11.03.1980
Sameinað þing: 29. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í B-deild Alþingistíðinda. (1061)

224. mál, lánakortastarfsemi

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hv. 8. landsk. þm. hefur borið fram fsp. til mín í þremur liðum. 1. liður fsp. er svo hljóðandi: „Þarf að leita leyfis stjórnvalda til stofnunar lánakortafyrirtækis hér á landi?“

Ekki þarf að leita leyfis stjórnvalda til stofnunar slíks fyrirtækis. Sé slíkt fyrirtæki stofnað í formi hlutafélags fylgist hlutafélagaskrá með því að við stofnun félagsins sé gætt ákvæða nýju hlutafélagalaganna nr. 32 12. maí 1978, um skilyrði fyrir skrásetningu félagsins. Í þessum lögum, sem tóku gildi, að því er ég hygg, um áramót, eru allítarleg ákvæði um skrásetningu hlutafélaga, og viðskrn., sem á að annast þá skrásetningu, er nú að fjalla um það með hverjum hætti verði best fyrir komið framkvæmd þeirrar skrásetningar sem nýju hlutafélagalögin segja fyrir um.

2. liður fsp. er á þessa leið: „Eru slík fyrirtæki háð eftirliti, t.d. samsvarandi bankaeftirliti?“

Viðskrn. sendi fsp. til umsagnar Seðlabankans og fékk umsögn hans um það, hvernig viðskipti í formi kreditkorta samrýmist lögum um banka og lánastarfsemi. Svarið verður á þessa leið:

Lánakortafyrirtæki er ekki samkv. núgildandi lögum og reglum háð eftirliti sem samsvarar bankaeftirliti. Hins vegar er ljóst að ýmis lög mundu taka til slíks fyrirtækis sem og annarra fyrirtækja, t.d. hlutafélagalög og skattalög, og hafa mismunandi stjórnvöld eftirlit með því, að farið sé að ákvæðum slíkra laga. Hlutafélagaskrá mundi t.d. hafa eftirlit með því að fjórðungur hlutafjár væri greiddur, áður en félagið yrði skráð, og afgangur hlutafjár í síðasta lagi innan þriggja ára frá skrásetningu félagsins. Þá yrðu lánakortafyrirtæki að fara eftir ákvörðun Seðlabanka Íslands varðandi vexti og annað endurgjald fyrir umlíðun skuldar, sbr. 13. gr. laga nr. 10 29. mars 1961, um Seðlabanka Íslands, og lög nr. 58 28. júní 1960, um bann við okri, dráttarvexti o.fl. Svo sem aðrir aðilar í þjóðfélaginu verða þau að sjálfsögðu að fara að þessum lögum.

Þriðja atriðið, sem spurt er um, er á þessa leið: „Ef slík lánastarfsemi er óháð lögum, hyggst þá viðskrn. beita sér fyrir lagasetningu, sem tekur til slíkrar starfsemi og tryggir eftirlit með henni?“

Viðskrn. hefur gert ráðstafanir til að afla upplýsinga um lög og reglur um lánakortafyrirtæki í nokkrum nágrannalöndum okkar og mun taka afstöðu til þess, hvort setja þurfi sérstök lög eða reglur hérlendis í ljósi þeirra upplýsinga, sem berast, og reynslunnar af lánakortastarfseminni hér í landinu. Kann vel að vera að það verði talið nauðsynlegt að setja lög um slíka starfsemi sem þessa. Á þessu stigi málsins get ég ekki tjáð mig frekar um þetta, þar sem ég hef ekki tiltækar nauðsynlegar upplýsingar, sem þurfa að vera fyrir hendi þegar á að meta hvort það þurfi eða sé æskilegt að setja sérstaka löggjöf um slíka starfsemi sem þessa.