11.03.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

50. mál, jöfnun húshitunarkostnaðar

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Vegna þess, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði, hlýtur það að koma upp á, hvaða leið sem við förum, að öll verðjöfnun í þessum efnum sem öðrum verður fyrst og fremst á kostnað þeirra sem búa við lægst verð á orku í dag. Þetta á auðvitað við um alla verðjöfnun, af hvaða tagi sem er, og reyndar allar félagslegar aðgerðir. Þær eru flutningar á verðmætum frá þeim, sem betur mega sín, til þeirra, sem verr eru staddir. Það er ekki hægt að komast fram hjá þeirri staðreynd.

Hér erum við að ræða um eitthvert hrikalegasta misrétti sem nú viðgengst í þjóðfélagi okkar. Þetta misrétti er svo mikið, að það hlýtur að leiða til verulegrar röskunar á búsetu í landinu ef ekki verður að gert og það fljótt. Ýmsar leiðir koma til greina til úrbóta, a.m.k. til að draga verulega úr þessu misrétti. Í fyrsta lagi er hægt að hækka þann olíustyrk sem nú er greiddur. Í öðru lagi er hægt að leggja á sérstakt olíugjald og hafa þá innifalið í því verðjöfnunargjald á raforku, eins og lagt er til í frv. því sem minnihlutastjórn Alþfl. lagði fyrir Alþ. Í þriðja lagi má hugsa sér að jafna þetta gegnum tekjuskattinn með mismunandi persónuafslætti, barnabótum eða einhverju því um líku. Við verðum að finna ráð til að draga verulega úr því misrétti sem hér er um að ræða, án þess að draga um of úr áhuga manna á að hraða framkvæmdum við hitaveitur og aðrar fjarvarmaveitur.

Herra forseti. Ég styð eindregið efni þeirrar þáltill. sem hér er til umræðu.