11.03.1980
Sameinað þing: 29. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (1070)

74. mál, Sölustofnun lagmetis

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Varðandi ábendingar og athugasemdir frá hv. fyrirspyrjanda vil ég segja hér nokkur orð. Hann vék að því, að ekki hefði komið fram í svörum mínum hver hefði ákveðið að Norðurstjarnan í Hafnarfirði segði sig úr Sölustofnun lagmetis. Ég skal reyna að gera betri grein fyrir þessu heldur en fólst e.t.v. í svari mínu áðan.

Sá aðili sem tók um þetta ákvörðun, var stjórn fyrirtækisins Norðurstjörnunnar hf., sem Framkvæmdasjóður er sem kunnugt er verulegur aðili að. Í bréfi, sem skrifað er Sölustofnun lagmetisiðnaðarins 28. des. s.l., segir svo orðrétt:

„Á fundi sínum í dag gerði stjórn Norðurstjörnunnar hf. svo hljóðandi samþykkt:

Í framhaldi af ákvörðun stjórnar Norðurstjörnunnar hf. 20. sept. 1979 og bréfi félagsins til Sölustofnunar lagmetisiðnaðarins, dags. 21. sept. 1979, og sökum þeirrar óvissu, er ríkir um skipan markaðsmála á Bandaríkjamarkaði, lítur stjórn Norðurstjörnunnar hf. svo á, að föst og óuppsegjanleg aðild félagsins að Sölustofnun lagmetis um næstu tvö ár sé næsta óráðleg, og segir því upp aðild sinni að Sölustofnun lagmetisiðnaðarins miðað við n.k. áramót og komi sú ákvörðun til framkvæmda 1. jan. 1981, eins og núgildandi lög um Sölustofnun lagmetis gera ráð fyrir.

Þetta tilkynnist yður hér með.“

Undirritað af fjórum stjórnarmönnum Norðurstjörnunnar hf.

Af tilefni þessa bréfs skrifaði stjórn Sölustofnunar lagmetis stjórn Norðurstjörnunnar og greindi henni m.a. frá horfum og fyrirhuguðum aðgerðum á Bandaríkjamarkaði, sem var megintilefni að þessari ákvörðun stjórnar Norðurstjörnunnar. Segir þar í lokin orðrétt:

„Því fær stjórn Sölustofnunar legmetis ekki skilið efnisástæður þær, sem þér færið fram fyrir úrsögn yðar og væntir þess í samræmi við síðari viðræður milli aðila, að Norðurstjarnan hf. verði traustur hlekkur í Sölustofnun lagmetisiðnaðarins framvegis.“

Mér er tjáð að þær aðgerðir, sem síðan hafa verið gerðar á Bandaríkjamarkaði af hálfu stjórnar Sölustofnunar lagmetis með sölu á umræddri söluskrifstofu, bendi til þess, að stjórn Norðurstjörnunnar muni sjá sér fært að endurskoða þessa ákvörðun sína.

Það var fleira sein hv. fyrirspyrjandi vék að og taldi að ekki hefði komið fram sem skyldi. Það má lengi leita upplýsinga og ég hef hér ekki sundurgreiningu, eins og fram kom í svari mínu, milli fjárveitinga til markaðsöflunar og sölustarfsemi. Eflaust er hægt að afla fyllri upplýsinga um það og sjálfsagt að það verði gert ef sérstaklega er eftir því óskað.

Varðandi það atriði í lögum og reglum Sölustofnunar lagmetis, að ekki njóti aðrir styrkja úr Þróunarsjóði lagmetis, þá má vera að það þyki óeðlilegt. Ég vil þó minna á að hér er um að ræða fyrirtæki sem reist var til þess að skipuleggja sölu og markaðsöflun fyrir íslenskt lagmeti með hlutdeild og styrk af hálfu íslenska ríkisins, og til þess að breyting verði á þessum atriðum þarf að endurmeta þessa þætti. Það er ofur eðlilegt, að í ljósi þeirrar reynslu, sem fengist hefur af þessari starfsemi á undanförnum árum, verði lög um Sölustofnun lagmetis og reglur varðandi Þróunarsjóð tekin til endurmats, og ég er reiðubúinn að beita mér fyrir endurskoðun að þessu leyti og tel raunar ofur eðlilegt að yfir þau mál sé litið í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur.

Varðandi þá athugasemd hv. fyrirspyrjanda, að enginn aðili hafi yfirlit um tjónamál þau sem orðið hafa í lagmetisiðnaði á undanförnum árum, þó sérstaklega síðustu tvö árin, þá geri ég ráð fyrir að ná mætti saman grófum upplýsingum þar að lútandi, en uppgjör á þeim tjónamátum var, eins og fram kom í svari mínu, í verkahring viðkomandi framleiðenda, sem gert var að bera kostnað af þeim og standa undir þeim tjónum, þannig að það er þá í verkahring viðkomandi framleiðenda að gera grein fyrir því. Vissulega væri hægt að óska eftir því við stjórn Sölustofnunar lagmetis, að hún fengi slíkar upplýsingar frá framleiðendum, til þess að yfirlit lægi fyrir í meginatriðum.

Hvað snertir tjón vegna gaffalbitasölunnar á síðasta ári, þá var það upplýst, að mig minnir, í umræðum hér á Alþ. í aðalatriðum, hversu mikinn vanda væri þar við að etja, hversu mikið þetta tjón gæti orðið hugsanlega, og ég get vísað til þess. Auk þess hefur margt komið fram í fjölmiðlum um þessi efni. En það er vissulega alls ekkert óeðlilegt hjá hv. fyrirspyrjanda að ætlast til þess, að þeir aðilar, sem um þessi mál fjalla, hafi yfirlit í meginatriðum yfir stöðuna hvað þetta snertir.

Þá vék hann að því ákvæði í lögum um Sölustofnun lagmetis þar sem svo er kveðið á í 2. gr., að stofnunin skuli m.a., eins og þar segir orðrétt, „annast sölu á niðursoðnum og niðurlögðum sjávarafurðum til landa þar sem ríkisstofnun, ríkið sjálft eða aðili fyrir þess hönd er aðalkaupandinn.“ Þetta taldi hv. fyrirspyrjandi óeðlilegt ákvæði og að þessu bæri að breyta. Ég vil ekki að óathuguðu máli taka undir það, að þarna beri að gera breytingu á. Það má vera að sumum þyki þetta ekki eðlilegt ákvæði, og vissulega hefur verið fundið að þessu af aðilum sem hafa viljað komast inn á markaði eins og markaði fyrir lagmeti í Austur-Evrópu. En þetta varðar fyrst og fremst sölu á lagmeti þangað, þar sem það eru fyrst og fremst ríkisaðilar eða opinberir aðilar sem eru viðskiptavinir okkar í þessum löndum. Ég hygg að það væri ekki okkar markaði á þessu svæði — eða þar sem eins háttar til — ótvírætt til framdráttar að breyta þessu ákvæði, að þarna væru íslenskir framleiðendur í samkeppni um þessa markaði, þar sem fyrst og fremst er um einn kaupanda að ræða. Það gæti leitt til óhagstæðari niðurstöðu. En á þessu geta menn vissulega haft misjafnt mat.

Hvað snertir gæðamálin mætti kannske ætla að það mundi ýta undir bætt gæðaeftirlit og meiri vöruvöndun en ella ef fleiri kepptu um þann markað sem hér er til umræðu. Ég er þó ekki viss um að það eitt út af fyrir sig leiddi til slíks. Meginatriðið í þessum málum og varðandi það, sem hér hefur verið að vikið réttilega, þann vanda sem snýr að gæðum þessarar framleiðsluvöru okkar, er það, að þar verði tekið betur á með samstarfi opinberra aðila, sem eiga að annast þetta eftirlit, og framleiðendanna sjálfra, alveg sérstaklega fyrirtækjanna sjálfra, og að þau leggi sig fram um að tryggja að hér sé um að ræða frambærilega vöru, vöru sem standist allar eðlilegar gæðakröfur. Þetta skiptir auðvitað mjög verulegu máli. Sú reglugerð, sem unnin hefur verið í samvinnu ráðuneyta og opinberra stofnana og í samvinnu við Sölustofnun lagmetis um þetta atriði og senn verður staðfest, að ég vænti, og útgefin, á að leiða til þess, að þarna verði mjög veruleg breyting á. En við undirbúning reglugerðar á árinu 1976 urðu veruleg mistök varðandi það að tryggja samstarf þeirra aðila sem taka áttu þátt í þessu gæðaeftirliti.

Þá spurði hv. 2. þm. Reykn. um það, hvort þróunarsjóður lagmetis ætti orðið fasteign hér í bæ. Varðandi mál Þróunarsjóðs lagmetis beitti ég mér fyrir því á s.l. sumri, að skipti hans við Sölustofnun lagmetis yrðu tekin til endurmats og uppgjörs. Að því var unnið í tíð fyrrv. ríkisstj. að framfylgja því sem hafði verið sett í gang að þessu leyti fyrir tilstuðlan iðnrn., og þessu uppgjöri var lokið nálægt síðustu áramótum. Einn liður í því má ég segja — og vil þó ekki fullyrða það ákveðið — að hafi verið það, að gengið hafi verið frá eignaraðild Þróunarsjóðs lagmetis í húsnæði sem Sölustofnun lagmetis hefur reist, en segi þetta þó með fyrirvara þar sem ég hef ekki farið nákvæmlega yfir þessi gögn. En frá uppgjöri þessa máls var gengið í náinni samvinnu við ríkisendurskoðun og það til lykta leitt með samkomulagi milli aðila.