11.03.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (1086)

50. mál, jöfnun húshitunarkostnaðar

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætlaði að víkja nokkrum orðum að framlagi hv. 3. þm. Reykv. í þessari umræðu, en í raun og veru hefur hv. 4. þm. Norðurl. e. tekið af mér ómakið. Hv. 3. þm. Reykv. hneykslaðist á því, að ég notaði orðið ranglæti þegar ég hafði í huga að sumir þurfa að búa við fimm- eða sexfaldan upphitunarkostnað á við aðra. Þetta fór í hans fínu taugar. Ég sagði ekkert um það, hverjum þetta væri að kenna. Það kom ekki í minn huga neitt um það, hvað þá heldur að ég segði eitthvað um það. Ef ég hefði farið að segja eitthvað um það, þá er ekki nema að ég hefði nefnt Khomeini. En nú hefur hv. 4. þm. Norðurl. e, sagt að það sé ekki einu sinni honum að kenna. Og svo stendur hv. 3. þm. Reykv. upp og gerir mér það upp, að ég sé að kenna þeim, sem búa við hitaveitu, um þetta. Í raun og veru er þetta ekki svaravert. Og svo heimskar þessi hv. þm. sig á að leggja út af þessum hugarórum. (Gripið fram í.) Ég treysti þér, Stefán Jónsson, til þess að segja allt sem ég hef sagt um þetta og fara með það eins og þú vilt.

Ég hefði viljað segja nokkur orð hér við hæstv. iðnrh., en hann er því miður farinn svo að ég ætla að draga úr því sem ég hefði kannske sagt, þó að ég hafi aldrei ætlað mér að fara út í almennar umræður um þessi mál. Hæstv. ráðh. gaf í skyn að í frv. okkar fjórmenninganna í Ed. hefði kannske verið gengið fulllangt í hugmyndum okkar um niðurgreiðslu. Það er að sjálfsögðu matsatriði hvað menn telja í þessu efni. Við gengum þó ekki lengra en það, að við gerðum ráð fyrir að þeir, sem byggju við olíukyndingu, borguðu tvisvar og hálfu til þrisvar sinnum meira en meðalverð. Ég fer ekki út í að skýra þessa reglu. Ég held að fram komi það sem er aðalatriði í þessu.

Hæstv. ráðh. vék að því, að það væri skynsamlegt að verja fjármagni til þess að draga úr olíukostnaðinum, þ.e. til tiltekinna framkvæmda, eins og t.d. að bæta einangrun húsa og annað slíkt. Ég er honum alveg sammála um þetta. Og ég er honum svo sammála að ég hef ásamt níu öðrum hv. þm., félögum mínum, borið fram sérstaka till. um þetta efni á þskj. 157, þar sem gert er ráð fyrir að gerð verði sérstök framkvæmdaáætlun til fjögurra ára til þess að flýta fyrir því, að við losnum við olíuna sem orkugjafa, og svo að gera tilteknar orkusparandi aðgerðir. En ég held að svo þýðingarmikið sem þetta er, þá megum við ekki gæla við þá hugsun að ætla að taka af því fé sem nauðsynlegt er til þess að lækka þegar í stað upphitunarkostnaðinn á olíuhitunarsvæðunum. Við verðum að verja öðru fé í framkvæmdirnar.

Hæstv. ráðherra vék svo að Hitaveitu Reykjavíkur og því ástandi sem hér hefur verið komið inn á af mörgum fleiri ræðumönnum, að kostnaðurinn hjá Hitaveitu Reykjavíkur sé óeðlilega lágur vegna þess að það hafa ekki fengist gjaldskrárhækkanir eins og nauðsynlegt hefur verið. Ég er sammála því sem menn hafa sagt um þetta efni. En ég vil vekja athygli á því, að það er ákaflega þýðingarmikið að gera eitthvað til þess að breyta þessu ástandi. Eitt af höfuðatriðum okkar Ed.-manna, sem hér hefur verið vitnað til, er að gera ráð fyrir að niðurgreiðsla á olíu og upphitunarkostnaður á olíuhitunarsvæðunum fari eftir sérstakri viðmiðunarreglu sem ég ætla ekki að fara að skýra út hér. En í þessari viðmiðunarreglu felst það, að niðurgreiðslur lækka sjálfkrafa ef gjaldskrár hitaveitnanna hækka. Þessu fylgja tveir kostir: Annars vegar sá kostur, að það ætti ekki að vera hætta á því, þegar búið er að setja á ákveðinn styrk, að hann haldist í sama mæli lengur en þörf er á. Stundum er hætta á því. Hins vegar hefur þetta þann kost, að sá aðili, sem ætti að hafa mesta hagsmuni og mestan áhuga á því að lækka niðurgreiðslurnar, minnka það fjármagn sem þarf til niðurgreiðslunnar, gerir það með því að veita eðlileg leyfi til hækkunar á gjaldskrám hitaveitna.

Hér hafa sumir, svo sem hv. 6. þm. Reykv., vikið að orkuskatti. Ég skal ekki fara að ræða það mál. En við, sem stöndum að frv. í Ed., lögðum höfuðáherslu á að flýta þessu máli. Í þeim tilgangi að flýta málinu lögðum við áherslu á að takmarka það við þetta eina höfuðatriði, að greiða niður olíu, en ekki að taka inn í frv. almenn ákvæði um allsherjarverðjöfnun á orkugjöfum. Ekki var það gert vegna þess að við værum að segja að það ætti ekki að gera, heldur vegna þess að við töldum að það væru svo mörg ágreiningsatriði og margt sem orkaði tvímælis í þeim efnum, að það tæki of langan tíma að leysa þau mál meðan olíuupphitunarfólkið væri að bíða eftir lausn á sínum vandamálum. Þetta vildi ég að hér kæmi fram. Allt, sem hefur komið fram í þessu efni, m.a. till. sú sem við ræðum hér, leggur áherslu á þetta höfuðatriði, að málinu sé flýtt. En það er mín skoðun að eðlilegasta og öruggasta leiðin til þess sé að samþykkja það frv. sem fyrir liggur með þeim breytingum, sem menn telja að þurfi að vera á því.

Hæstv. ráðh. gaf hér í skyn að í umsögnum, sem borist hafa um þetta frv., sé ýmislegt sem segi það að þurfi að bæta úr göllum á frv. Þetta er rétt. Það hafa líka komið umsagnir sem hafa lagt áherslu á að frv. verði samþykkt óbreytt. Við, sem stöndum að frv., höfum alltaf gert ráð fyrir að það gæti þurft að gera á því breytingar í meðferð. En við höfum talið að höfuðatriði þess, sem er fyrirkomulag og viðmiðun olíuniðurgreiðslunnar, sé rétt stefna. Við höfum alltaf gert ráð fyrir því. En það er að sjálfsögðu pólitísk ákvörðun hvað niðurgreiðslan á að vera mikil. En ég vona að allir hv. þm. geri sér grein fyrir því, að það er tómt mál að tala um þetta niðurgreiðslumál á olíu ef við erum ekki reiðubúnir til þess að gera verulega bragarbót frá því sem nú er. Ef við gerum það ekki reynist það svo í verki að við meinum lítið með því þegar við erum að lýsa hinu slæma ástandi og hinu mikla vandamáli sem hér er við að glíma.