11.03.1980
Sameinað þing: 29. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

74. mál, Sölustofnun lagmetis

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 11. þm. Reykv., Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrir að koma fram með þessar fsp. og hæstv. ráðh. fyrir hans prúðmannlegu svör. Satt best að segja hefur ýmislegt gengið á og ýmislegt verið sagt um sölumál lagmetis á undanförnum árum. Svo langt hefur verið gengið, að prófessor við Háskólann ásakaði þingheim um það, taldi það eitt af því sem væri miður fyrir virðingu Alþingis, að þm. þeyttust um allan heim eins og þeytispjöld til að selja gaffalbita, sem ekki er náttúrlega stafur fyrir. Enginn þm. mér vitanlega hefur tekið þátt í sölustarfsemi af slíku tagi. En svo langt hefur verið seilst til þess að koma höggi á þessa starfsemi í fjölmiðlum.

Ég varð því miður var við það, að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hafði ýmislegt fleira í huga en kom fram í fsp. hans þegar hann flutti hér sína framsögu fyrir þessum fsp. Í sambandi við það, að hann sagði að ég hefði sem stjórnarformaður neitað beiðni iðnrn. um að segja af mér, vil ég aðeins benda hv. þm. og þingheimi á, að ef þetta er rétt, þá væri það kannske ekki alveg rökrétt af þeim iðnrh. að skipa varaformann stjórnarformann, mann sem hefur verið í stjórn Sölustofnunar lagmetis frá stofnun og ber ekkert síður ábyrgð á stjórnarathöfnum þar heldur en við hinir sem erum í stjórninni. Í þessu sambandi vil ég taka það fram — og mér þykir gott að fá tækifæri til að segja frá því hér — að ég varð eins og aðrir þm. að sæta því að það urðu kosningar með skyndingu á s.l. hausti. Þá fékk ég leyfi stjórnarinnar til þess að vera fjarverandi um nokkurt skeið og þá var varaformaður stjórnarformaður. Í framhaldi af þessu færðust þingstörf mikið til á árinu, og eins og hv. þm. er eflaust kunnugt er ég í nokkuð erfiðum þingnefndum, m.a. fjvn., sem hafði fengið ekki færri en þrjú fjárlagafrv. til þess að fjalla um, eins og þau eru nú flókin og fyrirferðarmikil, þannig að ég fór þess á leit við fyrrv. hæstv. iðnrh. að fá formlegt leyfi frá störfum meðan þing stæði. Þannig er nú þetta mál vaxið, og ég vísa því algerlega á bug að þetta sé til komið vegna einhverra ávirðinga stjórnar eða starfsliðs Sölustofnunar lagmetis, enda, eins og ég sagði áðan, væri kannske heldur hlálegt að skipa þá varaformann í formannssæti í fjarveru minni.

Því er ekki að neita, að það hafa farið fram víða í þjóðfélaginu umr. um þá galla sem orðið hefur vart í útfluttu lagmeti að undanförnu og ábyrgð ýmissa aðila, hverjir beri ábyrgð á þessum málum. Ég fékk lögmann stofnunarinnar, sem ég vænti að þekki lög og reglur um útflutning á þessu sviði allra lögfræðinga best og hefur verið lögfræðingur stofnunarinnar frá upphafi, til þess að gera nokkra úttekt á þessu. Hann lét okkur í stjórn Sölustofnunarinnar í té greinargerð um hugsanlega ábyrgð stjórnar Sölustofnunar lagmetis á gölluðum framleiðsluvörum, og þessi álitsgerð var send iðnrn. á sínum tíma. Ég vil, með leyfi forseta, lesa örstuttan kafla úr þessari greinargerð. Þar segir orðrétt:

„Árið 1976 var sett ítarleg reglugerð um framleiðslueftirlit og útflutning á lagmeti, nr. 221 1976. Var í reglugerðinni gert ráð fyrir auknu hráefniseftirliti á vegum Framleiðslueftirlits sjávarafurða. Iðnrn. gaf út reglugerð þessa með stoð í lögum nr. 48/1972. Af einhverjum ástæðum tókst rn. ekki að koma reglugerðinni í framkvæmd og situr við svo búið enn þá, en ný reglugerð er nú nánast tilbúin til útgáfu í meginatriðum byggð á sömu hugsuninni.“ — Þetta er sú reglugerð sem hæstv. ráðh. vék hér að — „Í reglugerð þessari er áfram byggt á meira eftirliti framleiðanda og opinberu eftirliti, en eftirlit ekki lagt á söluaðila, eins og t.d. Sölustofnun lagmetis.“ Ég endurtek: „en eftirlit ekki lagt á söluaðila, eins og t.d. Sölustofnun lagmetis. Virðast allir aðilar, sem um mál þetta hafa fjallað, vera sammála um að ekki sé rétt að leggja eftirlit á söluaðilann, Sölustofnun lagmetis, heldur auka hið opinbera eftirlit og innra eftirlit. Sölustofnun lagmetis hefur ítrekað bent stjórnvöldum á þörf aukins eftirlits og ekki síst þörfina á því að koma reglugerðinni frá 1976 í framkvæmd.“ Síðan segir einnig orðrétt: „Niðurstaða mín er sú, að allar hugsanlegar hugleiðingar um ábyrgð stjórnar Sölustofnunar lagmetis eða starfsmanna Sölustofnunarinnar á göllum í útfluttri framleiðslu frá aðildarverksmiðjum eigi sér enga stoð. Stjórnin hefur enga lagaskyldu vanrækt á þessu sviði og jafnan reynt að hafa áhrif á rétta aðila um aukið og bætt eftirlit.“

Þetta vil ég að komi hér fram, ekki síst vegna þess að svo langt hefur verið gengið á þessum sviðum að einn opinber starfsmaður réðst með mjög svo óviðurkvæmilegu orðalagi að forstöðumanni Sölustofnunar lagmetis þegar hann var að gera aths. við blaðaskrif hans nú fyrir skömmu. Og það er alveg ljóst samkv. þessu, að í raun er hér ekki um mál að ræða sem Sölustofnun lagmetis getur við ráðið. Hér verður því — ég tek undir það með hæstv. ráðh. — að efla hið opinbera eftirlit og alveg sérstaklega innra eftirlitið í verksmiðjunum sjálfum.