12.03.1980
Efri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

119. mál, Hitaveita Suðurnesja

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég vil leggja áherslu á það, hversu mikið hagsmunamál er hér á ferðinni, hversu hagkvæmt það er að leyfa þessa virkjun, og jafnframt að mjög mikil líkindi eru á því, að orka sé nokkurn veginn óþrjótandi þarna við Svartsengi. Það er hægt að virkja miklu, miklu meira en gert er ráð fyrir nú, og verður það mjög vænleg viðbót við orkubúskap okkar Íslendinga.

Það eru undur sem hafa skeð varðandi orkumál á Suðurnesjum með virkjuninni í Svartsengi. Nú hefur tekist að koma hitaveitu til næstum allra Suðurnesja og í framhaldi af því er ekki ótrúlegt að stofnað verði Orkubú Suðurnesja. Það er rætt um það meðal Suðurnesjamanna, sveitarstjórnarmanna sérstaklega. Vona ég að það komist í framkvæmd sem fyrst, og verður samþykkt þessa frv. vafalaust hvati til þess.

Mér þykir miður ef hv. þm. Stefán Jónsson á erfitt með að samþykkja þetta einungis af tilfinningasemi vegna Kröflu og tilvistar okkar Alþfl.-manna, en við skulum vona að það bjargist.

Ég legg áherslu á að þetta mál fái skjóta afgreiðslu. Þetta frv. hefði mátt vera komið fram fyrr, en betra er seint en aldrei.