11.03.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í B-deild Alþingistíðinda. (1079)

50. mál, jöfnun húshitunarkostnaðar

Flm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 63 hef ég ásamt hv. þm. Halldóri Blöndal lagt fram till. til þál. sem fjallar um jöfnun á kostnaði við upphitun húsnæðis.

Svo sem kunnugt er hefur verðhækkun á olíu verið eitt þeirra vandamála sem hvað mestan svip hefur sett á efnahagsmál okkar Íslendinga. Verð á gasolíu til húshitunar hefur frá 13. des. árið 1978 hækkað úr 57.55 kr. í 155.25 kr. hinn 20. des. árið 1979. Hefur verðið þannig hækkað á þessu tímabili um 170%. Á sama tíma hækkaði vísitala framfærslukostnaðar úr 1234 stigum í 1911 eða um 677 stig. Hlutfallsleg hækkun vísitölunnar er því 55% á árinu 1979.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hér hve mikil áhrif olíuverðshækkunin hefur á kjör þess fólks, sem verður að hita hús sín með olíu, né heldur, sem þó er e.t.v. enn alvarlegra, til hve mikils ósamræmis slíkt ástand í kjörum þjóðarinnar leiðir innbyrðis. Hinn 1. des. árið 1978 bjuggu 72% af íbúum þjóðarinnar við hitaveitu. Að viðbættum þeim hitaveitum, sem síðar hafa verið byggðar eða eru í byggingu, munu 76% þjóðarinnar njóta hitaveitu og er þá hraunhitaveitan í Vestmannaeyjum ekki talin með. Sé lítið til einstakra landshluta eða kjördæma búa nálega allir íbúar Reykjavíkur og Reykjaness við hitaveitu, 73% í Norðurlandskjördæmi eystra, 53% í Norðurlandskjördæmi vestra, 43% í Vesturlandskjördæmi, 34% í Suðurlandskjördæmi, 9% á Austurlandi og 6% á Vestfjörðum. Eru þá með taldar þær hitaveitur sem nú eru í byggingu. Þar sem einstakir landshlutar og byggðarlög skapa þeim, er þar búa, mikinn mismun í kjörin hlýtur búsetan í landinu að mótast af því þegar tímar liða. Óþarft er að rekja hér nánar hvern kostnað slík þróun hefði í för með sér. Með sama hætti er einnig óþarft að ræða nánar það tjón sem gæti hlotist vegna vannýtingar þeirra verðmæta í híbýlum og atvinnufyrirtækjum þess fólks er breytti búsetu sinni af þessari ástæðu. En jafnvel þó fram hjá þessum röksemdum sé litið verður ekki fram hjá hinu gengið, að vandamálum, sem snerta fólkið í þessu landi með eins misjöfnum hætti og verðlag á olíu hefur gert, verður þessi þjóð að mæta sem sameiginlegu vandamáli, enda hefur svo verið gert bæði í þessu máli og öðrum hliðstæðum.

Stærsti liður í orkubúskap Íslendinga er húshitun, en til hennar fara nú um 3500 gwst. á ári, mælt hjá notendum, eða þriðjungur af allri orkunotkun. Samkv. skýrslu Orkustofnunar: „Hitað húsrými 1978–2000“ — sem út kom í ágúst árið 1979, má ætla að orkunotkun til húshitunar vaxi mjög á næstu árum. Þetta stafar aðallega af tvennu: Í fyrsta lagi af íbúafjölgun, sem kallar á aukið íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Í öðru lagi af auknu húsrými á hvern íbúa, sem einkum lýsir sér í stærri íbúðum, jafnframt því sem íbúum í hverri íbúð fækkar. Þá er reiknað með að gerðar verði auknar kröfur til atvinnuhúsnæðis, það verði rýmra en áður og betur hitað.

Í spá Orkustofnunar er áættað að rúmmál upphitaðs húsrýmis vaxi úr 40 millj. m3 árið 1980 í 76 millj. m3 árið 2000 eða því sem næst tvöfaldist á næstu 20 árum. Samkv. áætlun um skiptingu húsrýmis á orkugjafa er áætlað að í ár verði 10.9% orkuþarfarinnar fullnægt með olíu, 14.1% með rafmagni og 75% húsnæðis njóti hitaveitu. Þegar kemur fram til ársins 1985 er áætlað að hlutur olíu verði kominn niður í 2%, rafhitun verði 18.5% húsnæðis og 79.5% húsnæðis fái heitt vatn frá hitaveitum. Ef spá Orkustofnunar er fylgt enn þá lengra fram í tímann og litið á áætlaða skiptingu árið 1990 kemur í ljós að upphitun með olíu er því sem næst úr sögunni eða aðeins 0.2% alls húsnæðis. Þá er áætlað að árið 1990 njóti 79.6% húsnæðis hita frá hitaveitum og 20.2% húsnæðis verði rafhitað. Gert er ráð fyrir að stöðugu ástandi hvað varðar skiptingu milli orkugjafa hafi verið náð árið 1990, þ.e. að um næstu aldamót verði hlutur rafhitunar enn um 20% og hlutur hitaveitu um 80%.

Ekki eru fyrir hendi nýjar tölur um hlutfallslega skiptingu á húsnæði eftir notkun þess, en samkv. skýrslu Framkvæmdastofnunar ríkisins: „Hitað húsrými“ — sem gefin var út árið 1975, er íbúðarhúsnæði 63% af heildarhúsnæði í landinu. Þar sem íbúðarhúsnæði krefst hins vegar hærra hitastigs, er í stöðugri notkun og sumir hlutar iðnaðarhúsnæðis ekki hitaðir má ætla að hitunarkostnaður við íbúðarhúsrými sé ca. 70% af heildarkostnaði, en 30% komi í hlut annars húsrýmis, þar með taldir skólar og aðrar þjónustu- og menningarstofnanir.

Þá er komið að því að víkja nokkrum orðum að orkuverðinu eftir gjaldskrárbreytingarnar í febr. s.l. sé miðaður við 450 m3 húsrými, olíunotkun, er svarar 13 lítrum á ári fyrir hvern m3, meðalfjölskyldustærð, sem er 3.4 menn, og olíustyrk, er nemi 72 þús. kr. á einstakling. Verð óniðurgreiddrar olíu er 23.88 kr. hver kwst. Að frádreginni niðurgreiðslu verður sambærileg tala 17.44 kr. Er það hliðstæð tala og hjá Orkubúi Vestfjarða og Rafmagnsveitum ríkisins. Aftur á móti kostar hver kwst. hjá Hitaveitu Reykjavíkur aðeins 3.45 kr. Þannig er óniðurgreidd olía til húshitunar tæplega sjöföld miðað við Hitaveitu Reykjavíkur, en eftir niðurgreiðslu rúmlega fimmföld. Kostnaður við upphitun með olíu á 450 rúmmetra húsi verður, miðað við framangreindar forsendur, 633 400 kr., en hjá Hitaveitu Reykjavíkur 130 800 kr.

Að sjálfsögðu geta komið til greina margar leiðir þegar meta á upphæð olíustyrks. Í þeim efnum hef ég talið eðlilega viðmiðun að miða upphæð olíustyrksins við að kostnaður við húshitun með olíu verði þrefaldur miðað við Hitaveitu Reykjavíkur. Þær röksemdir, sem að baki þessari ábendingu liggja, eru m.a. þessar:

1. Viðmiðunin er skýr og einföld í framkvæmd.

2. Kostnaðarhlutfall verður svipað og var í ársbyrjun 1978, en þá var kostnaður við upphitun með olíu 2.8 sinnum hærri en hjá Hitaveitu Reykjavíkur.

3. Kostnaður við upphitun með olíu væri þá áþekkur og hjá nýjum hitaveitum, og tæplega eru rök fyrir að fara niður fyrir þau mörk.

Samkv. skýrslu Orkustofnunar: „Hitað húsrými 1978–2000“ — er út var gefin í ágúst 1979 og áður er vitnað til, er áætlað að olíunotkun til húshitunar verði á árinu 1980 56 809 000 lítrar. Miðað við núverandi olíuverð kostar sú olía 8.8 milljarða kr. Sé sú viðmiðun, sem að framan er greind notuð þarf að greiða hverja kwst. framleidda með olíu niður með 13.53 kr. eða sem svarar 56.7% af olíuverðinu. Á ársgrundvelli yrði þá niðurgreiðslan ca. 5 milljarðar kr., og er þá allt húsrými tilgreint.

Herra forseti. Ég hef hér að framan lýst þeim meginsjónarmiðum sem liggja til grundvallar þeirri till. sem hér er til umr. Vissulega væri hægt að fara um þau fleiri orðum og ræða málið á breiðara grundvelli, en til þess sé ég ekki ástæðu þar sem mikil umr. hefur átt sér stað um málið, m.a. hér á Alþingi. Till. var lögð fram á Alþ. fyrir jólaleyfi alþm. Hún er byggð á þeim meginforsendum, að hér á Alþ. verði leitað leiða til að fá sem víðtækast samstarf og samkomulag um leiðir til að leysa eða draga úr þeim mikla vanda sem olíunotkun til húshitunar hefur í för með sér. Í till. er gert ráð fyrir kjöri nefndar og að tillögur liggi fyrir við afgreiðslu fjárl. Að því er þann þátt mála varðar eru forsendur brostnar. Hitt er jafnaugljóst, að flutningur og samþykkt þessarar till. er jafnbrýnn, sérstaklega þegar í ljós kemur að ríkisstj. hyggst ekki hafa forgöngu um lausn málsins við samþykkt fjárlaga.

Ég vil svo að endingu, herra forseti, gera það að till. minni að málinu verði vísað til allshn.