12.03.1980
Efri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

119. mál, Hitaveita Suðurnesja

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég fagna þessu frv. og hefði það reyndar mátt koma fram fyrr. Þetta er eitt þeirra mála sem lágu fyrir þegar ríkisstj. Alþfl. tók við. Hún varð sammála um að beita sér fyrir því, að framkvæmd af þessu tagi næði fram að ganga, og fól iðnrh. að undirbúa þær lagaheimildir sem nauðsynlegar væru. Jafnframt því tók iðnrh. að sér að tjá Hitaveitu Suðurnesja þessa afstöðu ríkisstj. og benda henni á að gera þær ráðstafanir í þessu samhengi, sem nauðsynlegar væru, og þó einkum að afla samninga um hverflakaup til raforkuframleiðslu. Það var svo augljóst, þegar þetta mál var tekið til umfjöllunar, að hér væri um svo hagkvæman virkjunarkost að ræða að sjálfsagt væri í hana að ráðast. Ég held að það sé ekki álitamál, að hér sé um einhvern hagkvæmasta virkjunarkost að tefla sem uppi er eins og stendur, eins og reyndar kom mjög greinilega fram í máli hæstv. iðnrh. Og það er ekki einungis að hér sé um hagkvæman virkjunarkost að ræða, heldur er hitt líka mikilsvert vegna þess hvað við erum brennd á sviði gufuaflsvirkjana, að hér virðist ekki vera um neina verulega áhættu að ræða. Sú gufuöflun, sem þarf til þessarar raforkuframleiðslu, er þegar fyrir hendi eða svo gott sem a.m.k. Allt bendir þannig til þess, að ekki sé verið að taka áhættu af því tagi sem tekin var í sambandi við Kröfluvirkjun og reyndist svo hörmulega sem raun ber vitni.

Ég hef í langan tíma haft þá trú, að skynsamlegt væri að leggja í litlar virkjanir hér á suðvesturhorni landsins og þá einkum og sér í lagi í sambandi við hitaveitur. Það hvarflaði meira að segja að mér — og ég lét þess, trúi ég, getið einhvern tíma í blaðagrein — hvort ekki væri ástæða til þess að flytja hverfla frá Kröflu í Svartsengi, einmitt til raforkuframleiðslu á svæði þar sem við ættum að geta verið nokkuð örugg með framleiðslu. Auðvitað var mér þó ljóst að þeir hverflar, sem keyptir höfðu verið til framleiðslu við Kröflu mundu að líkindum ekki henta sem allra best í Svartsengi, en þó ættu þeir að geta verið brúklegir.

Hvað sem því líður — og framtíðin sker úr um hver þróunin verður við Kröflu — þá held ég að augljóst sé að það spor, sem hér var stigið í nóvembermánuði s.l., að ganga til samninga um kaup á hverflum til raforkuframleiðslu í Svartsengi, sé gæfuspor.

Ég vænti þess, að þetta frv. fái skjóta afgreiðslu, og vil stuðla að því fyrir mitt leyti.