19.12.1979
Neðri deild: 5. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

7. mál, söluskattur

Forsrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Það er rétt sem síðasti ræðumaður sagði, að meðferð þessa máls var með nokkuð óvenjulegum hætti. Það var ljóst, þegar ákveðið var af meiri hl. Alþ. að þing skyldi rofið og efnt til kosninga, að gera þurfti sérstakar ráðstafanir varðandi nokkur brbl. sem þinginu gafst ekki tími til að afgreiða. Ástæðan fyrir því, að þingið gat ekki veitt sér tíma til að afgreiða þau brbl., var nauðsyn þess að kosningarnar yrðu haldnar svo snemma vetrar sem hægt var og eins og gert var. Um þetta mál var fjallað af færustu mönnum og þá aðferð sem notuð var við að gefa þessi brbl. út aftur svo að segja þegar í stað til þess að rjúfa ekki framkvæmd þeirra. Þetta eru skattheimtulög. Hefði verið mjög slæmt ef þau hefðu fallið úr gildi stuttan tíma. Slíkt hefði valdið raski í viðskiptum og verið óverjandi. Þess vegna var þessi leið valin. Því til staðfestingar, að hér er ekki um neina lögleysu að ræða, vil ég benda á að það voru handhafar forsetavalds sem gáfu lögin út, og einn þeirra er forseti Hæstaréttar, einn af viðurkenndustu lögfræðingum landsins. Ég held því að þetta standist, þó að auðvitað sé ekki æskilegt að þurfa að grípa til slíkra ráðstafana, en við þessar aðstæður var það óhjákvæmilegt. Hvaða pólitískar ályktanir menn draga um ábyrgð á þessum lögum skiptir í sjálfu sér ekki máli. Hitt er aðalatriðið, að þessi lög voru upphaflega undirbúin af fjmrh. sem Framsfl. átti, samþykkt af allri þáv. stjórn, og menn firra sig nú ekki ábyrgð með því að bregða sér á bak við formsatriði eins og hér er um að ræða.