11.03.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (1083)

50. mál, jöfnun húshitunarkostnaðar

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að fagna þeim orðum hæstv. iðnrh., sem mátti skilja á þann veg að í framtíðinni verði skilningur á gjaldskrármálum Hitaveitu Reykjavíkur betri en hefur verið í fortíðinni. Ég man ekki betur en við borgarráðsmenn samþ. á s.l. ári að fara fram á hækkun á gjaldskrá. Sú hækkunarbeiðni var ekki að fullu tekin til greina, en þó að nokkru leyti. En einmitt vegna þess að gjaldskrárhækkanir stofnana Reykjavíkur hafa aldrei verið að fullu teknar til greina er uppsafnað vandamál borgarinnar nú á þessu sviði og mörgum öðrum gríðarlega mikið.

Ég hef oft verið að bera saman það, sem ég hef staðið sjálfur í framkvæmdum, við það, sem framkvæmt er á þeim stöðum þar sem ég er kjörinn fulltrúi. Þar sem ég fer ásamt félögum mínum í einkarekstri út í fjárfestingu tekur fjárfestingin enda og fjárstreymi minnkar þess vegna og afraksturinn gerir allt auðveldara og ódýrara. En hjá opinberum aðilum virðist fjárfestingin aldrei taka enda. Þannig verkar það, sem er verið að fjárfesta í, aldrei, þannig að íbúar þessa lands njóti góðs af í ódýrari þjónustu. Þetta er furðulegt. Það er kannske umhugsunarefni fyrir opinbera aðila hvernig stendur á því, að þessi munur er hjá einstaklingum og því opinbera. Ég held að það hljóti að koma að því, þegar fjárfest er í hitaveitum eins og t.d. Hitaveitu Reykjavíkur eða öðrum, að fjárstreymið til hitaveitnanna minnki. Þó að byrjunarframkvæmdir séu dýrar standa þá eftir aðallega viðhaldsframkvæmdir, og þegar neytendur eru margir þarf tiltölulega lítið frá hverjum til að standa undir þeim kostnaði.

En það, sem ég ætla einkum að tala um hér, er þáltill. á þskj. 63. Hún er flutt af Agli Jónssyni og Halldóri Blöndal, er um jöfnun húshitunarkostnaðar og svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa fimm manna nefnd, er geri tillögur um með hvaða hætti húshitunarkostnaður verði jafnaður. Nefndin skal skila áliti fyrir 15. febr. n.k.“

Sú dagsetning er að vísu liðin, en ég vil lýsa stuðningi mínum við þessa till., og einmitt vegna þess að dagsetningin, sem hér er um getið, er liðin tel ég brýnni þörf á að unnið verði með enn meiri hraða.

Þetta er þýðingarmikið mál. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt, að þetta er réttlætismál. Þess vegna legg ég á það alla áherslu að afgreiðslu þess verði hraðað. En ég tek ekki undir þau rök, sem komu hér fram hjá hv. 4. þm. Vestf., að það þurfi að létta af því ranglæti sem viðgengst um land allt. Hvaða ranglæti er að ske hér? Ég tek þetta til mín sem Reykvíkingur. Við getum ekki sagt að það sé okkur að kenna, sem búum við hitaveitu, eða fólkinu á Suðurnesjum eða Akureyringum, sem eru að fá hitaveitu núna, að við höfum ódýrari orku til húshitunar en þeir sem búa við olíuhitun. Ég vil ekki segja að það sé okkur að kenna. Ég segi frekar að það sé að sumu leyti þeim að þakka, sem hafa verið forsjálir og byggt upp hitaveitur, að minna magn af dýrum orkugjöfum þarf að flytja til landsins. Þar af leiðandi er olían kannske enn þá ódýrari en hún væri ef Reykjavík væri kynt með olíu ásamt Suðurnesjum, Akureyri og fleiri stöðum sem njóta hitaveitu. Ég vil því ekki að talað sé þannig, að þeir, sem búa við hitaveitu, séu einhvers konar sökudólgar. Mér finnst það óréttlæti, en mér finnst sá tónn oft koma fram.

Það segir í grg. með till., sem ég vil ljá stuðning minn, ég tek það fram og ítreka, að olíuverð hafi hækkað á síðustu árum. Þetta eru upphafsorð grg. Þar kemur líka fram, að kostnaður við húshitun með olíu hefur farið stórhækkandi, svo að nú er svo komið að hann er rúmlega áttfaldur miðað við Hitaveitu Reykjavíkur, ef ekki er tekið tillit til olíustyrksins sem á þessu ári nemur 46 700 kr. Þetta er síðan sannað með töflu, og sýnir hún þróunina frá 13./12. 1978 til 20./12. 1979. Á þessu tímabili hefur verð hækkað úr 57 50 kr. á lítra upp í 1 55 25 kr. En af hverju stafar þessi mikla hækkun? Þessi mikla hækkun er m.a. vegna þess að við sjálf eða ríkissjóður skattleggur vandann, sem skapast við erlenda olíuhækkun, á nákvæmlega sama hátt og hann skattlagði hráefnið sjálft og tvöfaldar þá kannske tekjur sínar í krónutölu af sama magni innfluttrar olíu. Þarna erum við eða ríkisstj. á hverjum tíma að auka á vandann, að gera vandann sjálfan að tekjulind fyrir ríkissjóð. Ekkert af tekjunum fer til baka til að greiða niður húshitunarkostnað í dreifbýlinu. Í staðinn er lagður á verðjöfnunarskattur til að standa undir hinum aukna kostnaði. Og þá vil ég segja, að ef Alþ. samþ. að kjósa þessa fimm manna nefnd álít ég að það eigi að vera verkefni hennar að athuga hve mikið af þeirri niðurgreiðslu, sem nauðsynleg er geti komið úr ríkissjóði sjálfum, og þegar það er vitað skal ég ekki vera talsmaður gegn því, að einhver viðbót komi frá þeim stöðum sem njóta innlendrar orku í dag. En ég vil ekki að verðjöfnunargjald sé lagt á innlenda orku eingöngu til þess að ríkissjóður geti ráðstafað viðbótarfé af skattlagningu olíuhækkana erlendis eins og ríkisstj. hentar hverju sinni.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Ég vil taka undir þessa þáltill. með flm. Ég tel að hún sé þörf. Það þarf að vinna hratt. Tíminn, sem þeir ætluðu til þess að nefndin skilaði áliti, er útrunninn og nefndin hefur ekki enn verið kosin, enda hugmyndin, sem hér er á blaði, ekki enn komin gegnum völundarhús Alþingis. Ég vona að það verði með hraði, en vil þó benda á að ég hefði talið vænlegra til að ná skjótum árangri ef till. hefði hljóðað ofurlítið öðruvísi. Ég geri þá ábendingu til flm. ef þeir vildu breyta till. sinni í meðferð, að hún orðist þannig: Alþingi ályktar að fela ráðh. að skipa nú þegar fimm manna nefnd. — Ég held að það væri fljótvirkari og eðlilegri gangur mála en að Alþ. sjálft færi að kjósa slíka nefnd.

Hv. 4. þm. Vestf. gerði að umræðuefni ágæta till. sem hann er flm. að í Ed., en þar sem hún er í Ed. tel ég ekki ástæðu til að fjalla um hana hér og nú.