11.03.1980
Sameinað þing: 29. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

224. mál, lánakortastarfsemi

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Af því að þetta mál kom upp í viðskrh.-tíð minni þykir mér rétt að leggja hér nokkur orð í belg.

Hæstv. viðskrh. hefur nú svarað fsp. formlega, en þetta mál kom til íhugunar strax á sama tíma og Kreditkort tóku til starfa. Þá gerði ég ráðstafanir til þess að leita upplýsinga erlendis um viðskiptahætti af þessu tagi. Meginniðurstaðan úr þeirri upplýsingaöflun varð sú, að þetta væri tiltölulega lítið bundið af lögum eða reglugerðum í grannlöndum okkar, þeim sem upplýsinga var leitað hjá. Virtist meginlínan vera sú, að að svo miklu leyti sem lög eða reglugerðir væru um þetta efni stefndu þau fyrst og fremst að því að vernda hagsmuni þeirra, sem kortin bæru, gagnvart stuldi á kortunum.

Í annan stað gerði ég ráðstafanir til þess að fá umsögn bankaeftirlitsins um það, hvert væri álit þess og Seðlabankans á því máli, hvort starfsemi af þessu tagi samræmdist lögum um bankastarfsemi. Ég trúi að þau svör, sem bárust, séu í fórum viðskrn., og þau svör, sem viðskrh. gaf hér áðan, séu í samræmi við þá umsögn, sem barst frá Seðlabankanum eða bankaeftirlitinu varðandi þetta efni.

Ég held að það sé þrennt sem menn þurfa kannske sérstaklega að íhuga í sambandi við viðskipti af þessu tagi. Auðvitað getur stuldur korta orðið áhyggjuefni. Er þá hægt að styðjast við erlenda reynslu til þess að tryggja hagsmuni þeirra sem kortanna hafa aflað, og ætti að vera hægt að girða fyrir það á bærilegan hátt.

Annað atriðið er spurningin um það, hvort fyrirtæki, sem rekur starfsemi af þessu tagi, sé nægilega traust. Það, sem við þurfum þá að íhuga, eru hagsmunir þeirra verslunarfyrirtækja sem stofna til viðskipta á hinum endanum við fyrirtækið, leyfa skuldfærslu við sig. Ef fyrirtæki þetta er ótraust, þá gæti það komið ýmsum verslunarfyrirtækjum og framleiðslufyrirtækjum illa ef fyrirtæki af þessu tagi „núllaði“, eins og sagt er, og það gæti auðvitað haft mjög slæmar afleiðingar í þjóðfélaginu.

Í þriðja lagi eru það svo þær áhyggjur sem hv. 8. landsk. fjallaði allítarlega um í máli sínu, nefnilega sú hætta að fólk stofni til óheyrilegra skulda þegar lánsfé fæst með greiðum hætti eftir þessari leið. Af þessu hafa menn greinilega ekki haft verulegar áhyggjur í grannlöndum okkar, en ég tel að miðað við þær aðstæður, sem ríkt hafa í íslensku þjóðfélagi, þar sem hefur verið lánsfjárskömmtun, en jafnframt lánsfjáreftirsókn, því að það hefur nánast verið úthlutun á niðurgreiddu fé að geta fengið lán, þá hljóti að vera ástæða til þess í sambandi við hugsanlega reglugerðarsetningu að líta sérstaklega til þess, hvort einhverjar takmarkanir þurfi að vera hér á landi að þessu leytinu vegna þeirra aðstæðna sem við búum við hér í þjóðfélaginu.

Ég vildi einungis beina þessum þremur meginatriðum til hæstv. viðskrh., þegar hann nú heldur áfram að fjalla um þetta mál.