11.03.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (1088)

50. mál, jöfnun húshitunarkostnaðar

Flm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Það er sannarlega ekki mikið tilefni til þess fyrir mig að flytja hér langt mál, og raunar á ég helst það erindi eitt að þakka þær undirtektir sem sú till., sem ég hef flutt ásamt hv. þm. Halldóri Blöndal, hefur hlotið hér á Alþingi. Ég held að þær umræður, sem hér hafa farið fram, gefi góðar vonir um að samstaða náist um þetta mál við afgreiðslu þess á Alþingi.

Það, sem er að minni hyggju langsamlega stærsta atriðið í þessu máli, er tekjuöflunin. Þegar við gengum frá þessari till. til flutnings á Alþ. var okkur að sjálfsögðu í fersku minni að stutt var umliðið frá kosningum og einmitt um þessi mál hafði þá orðið nokkur kosninga hamagangur. M.a. af Þeirri ástæðu er þessi till. sérstaklega bundin við það, að menn komi sér niður á þann grundvöll til tekjuöflunar sem sæmilegur friður geti orðið um.

Ég er þakklátur hæstv. iðnrh. fyrir framlag hans í þessar umræður. Reyndar vissi ég áður um áhuga hans í sambandi við þetta mál. Ég vil hins vegar ekki láta undan gangast að undirstrika það alveg sérstaklega, að þó að tekin hafi verið upp vinna undir hans stjórn í iðnrn. að tillögugerð varðandi þetta stóra mál, þá vænti ég þess, að þar verði unnið með þeim hætti að fyrir liggi nokkurt samkomulag um málið þegar það kemur til flutnings af hans hendi. Og að því leyti get ég tekið undir það sem hv. þm. Stefán Jónsson sagði í þessum umræðum, að bæði þau frv., sem hafa verið flutt á Alþ., og svo þessi þáltill. og þær umræður sem út af henni hafa spunnist hér á Alþ., þetta ætti allt saman að vera góður grundvöllur til þess að byggja á tillögugerð sem mundi geta leitt til góðs samkomulags hér á Alþ. Væri það að sjálfsögðu verðugt fyrir þetta mál og úrlausn þess, að um það gæti orðið góður friður og gott samkomulag hér á Alþingi.

Ég endurtek svo þakklæti mitt fyrir undirtektir við þetta mál og vænti að það fái greiðan framgang.