11.03.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

50. mál, jöfnun húshitunarkostnaðar

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Mín er nú þörfin sú að taka til máls um þessa mjög svo athyglisverðu þáltill. þeirra Egils Jónssonar að hún hefur verið rædd í tengslum við frv. það — ég undirstrika að það er ekki þáltill., heldur lagafrv. — sem flutt er í Ed. og hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson er 1. flm. að. Er þá sæmst strax í upphafi að leiðrétta lítils háttar misskilning sem fram kom í máli hv. þm. Alberts Guðmundssonar. Þrátt fyrir mjög eindreginn og hvassan stuðning við málstað þeirra Vestfirðinga og annarra dreifbýlismanna sem ekki njóta hitaveitu, þá minnist ég þess ekki, að hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson hafi nokkurn tíma talið það óréttlæti að Reykvíkingar hefðu ódýra orku til að hita upp hús sín, heldur hitt, að fólk í öðrum byggðarlögum á landinu þurfi að borga 7–8 sinnum meira. Það er það sem hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson hefur æ ofan í æ lagt áherslu á. Við hinir, meðflm. að því frv. sem flutt er í Ed., höfum stundum tekið mjög hressilega undir, og stundum hefur okkur heppnast að verða aðeins á undan honum að vekja máls á því óréttlæti. Það er það sem fyrir okkur vakir.

Eins og hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson vakti athygli á í ræðu sinni, þá óskuðum við, flm. þessa frv., þess af iðnrn., að það léti okkur í té upplýsingar varðandi fyrirætlanir af hálfu ráðh. og rn. um aðgerðir í þessu máli. Við létum það fylgja með, að ef það kæmi nú í ljós að við ættum þess von að því máli, sem lýtur að brýnni þörf þess fólks sem borgar nú upp undir það helming af tekjum heimilis síns til þess að hita upp híbýli sín, yrði flýtt þannig að við ættum þess von að fólkið fengi, ef ekki leiðréttingu mála sinna á fyrsta fjórðungi yfirstandandi árs, þá a.m.k. eindregna von í því að úr þessum vanda yrði leyst fyrir vorið, þá mundum við sætta okkur við það, að nokkuð tefðist afgreiðsla þessa frv., og athuga með hvaða hætti mætti samrýma efni þess fyrirhuguðum aðgerðum rn. Þetta hefur dregist, því miður. Aftur á móti er það rétt sem hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni áðan, að við athugun á frv. sjálfu komu í ljós ýmsir annmarkar. Við því höfum við flm. búist. Til þess kvöddum við á fund iðnn. Ed. hina hæfustu sérfræðinga, að þeir gætu frætt okkur og gagnrýnt þetta frv. Ábendingum þeirra tókum við, eins og að líkum lætur, afburðavel. Það voru ýmis atriði í þessu frv. sem við vorum þegar að loknum þeim fundum staðráðnir í að breyta og færa til betra vegar, svo sem þeim ákvæðum frv. sem e.t.v. gætu leitt til þess að lagasetning af því tagi, nákvæmlega því tagi sem þar er ráðgerð, kynni að draga úr hvatanum til þess að leita ódýrari fanga til húsahitunar.

Ég hygg að þess sé ekki þörf, að ég reki hér ítarlega þau atriði sem fram komu á sameiginlegum fundum iðnn. beggja deilda Alþ. við umfjöllun um þetta frv. En ég vil þakka hv. þm. Þorvaldi Garðari Kristjánssyni sérstaklega fyrir þá vinnu sem hann lagði fram við samningu þessa frv. Eitt af þeim málum, sem hvað skýrast komu fram við umfjöllun um frv., var einmitt það atriði sem hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson drap á áðan. Það er sú skekkja sem hin öfluga Hitaveita Reykjavíkur setur í allt tal okkar og alla útreikninga varðandi hitunarkostnað á Íslandi. Kom nú í ljós í ræðu hv. þm. það sem mig hafði lengi grunað, að það er stundum býsna breytt bil á milli réttlætisins og prósentunnar og hún ekki vænleg til þess út af fyrir sig að koma miklum hlutum í framkvæmd á Íslandi ef við hana er stuðst eingöngu.

Hv. þm. vakti sjálfur athygli okkar á sameiginlegum nefndarfundum einmitt á þeirri staðreynd í fyrsta lagi, að hið lága verð á heitu vatni í Reykjavík, sem haldið er niðri með aftöðu hins opinbera út af vísitölumálum, hefur valdið miklu tjóni, ekki aðeins á rekstri fyrirtækisins sem slíks, heldur á efnahag fólksins á Reykjavíkursvæðinu þegar til lengdar lét. Hér er ekki aðeins um það að ræða að við höfum af þessum sökum orðið að láta hjá líða öflun meiri orku til upphitunar á þessu svæði, heldur hefur þetta lága verð, samkvæmt upplýsingum frá Hitaveitu Reykjavíkur, valdið sóun á heitu vatni, þannig að ef verðið hefði verið sanni nær, þá hefði vatnið á þessu svæði enst okkur betur, og aukinheldur það að ég er hv. þm. fyllilega sammála um að hið æskilega og eðlilega og eina skynsamlega er að fyrirtæki eins og Hitaveita Reykjavíkur fái að byggja upp efnahag sinn með þeim hætti að hún geti sjálf staðið undir framkvæmdum. Hitt er alls ekki nógu gott.

Ég bind nú miklar vonir við það, að frv., sem verið er að vinna að í iðnrn. varðandi orkumálin og þá sérstaklega húshitunarmálin, komi fram hið fyrsta og verði afgreitt hér í þinginu. Ég geri mér grein fyrir því, að hér er um að ræða miklu víðtækara mál heldur en það sem lýtur að hækkandi verði á olíu til húshitunar. Persónulega er ég þeirrar skoðunar og tel mig hafa ástæðu til þess að ætla að við þurfum alls ekki að búast við því, að neinn bati verði til batnaðar í sambandi við olíuverð, heldur að hröðunin á verðhækkuninni haldi áfram svo sem verið hefur allar götur frá 1974, vegna þess að það er ekki satt að þetta sé séra Khomeini að kenna, að olían hefur hækkað í verði eða þeim hvítskikkjuklæddu Aröbum. Ástæðan er beinlínis sú, að framleiðsla á olíu helst ekki í hendur við eftirspurn og það er fyrirsjáanlegt að á tímabilinu fram undir 1990 mun með áframhaldandi hröðun á notkun, eins og verið hefur, skorta upp undir það 1/4 hluta á að brýnni þörf fyrir olíu verði fullnægt. Þessi hækkun heldur áfram, og sá vandi, sem okkur er þar á höndum, er líka geigvænlegur á mörgum sviðum öðrum en þeim sem lúta að húshituninni. Ég er viss um það, að við verðum að huga alvarlega að því að bæta húsakynni okkar, einangra þau betur, kannske að huga að því í framtíðinni, að við byggjum ekki íbúðarhúsnæði nema miðað við það, að við höldum sæmilegri hlýju á okkur í húsakynnum okkar, og leitum sem flestra úrræða til þess að bæta úr orkuskortinum. Þar eigum við ýmissa kosta völ.

Ég held að þáltill., sem hv. þm. Egill Jónsson er hér 1. flm. að, hafi þegar gert mjög mikið gagn með því að vekja umhugsun um þetta geigvænlega vandamál í þeirri mynd sem það er. Ég er hv. þm. Þorvaldi Garðari Kristjánssyni samdóma um það, að við hljótum að fylgja eftir anda þessara tveggja þingmála. Það er hlutverk okkar þm. sem förum með umboð fólksins á þeim svæðum þar sem nú er ekki tiltæk ódýr orka til að hita upp hús.

Ég er þakklátur í hvert sinn sem ég kem inn úr kuldanum, að það skuli vera nógu hlýtt. Ég hef ástæðu til þess að vera þakklátur, af því að ég man þann tíma í Reykjavík þegar verið var að vinna að hitaveitunni, — þakklátur fyrir visku og framtak þeirra manna sem stóðu að þeim stórkostlegu framkvæmdum á þeim tíma. Mér sárnaði það stórkostlega þegar ég las viðtal við Winston Churchill í Saturday Evening Post, þar sem hann sagðist hafa stungið upp á því, þegar hann kom til Reykjavíkur á stríðsárunum, að Reykvíkingar notuðu eitthvað af þessu heita vatni til þess að hita upp húsin sín. Mér sárnaði það sérstaklega vegna þess, að Churchill þurfti að stikla yfir hitaveituskurði þegar hann kom hingað til Reykjavíkur í þessa heimsókn. Hann sagðist hafa sagt þetta við mann sem hann myndi ekki hvað héti, en maðurinn hefði verið með hnerra, sagði hann í þessu viðtali. Þessu var lítils háttar breytt síðan í ævisögu hans, en hann hélt þessu enn þá fram, að það hefði verið hans uppástunga að Reykvíkingar færu að nota heita vatnið til þess arna. Hér var um að ræða framtak sem hefur sannarlega komið allri þjóðinni til nota. Ég er aftur á móti hálfuggandi um það, að öll þessi ofgnótt af heitu vatni hafi ekki verið að öllu leyti til hollustu fyrir fólkið í bænum, að menn búi í of heitu húsnæði, þannig standi á þessum bláu nefjum sem maður sér í 6 stiga frosti hér í Reykjavík umfram það sem maður sér í þorpunum úti á landi þar sem minni er upphitunin. Þetta búskaparlag er kannske ekki vel til þess fallið að ata upp harðgert fólk sem þolir loftslag síns lands.

Ég er sjálfur mótfallinn því, að nokkuð verði gert að ráði að því að auka upphitunarkostnað fólks á Reykjavíkursvæðinu, þó að ég sé utan af landi, — auka upphitunarkostnað á þessu svæði, ef hægt er að komast hjá því, til þess að lækka upphitunarkostnað annars staðar. Við verðum að leita annarra fanga til þess að leysa þetta mál til langframa. Það hefur verið partur af kjörum alþýðunnar á Reykjavíkursvæðinu, skaplegum eða óskaplegum eftir ástæðum, að hafa tiltölulega lágan upphitunarkostnað. Við verðum að leita annarra ráða af megni til þess að leiðrétta það ranglæti sem hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson gerði grein fyrir í ræðu sinni. Það er ranglátt að fólk í heilum byggðarlögum kringum landið skuli þurfa að borga sjö- til áttfalda upphæð fyrir upphitun á nauðsynjahúsnæði sínu á við það sem gert er hér á Faxaflóasvæðinu. Og þess vænti ég, að ekki muni standa á þingmönnum Reykvíkinga þegar til kastanna kemur; síst af öllu þeim sem sakna þess nú ákaflega að ekki virðist vera gerð grein fyrir fjárveitingum í fjárlagafrv. í þessu skyni, — að ekki muni standa á þeim þegar til þess kemur að afla fjár til að bæta úr þessari neyð úti á landi. Ég hef verið ákaflega feginn hversu oft það kemur fram einmitt í máli þingmanna Reykjavíkur, að þeir bera verulegan hlýhug til fólksins úti á landi, eru tilbúnir að taka undir nauðsynjamál þess, þó misjafnlega eftir því hvað það kostar.