11.03.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

50. mál, jöfnun húshitunarkostnaðar

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil vegna orða hv. 4. þm. Vestf. greina frá því, að þegar hann vann að undirbúningi frv., sem hann ræddi um áðan og liggur nú fyrir hv. Ed., átti ég tal við hann að hans beiðni um frv. og lýsti þeirri skoðun minni, sem leitað var eftir, að ég teldi að jöfnun upphitunarkostnaðar eða húshitunarkostnaðar í landinu væri brýnt viðfangsefni, en ég tók út af fyrir sig ekki efnislega afstöðu til þess frv. sem þar var um að ræða, enda ekki eftir því leitað að ég gerði það. Hitt er rétt, sem hv. þm. greindi frá, að ég taldi ofureðlilegt að iðnn. beggja þingdeilda hefðu nokkra samvinnu um meðferð málsins til þess að það gæti fengið hraðari skoðun og að þeir sérfræðingar, sem til væru kvaddir, þyrftu ekki að koma oft til funda um þetta efni hér í Alþ. ef málið færi áfram til hv. Nd. Það er einnig rétt, sem hv. þm. greindi frá, að óskað var eftir umsögn iðnrn. um málið, og þá umsögn er hægt að gefa enn. Hitt er annað mál, að það er auðvitað matsatriði hvort rn. eiga að vera að tjá sig efnislega um mál sem flutt eru í þinginu. Sérstaklega á slíkt varla við ef í undirbúningi eru af rn. hálfu till. eða frv. sem lúta að sama efni. Ég hygg að hv. 4. þm. Vestf. viti, að fyrirhugað er af hálfu iðnrn. að taka á þessu máli. Ríkisstj. hefur það nú til meðferðar, eins og ég greindi frá áðan, og það verður flutt hér við fyrstu hentugleika eftir að búið er að undirbúa það sem skyldi í formi frv. um jöfnun og lækkun húshitunarkostnaðar.

Ég vænti þess, að hv. flm. nefnds frv. um jöfnun húshitunarkostnaðar, sem Ed. fjallar um, hafi fengið allnokkrar umsagnir frá sérfræðilegum aðilum til þess að athuga og meta sitt mál í ljósi þeirra. Ég hef séð nokkuð af þeim umsögnum og tel að efni þeirra hljóti að vekja þá n. þingsins, sem um þetta mál fjallar, hv. iðnn. Ed., og e.t.v. Nd. líka, ef hún fjallar um málið með þeim, til umhugsunar um hvort að öllu leyti sé stefnt að réttu marki með þeirri tillögugerð sem þar liggur fyrir. Ég hygg að þarna sé kannske gengið nokkru lengra en réttmætt geti talist í niðurgreiðslu á olíu, en ætla ekki að fara að ræða þetta efnislega.

Það kom fram í sambandi við þáltill., sem hér er til umr., það kom fram í máli flm., að að hans mati gæti komið til greina að greiða olíu niður þannig að hún yrði ekki dýrari en sem svaraði þrisvar sinnum kostnaði hjá Hitaveitu Reykjavíkur og það mundi svara til niðurgreiðslu milli 56 og 57%. Ég vil ekki fara frekar út í þau efni, en þó benda aðeins á það, að ég hygg að mörkin varðandi tilkostnað þeirra hitaveitna, sem nú eru í byggingu og nú er unnið að, miðað við olíu séu nálægt 40% eða þar um bil og það gæti verið að niðurgreiðsla nálægt því hlutfalli eða ekki miklu hærri væri nokkuð við hæfi.

Ég vil líka vekja athygli hv. þm. á því, að það er hægt að jafna húshitunarkostnað með öðrum hætti en að greiða niður olíu, og það er þjóðhagslega skynsamlegt að verja talsverðum fjármunum í því skyni. Þar á ég við að endurbæta íbúðarhúsnæði, þannig að dregið verði úr tilkostnaði, og gera það með hagstæðum lánum og jafnvel með styrkjum, þannig að menn geti brugðið þar skjótt við og alveg sérstaklega á þeim svæðum þar sem kynt er með olíu. Það hefur komið í ljós við staðbundnar athuganir á þessum málum, að tilkostnaður er víða mjög hár. Sú viðmiðunartala, sem hv. þm. Egill Jónsson gat um áðan, 13 lítrar miðað við 450 m3 húsnæði, er tiltölulega lág tala miðað við það sem mest gerist. Það má jafnvel sums staðar þrefalda þá tölu, þar sem ástandið er lakast, og það segir sig sjálft að skynsamlegt er að verja fjármagni til að bæta úr bruðli af þessu tagi. Ég tek þó fram að þetta er ekki bruðl sem ég skrifa á kostnað þeirra sem í húsunum búa. Þeir ráða ekki við þann tilkostnað að endurbæta húsnæði sitt nema til komi samfélagslegur stuðningur, fjárhagsleg fyrirgreiðsla. Ég tel mjög mikilsvert að tiltækt verði, helst á þessu ári, allverulegt fjármagn í því skyni að geta greitt fyrir endurbótum á íbúðarhúsnæði og njóti olíuhitunarsvæðin forgangs í sambandi við ráðstöfun á því fé sem tiltækt kann að verða.

Til viðbótar þessu vildi ég aðeins víkja að þeim samanburði sem mjög oft er gerður við hitunarkostnað hér í Reykjavík á vegum Hitaveitu Reykjavíkur. Ég tel ofureðlilegt að menn beri það saman. Tilkostnaður í sambærilegu húsnæði hjá Hitaveitu Reykjavíkur og á olíuhitunarsvæðum er þannig, að kostnaðurinn hjá Hitaveitu Reykjavíkur er aðeins um 13% af því, sem er við sambærilegar aðstæður á olíuhitunarsvæði, og hefur farið lækkandi á undanförnum árum, eins og ég gat um áður. Þetta er auðvitað hrikalegur samanburður sem þannig fæst, en ég tel að hann sé ekki einhlítur. Kostnaðurinn við upphitun hér í Reykjavík er óeðlilega lágur, einnig miðað við rekstrarforsendur Hitaveitu Reykjavíkur. Ástæðan fyrir því er m.a. sú, að við vísitöluviðmiðun um upphitunarkostnað er eingöngu tekið mið af upphitunarkostnaði í Reykjavík, og þetta hefur leitt til þess, að um langt árabil hefur af eðlilegri viðleitni stjórnvalda við að halda niðri verðlagshækkunum og draga úr hækkunaráhrifum vísitölu verið tilhneiging til þess að bremsa af hækkanir hjá Hitaveitu Reykjavíkur alveg sérstaklega, á meðan hitaveitur annars staðar á landinu hafa fengið hækkanir langt til nálægt því samkv. óskum eða a.m.k. til að halda eðlilegu viðmiðunarhlutfalli við olíu, sem um skeið var talið hæfilegt allt að 80% af olíuhitunarkostnaði, og var tekið mið af þeim fyrirtækjum sem í uppbyggingu voru, eins og t.d. Hitaveitu Suðurnesja, Hitaveitu Akureyrar og nýju veitunum. Það liggur nú fyrir, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum nýlega, að Hitaveita Reykjavíkur telur sig hafa þörf fyrir mjög verulega hækkun á gjaldskrár sinni til þess að geta sinnt nauðsynlegum fjárfestingum og óskum um útfærslu á sínu upphitunarkerfi. Þar er um háar tölur að ræða, mig minnir milli 50 og 60%. Þessi hækkunarbeiðni, sem nemur svo háum upphæðum, stafar kannske sumpart af því, að það var ekki óskað eftir hækkun hjá hitaveitunni á síðari hluta ársins sem leið eða síðasta ársfjórðungi, að mig minnir. Það er auðvitað afar erfitt fyrir stjórnvöld að standa frammi fyrir hækkunarbeiðni af þessu tagi, en ég vil taka það fram að hún er ekki að ástæðulausu. Ég tel að það verði að líta á þetta mál af raunsæi við afgreiðslu þess, þó að jafnljóst sé að erfitt er að verða við hækkun af þessu tagi. Í málefnasamningi ríkisstj. er gert ráð fyrir að farið sé yfir málefni opinberra stofnana á þessum mánuðum og hækkunarþörf þeirra metin sérstaklega áður en til þeirra mjög ákveðnu takmarkana kemur sem gert er ráð fyrir í sambandi við verðlagshækkanir síðar á þessu ári. Að því er unnið nú að yfirfara málefni opinberra stofnana að þessu leyti.

Herra forseti. Ég sá ástæðu til að víkja hér að þessu máli, þeim samanburði sem títt er gerður á orkuverði við upphitun í Reykjavík og annars staðar á landinu. Það er skoðun mín að e.t.v. sé hægt að minnka bilið og ekki óeðlilegt að bilið minnki frá báðum endum og það orkuverð, sem menn búa við hér í Reykjavík, sé lægra en þeir, sem standa fyrir veitufyrirtæki hér, hefðu kosið og lægra en raunverulega eðlilegt getur talist á tímum mjög hækkandi orkuverðs. Þó er eðlilegt og út af fyrir sig lofsvert að hægt sé að bjóða mönnum upphitun á góðu verði. En þarna verður að gæta lágmarksréttlætis og því er sú till., sem hér er til umr., fyllilega tímabær. En við þurfum að leita leiða — og það áður en veturinn er allur — til þess að fá hér úr bætt.

Hv. 4. þm. Vestf. talaði um að ég vildi draga hlutina, jafnvel til vorsins, að fá niðurstöðu í þessu máli. Ég held það hafi verið misskilningur hjá honum að meta orð mín þannig. Ég greindi frá því, að ég vænti þess að Alþ. yrði ekki slitið svo að við hefðum ekki náð saman um viðunandi lausnir í þessu efni fyrir vorið.