11.03.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (1077)

38. mál, Dalabyggðaráætlun

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja mjög umr. um þessa till. til þál. varðandi framkvæmd Dalabyggðaráætlunar, aðeins segja örfá orð.

Ég hygg að flestum þm. séu ljósar ástæður, aðdragandi og innihald þeirrar áætlunar sem hér um ræðir. Eins og fram hefur komið var mikil áhersla á það lögð, að framkvæmd áætlunarinnar yrði að veruleika vegna byggðar sem stendur mjög höllum fæti að því er varðar einhæfni í atvinnulífi, lágar tekjur og íbúafækkun, eins og fram hefur komið. Markmið áætlunarinnar er að sjálfsögðu að treysta búsetu á þessu svæði. En til þess að það megi takast verður að efla atvinnustarfsemina, þá sem fyrir er, en sömuleiðis að skapa ný atvinnutækifæri.

Eins og fram hefur komið voru það gífurlega mikil vonbrigði öllum þeim sem hlut áttu að máli við gerð þessarar áætlunar, og ekki síst heimamönnum, að stjórn Framkvæmdastofnunar skyldi ekki treysta sér til að samþ. áætlunina á liðnu ári og tryggja fjármagn til framkvæmda samkv. henni. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi óskuðu eftir að málið yrði tekið til endurskoðunar í von um breytta afstöðu, m.a. vegna þess að hæpin afgreiðsla málsins væri prófsteinn á gildi ætlunargerðar í þessu landi. Endanleg niðurstaða varð sú, eins og áður greinir, að Framkvæmdastofnunin taldi ekki fært að binda fjármagn með formlegri samþykkt áætlunar um Dalabyggð. Hins vegar var um það talað að taka tillit til áætlunarinnar vegna afgreiðslu lánsumsókna.

Ég ætla ekki að ræða í smáatriðum frekar en gert hefur verið atvinnuástand og horfur í atvinnumálum í Dalasýslu og þeim þremur hreppum A.-Barðastrandarsýslu sem áætlunin nær til. Ég vil aðeins ítreka að aðgerða er þörf. Slíkar aðgerðir hljóta óumdeilanlega að kosta allnokkurt fé á næstu árum, eins og hér hefur komið fram. En ef við ætlum okkur að tryggja eðlilega þróun byggðar um allt land verðum við að haga okkur samkv. þeim áformum.

Nú hugsar e.t.v. einhver sem svo, að það skipti ekki höfuðmáli þótt einhver dráttur verði á framkvæmd slíkrar áætlunar. En því er til að svara, að fjármagn það, sem lagt yrði í framkvæmdir eða aðgerðir samkv. áætluninni, ræður ekki eitt sér þeim árangri sem vonast er eftir, heldur og ekki síður brennandi áhugi heimamanna, en sá áhugi gæti dvínað ef framkvæmdir dragast um of. Við þurfum einmitt að bregðast nógu skjótt við, á meðan dugnaður og áræði fólksins í þessari byggð er enn fyrir hendi. Hitt getur orðið þjóðarbúinu miklu dýrara, ef lífvænlegar byggðir brotna niður með afleiðingum sem við öll þekkjum og þarf ekki að lýsa hér.

Herra forseti. Með því að framkvæma áætlun um Dalabyggð stígum við einu skrefi framar í eðlilegri þróun byggðar á forsendum traustrar atvinnustarfsemi í þessu landi.