hér sé ekki um eiginlega lánastarfsemi að ræða, heldur fyrst og fremst innheimtustarfsemi. Standi korthafinn í skilum er kostnaður hans aðeins gjald sem greiðist í upphafi hvers gildistímabils kortsins.

Hvað sem um það má segja er hér augljóslega um að ræða nýja tegund auglýsinga á vörum, þar sem fréttabréf verða gefin út og viðskiptavinum tilkynnt hvaða fyrirtæki hafa tekið upp þessi viðskipti og hvaða vörur eru á boðstólum hjá þeim. Menn hljóta að spyrja, hvort þörf sé á þessari þjónustu hér á landi sem bætir enn við skrifstofubáknið í landinu. Upphaflega mun þetta hafa skotið upp kollinum í stórborgum heimsins, þar sem menn þora ekki að ganga með peninga í fórum sínum af ótta við glæpi. Ég hygg að hv. deildarþm. viti einnig mætavel um þau vanskilamál sem dómarar landsins fást við hundruðum saman ár hvert, svo sem vanskil á víxlum, afborgunum og öðru slíku. Varla væri að undra þó eitthvað því til viðbótar kæmi með lánakortakerfinu, enda hefur það sýnt sig, t.d. í Bandaríkjunum, þar sem starfsemi þessi hefur náð gífurlegri útbreiðslu, að mikil brögð eru að vanskilum, og sömu sögu er að segja í Svíþjóð. Er því svo komið nú, að upp hafa risið ráðgjafaskrifstofur hundruðum saman fyrir fólk sem lent hefur í alvarlegum erfiðleikum vegna óviðráðanlegra skulda. Í erlendum ritum má lesa langar greinar um áhyggjur manna af þessari starfsemi, sem margir telja að geri meiri skaða en gagn. Og það er dálítið erfitt að sjá að starfsemi sem þessi dragi úr verðbólgu sem núv. ríkisstj., eins og margir fyrirrennarar hennar hafa tekið að sér að berjast gegn.

Ég skal ekki hafa þessi orð lengri í bili, en vænti svars hæstv. viðskrh.