11.03.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (1075)

38. mál, Dalabyggðaráætlun

Flm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Á þskj. 38 flyt ég till. til þál. um framkvæmd Dalabyggðaráætlunar. Meðflm. eru aðrir þm. Vesturl. ásamt 2. landsk. þm. Till. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um að fullfrágengin Dalabyggðaráætlun hjá Framkvæmdastofnun ríkisins, byggðadeild, verði samþykkt, gefin út og fjármögnuð til framkvæmda 1980.“

Ég vil taka það sérstaklega fram, að þessi þáltill. var eitt af fyrstu málum þessa þings, en því miður hafa ýmsar orsakir orðið til þess að þetta mál á þskj. 38 er svo síðbúið sem raun ber vitni.

Forsendan fyrir vinnu byggðadeildar að málefnum Vesturlands er sú, að árið 1969 var borin fram á Alþ. þáltill. um svokallaða Vesturlandsáætlun. Henni var ætlað að koma fram með till. um hvernig treysta mætti atvinnugrundvöll í Vesturlandskjördæmi, einkum þar sem atvinnuástand var ekki öruggt og þar sem iðnaður gæti fyllt upp í og skapað öryggi í atvinnu við hlið hinna hefðbundnu atvinnugreina í sjávarútvegi, fiskvinnslu, landbúnaði, verslun og hinum ýmsu þjónustugreinum, eins og tekið var til orða.

Framkvæmdastofnun ríkisins hóf vinnu við Vesturlandsáætlun, þ.e. byggðaáætlun fyrir Vesturland, árið 1974 í samráði við Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi. Hefur því starfi verið haldið uppi síðan og hafa verið gefnar út ýmsar tölulegar upplýsingar um stöðu landshlutans, sem teknar hafa verið fyrir á aðalfundum Samtaka sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi og innan Framkvæmdastofnunar ríkisins. En þessi gagnaöflun og upplýsingar eru mjög mikilvægar og vel unnar, gefnar út í vönduðum bæklingum. Stjórn og nefndir á vegum Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi hafa tekið virkan þátt í þessu starfi í samráði við byggðadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins. Ég nefni hér álitsgerð og úttekt varðandi samgönguáætlun, raforkuáætlun, varmaveitur, úttekt á skólahúsnæði, heilbrigðisáætlun, jarðefnanámur í Vesturlandskjördæmi, fiskimið, atvinnuáætlun, hráefnisöflun í sjávarútvegi o.fl.

Þegar upplýsingar lágu að miklu leyti fyrir um stöðu Vesturlands í byrjun árs 1977 var ljóst að alhliða byggðaþróunaráætlanir fyrir heilu kjördæmi skiluðu ekki þeim árangri sem vonir stóðu til. Var sú stefna tekin í áætlunargerð á Vesturlandi í samráði við samtök sveitarfélaga að takmarka áætlunarstarfið við eitt byggðasvæði hverju sinni. Með byggðasvæði er átt við landssvæði, þar sem íbúarnir annaðhvort sækja eða gætu sótt almenna þjónustu til eins aðalþjónustukjarna innan byggðarinnar, búa við líkar aðstæður og hafa hliðstæð meginvandamál við að fást á sviði atvinnu-félags- og menningarmála.

Byggðirnar á Vesturlandi hefur byggðadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins skilgreint til áætlunargerðar þannig: Dalabyggð, sem spannar yfir Dalasýslu og þrjá hreppa í A-Barðastrandarsýslu. Snæfellsnesbyggð. Borgarfjarðarbyggð, sem nær yfir Mýrasýslu og Borgarfjarðardali norðan.heiðar. Akranesbyggð, sem tekur til Akraness og byggðarinnar sunnan heiðar.

Á grundvelli þeirra gagna, sem aflað hefur verið og unnið úr um stöðu Vesturlands, voru allir sammála um þá niðurstöðu, að Dalabyggð væri hvað verst á vegi stödd, m.a. vegna mikillar íbúafækkunar síðustu áratugi, einhæfni atvinnulífs og lágra brúttótekna. Var því ákveðið að hefja vinnu við byggðaáætlun fyrir Dalabyggð. Var skipulega unnið að þessari áætlunargerð í fullri samvinnu við heimamenn. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og aðra aðila tengda málinu. Í febrúarmánuði 1978 var heimilað að gefa út skýrslu sem trúnaðarmál undir heitinu: Dalabyggð, drög að byggðaþróunaráætlun. Með útgáfu skýrslunnar var ætlunin að fá fram skoðanir hlutaðeigandi aðila um efni hennar áður en endanleg skýrsla yrði borin undir stjórn Framkvæmdastofnunarinnar til samþykktar eða synjunar. Í marsmánuði 1978 var efnt til fundar á Hótel Heklu. Voru allir þm. í Vestfjarða- og Vesturlandskjördæmi boðaðir á fundinn. Þetta var fyrsti fundurinn sem boðað var til um efni skýrslunnar. Á sumar- og haustmánuðum voru haldnir fundir með forsvarsmönnum allra sveitarfélaga á áætlunarsvæðinu svo og fulltrúum þeirra opinberu stofnana, sem einstakir efniskaflar skýrslunnar voru taldir varða. Drög að byggðaþróunaráætlun fyrir Dalabyggð voru til kynningar lögð fyrir fyrsta fund hinnar nýju stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins ásamt yfirliti yfir helstu niðurstöður og tillögur um aðgerðir. Á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi haustið 1978 var sú eindregna skoðun látin í ljós, að afgreiðsla stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins á byggðaþróunaráætlun fyrir Dalabyggð væri prófsteinn á það, hvort samtökin teldu ástæðu til að taka frekari þátt í áætlunarstarfi stofnunarinnar.

Í áætluninni eru settar fram tillögur um aðgerðir til þess að hafa bein áhrif á byggðaþróun á svæðinu. Er þar annars vegar um að ræða tillögur um sérstakan stuðning við landbúnað í því skyni að bæta búskaparhætti og tryggja rekstrarafkomu býla, hins vegar tillögur um eflingu iðnaðar til að auka á fjölbreytni atvinnulífs og draga þannig úr brottflutningi íbúa frá svæðinu. Markmiðið er að treysta búsetu og viðhalda byggð á öllu svæðinu.

Dalabyggðaráætlun var fullgerð í byrjun árs 1979. Hafði áætlunin verið kynnt rækilega, m.a. fulltrúum stjórnvalda, ríkisstofnana og hagsmunasamtaka, sveitarstjórna, búnaðarsambanda og fleirum. Endanlegar tillögur áætlunarinnar hlutu meðmæli frá öllum aðilum sem leitað var til, enda ljóst að framkvæmd hennar mun leiða til framfara á svæðinu. Þær tillögur um sérstakar lánafyrirgreiðslur, sem settar eru fram í áætluninni, eru þessar:

1) Til að tryggja rekstrarafkomu býla:

a. Lán til ræktunar.

b. Lán til súgþurrkunarkerfa.

c. Stuðningur við félagssamtök bænda.

d. Sérstök endurbyggingarlán í Gufudalshreppi.

2) Til að byggja upp staðarkjarna:

Bygging iðngarða í Búðardal.

Lán til viðbótar venjubundnum lánum fjárfestingarlánasjóða iðnaðarins.

3) Sérstakur stuðningur við uppbyggingu nýrra búgreina:

Samkv. áætluninni er gert ráð fyrir sérstökum lánum úr Byggðasjóði til þeirra verkefna sem hér hefur verið gerð grein fyrir.

Samkv. tillögum í byggðaþróunaráætluninni fyrir Dalabyggð er áætlað að hámarksframkvæmdir kosti um 900 millj. kr. miðað við verðlag um áramót 1978–1979. Þar af er hlutur Byggðasjóðs áætlaður um 220 millj. á fimm árum, en það jafngildir um 45 millj. á ári eða um 1% af ráðstöfunarfé Byggðasjóðs 1979 á verðlagi þess árs.

Mjög almennur áhugi er fyrir framgangi þessa máls á öllu svæðinu. M.a. hefur búnaðarsambandið lagt fram mikið starf. Sveitarstjórn og atvinnumálanefnd Laxárdalshrepps beittu sér fyrir því á s.l. hausti, að stofnað var félag í Búðardal til vinnslu á afurðum af sel, svo sem sútun selskinna og fullvinnslu skinna. Þar eru sett fram þau markmið:

1) að nýta selastofninn við landið,

2) að draga úr þeim skaðlegu áhrifum sem fjölgun sela hefur á hringormamyndun í nytjafiski,

3) að auka fjölbreytni í framleiðsluiðnaði landsmanna,

4) að skapa atvinnumöguleika,

5) að stuðla að jafnvægi í lífríki hafsins og við strendur landsins.

Er hér vissulega um áhugavert mál að ræða sem er nú í ítarlegri skoðun.

Leirvinnsla við Búðardal er enn í athugun, og nauðsynlegt er að kanna til hlítar möguleika til framleiðslu. Nýlega hefur verið upplýst að Iðntæknistofnun hefur að undanförnu gengist fyrir því, að kannað væri notagildi svokallaðs Búðardalsleirs og þá einkum með tilliti til framleiðslu gróf-keramiks. Hefur á vegum stofnunarinnar verið unnið að söfnun sýna sem eru nú til rannsóknar í Bretlandi. Skýrsla um niðurstöður er væntanleg nú á næstunni.

Samkv. þeim upplýsingum, sem fram hafa komið á þessu sviði er talið að þarna geti verið um mjög góða framleiðslu að ræða. Þetta mál hefur verið oftar en einu sinni til umfjöllunar hér á Alþingi. Árið 1957 var samþykkt tillaga á Alþ. um athugun á leirverksmiðju í Dalasýslu. Frumathugun hafði verið gerð, en niðurstöður reynst neikvæðar. En árið 1969 var Rannsóknastofnun iðnaðarins og Orkustofnun falið að rannsaka notagildi íslensks leirs og þaðan var erindinu vísað til Rannsóknaráðs sem lagði til að frekari rannsóknir yrðu gerðar á leirnum svo og á markaðsöflun. Þannig hafði verið að þessu máli staðið, en nú hefur málið verið tekið upp að nýju. Það veltur mjög á þeirri skýrslu sem væntanleg er frá Bretlandi, hvort þessi leir reynist hæfur til framleiðslu á múrsteinum, flísum og klæðningarplötum, en athuganirnar miðast fyrst og fremst við slíka framleiðslu. En þess má geta, að feikilegt magn af leir er fyrir hendi á þessu svæði, þar er talin ein stærsta leirnáma sem finnst hér á þurru landi.

Ég vil einnig geta hér um eitt mál sem er nú mjög ofarlega á baugi í Dalabyggð og þarf að taka til meðferðar nú á næstu vikum. Það er vatnsöflun fyrir þéttbýlið í Búðardal. Það liggur fyrir að fram undan er neyðarástand vegna vatnsskorts á svæðinu. Þau áform, sem þegar hafa verið kynnt, eru um það að leggja nýja vatnsleiðslu um 27 km leið og mun hún kosta á núverði 266 millj. kr. Ætlunin er að reyna að koma þessu máli fram nú á þessu vori og sumri. Hér er um stórt mál að ræða fyrir svona lítið byggðarlag, sem er það mikilvægt að leyst verði, að um byggð verður ekki að ræða ef ekki tekst að afla vatns, bæði vegna mjólkurstöðvar, sláturhúss o.fl.

Svo ég haldi áfram með sögu málsins í sambandi við Framkvæmdastofnunina, þá kom það til afgreiðslu í stjórn stofnunarinnar á s.l. ári, vorið 1979. En þá stöðvaðist málið. Stjórnin vildi ekki samþykkja áætlunina í heild til framkvæmda. Við það situr og hefur fullgerð áætlun ekki verið gefin út né send til ríkisstj. Hefur þetta valdið miklum vonbrigðum, ekki aðeins í Dalabyggð, heldur einnig víðs vegar um byggðir landsins og í samtökum sveitarfélaga, sem telja til lítils að leggja vinnu og fjármagn í áætlunargerð ef hún í reynd á að vera aðeins pappírsgagn. Á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi 9. nóv. s.l. sagði framkvæmdastjóri samtakanna í skýrslu sinni m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Afgreiðsla stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins á byggðaþróunarmálum fyrir Dalabyggð veldur miklum vonbrigðum. Til að dreifa salti í sárið má nýlega lesa fjögurra dálka fyrirsögn í dagblaði um að landamæri Byggðasjóðs hafi verið þurrkuð út. Ef gerður er samanburður á Dalabyggð annars vegar með stöðuga íbúafækkun, einhæft atvinnulíf, lágar brúttótekjur og mjög vel unna áætlun tilbúna, en hins vegar landamærasvæðinu með stöðuga fólksfjölgun, fjölbreytt atvinnulíf, hæstu meðaltekjur í landinu og enga áætlun, breytast vonbrigðin í réttláta reiði.

Mannkynssagan geymir margar frásagnir af tilraunum til að þurrka út landamæri, en hver eru landamæri Byggðasjóðs? Þau ern svo hljóðandi í 28. gr. laga um Framkvæmdastofnun Íslands:

„Hlutverk Byggðasjóðs er að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með því að veita fjárhagslegan stuðning til framkvæmda og eflingar atvinnulífs með hliðsjón af landshlutaáætlunum og til að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir að lífvænlegar byggðir fari í eyði.

Ég vænti þess, að Dalabyggðaráætlunin muni leiða til aukinna framfara á svæðinu og að stjórn Byggðasjóðs muni í reynd styðja verulega við slíka þróun. En ástæða er til að minna á að það var aldrei ætlunin að Byggðasjóður tæki að sér almennt hlutverk lánastofnana eða gerðist staðgengill ríkissjóðs, þó málefnin væru út af fyrir sig góð.“

Í grg. frá framkvæmdastjóra byggðadeildar til stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar um afgreiðslu stjórnarinnar á Dalabyggðaráætluninni segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Útgáfa án samþykktar: Tilgangur útgáfu áætlunar er að kynna öllum, sem hlut eiga að máli, stefnu Framkvæmdastofnunarinnar, þ.e. ríkisvaldsins og heimamanna um uppbyggingu viðkomandi landshluta eða byggðarlags. Til þess að skýrsla frá byggðadeild, sem gerð er í samráði við fulltrúa heimamanna, öðlist þessa stöðu þarf stjórnin að samþykkja hana. Til þess að svo verði er vitaskuld nauðsynlegt að skýrslan sé þannig gerð að stjórnin geti samþykkt hana. Skýrsla um byggðaáætlun sem byggðadeild sendir frá sér án samþykkis stjórnarinnar, er ekkert annað en álit byggðadeildar, og hefur slík skýrsla sáralitla þýðingu og til lítils annars brúkleg en að fylla hillur eða skjalaskápa.“

Í lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins stendur m.a. í 28. gr.:

„Hlutverk Byggðasjóðs er að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með því að veita fjárhagslegan stuðning til framkvæmda og eflingar atvinnulífs með hliðsjón af landshlutaáættunum og til að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir að lífvænlegar byggðir fari í eyði.“

Í 10. gr. laganna stendur:

„Byggðadeild gerir áætlanir um þróun byggða og atvinnulífs í þeim tilgangi að tryggja atvinnu og búsetu í byggðum landsins.“

Í 3. gr.:

„Verkefni stjórnar Framkvæmdastofnunar eru m.a. þessi: Að fjalla um og samþykkja allar áætlanir, sem stofnunin gerir, áður en þær eru sendar ríkisstj., sbr. 9. gr“

Og í 9. gr stendur:

„Áætlanir skulu sendar ríkisstj. og gerir hún Alþ. grein fyrir þeim.“

Tölulegar staðreyndir sanna að byggð í Dalasýslu er í verulegri hættu. Með flutningi þessarar þáltill. vilja flm. fá viljayfirlýsingu Alþingis um að þessi fullgerða byggðaþróunaráætlun fyrir Dalabyggð nái fram að ganga í samræmi við lög og tilgang Byggðasjóðs með það meginmarkmið að styrkja byggð á þessu svæði.

Við treystum því, að samstaða náist um þetta mál. Það er vissulega prófsteinn á vilja um framkvæmd byggðastefnu.

Herra forseti. Ég legg til að þessari þáltill. verði að lokinni þessari umr. vísað til atvmn.