12.03.1980
Efri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (1105)

119. mál, Hitaveita Suðurnesja

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það er góðra gjalda vert að menn ræði um fortíðina og reyni að læra af henni og það er hægt í sambandi við orkumál sem önnur mál. En mestu varðar okkur þó framtíðin í þessum efnum og að ráða bót á fyrirsjáanlegum vanda í sambandi við okkar orkubúskap. Ég vil þakka þeim sem hér hafa komið og tekið undir þetta mál, sem ég geri ráð fyrir að ekki sé neinn ágreiningur um hér á hv. Alþ., svo augljós rök sem fyrir því eru að ráðast í þetta orkuver einmitt nú, eða stækkun orkuversins í Svartsengi, vegna þeirrar hættu á orkuskorti sem hér er fyrirsjáanlegur á komandi vetri verði ekkert að gert, þ.e. veturinn áður en fyrsti áfangi næstu stórvirkjunar tekur til starfa. Það er einmitt þessi tímasetning og þessi viðhorf sem ýta undir þá fjárfestingu sem hér er um að ræða, viðbótina við orkuverið í Svartsengi, og er ég þó ekki þar með að segja að það gæti ekki verið hagkvæmt þó að öðruvísi stæði á. En hér tengist saman fyrirsjáanleg vöntun á orku í raforkukerfi landsmanna á næsta ári og að hægt er að fresta lagningu stofnlínu til Suðurnesja sem kosta mun verulega fjármuni.

Gufuorkuver geta sýnilega skilað árangri. Fyrir því höfum við nokkra reynslu. En við höfum einnig orðið fyrir verulegum áföllum að því leyti, eins og hér hefur verið nefnt. Ég tel ekki ástæðu til að tengja hér umr. um reynsluna af Kröfluvirkjun í þessu samhengi. Um það mál hefur verið mikið talað hér á hv. Alþ. En í sambandi við það, sem hv. 2. þm. Reykn. vék að áðan, að það væri nánast sem menn misstu dómgreind sína þegar um þessi mál væri rætt, þá mætti ýmsu þar við bæta ef menn vildu út í það fara að rifja upp afstöðu manna til mála síðustu tvö árin einmitt í sambandi við Kröfluvirkjun. Þar held ég að sé ekki hægt að líta aðeins til einnar hliðar, þó að ég sé í hópi þeirra manna sem hafa viljað fara þar fram af mikilli varkárni eftir að eldsumbrot hófust þar á svæðinu. Ég tel að sá dráttur sem orðið hefur á því að reyna að afla gufu fyrir þá virkjun hafi verið óeðlilegur og þar komi við sögu ákveðin þráhyggja í viðhorfum til fortíðarinnar, sem hv. þm. mætti hafa í huga þegar hann lætur gagnrýnisorð falla, sem margir geta nú undir tekið reynslunni ríkari að því er varðar tilhögun framkvæmda í sambandi við Kröfluvirkjun.

Varðandi raforkumál okkar með tilliti til komandi vetrar gæti svo farið, að við ættum eftir að fá verulegan ábata af árangri, ef hann næst við boranir við Kröflu á komandi sumri, sem sem stefnt er að og meira að segja Alþfl., eftir að hann tók við stjórnvelinum á síðasta hausti, fékkst til að gera till. um í sambandi við það fjárlagafrv., sem hann stóð að þá, og hvarf þannig frá þeirri þráhyggju í viðhorfum til þessarar virkjunar sem fram kom í ríkisstj. 1978 –1979. Einnig er þess að geta, að fyrir utan Kröfluvirkjun gæti verið að nýta mætti jarðgufu sem fyrir hendi er í Bjarnarflagi. Þó að þar sé ekki um mikið afl að ræða getur um það munað ef farið er að reikna það í framleiðslukostnaði af olíu til raforkuvinnslu. Þannig líta málin út, að einmitt möguleikarnir á litlum gufuaflsvirkjunum séu það nærtækasta til þess að brúa það bil sem er í orkukerfi landsmanna á komandi ári, þangað til fyrsti áfangi næstu stóru virkjunarinnar kemst í gagnið.

Vegna þeirra orða, sem hv. 4. þm. Vestf. lét hér falla varðandi skipulagsmál raforkuiðnaðarins, tel ég rétt að fram komi að sú till. sem hér liggur fyrir, skarast á engan hátt við þá stefnumörkun sem ríkisstj. 1978–1979 stefndi að, þ.e. að meginraforkuvinnsla og raforkuflutningur landsmanna væri á höndum eins opinbers aðila. Í þeim till. var engan veginn útilokað að minni háttar raforkuver risu utan við það kerfi, á vegum annarra aðila. Í till., sem þá komu fram, var að vísu miðað við 5 mw. raforkuver, en hér er rætt um 6 mw. raforkuver. Það er bitamunur en ekki fjár og skiptir ekki máli í þessu sambandi.

Varðandi stefnu núv. ríkisstj. að þessu leyti er nærtækast að vitna til stjórnarsáttmálans, þar sem segir í kaflanum um orkumál orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Sett verði lög um skipulag orkumála, um meginraforkuvinnslu og raforkuflutning, þar sem m.a. verði ákveðin samræmd heildarstjórn þessara mála og tryggð heildsala raforku til atmenningsveitna við sama verði um land allt. Skipulag orkudreifingar verði tekið til endurskoðunar.“

Ríkisstj. mun vinna að framgangi þessa máls, eins og hér kemur fram, og ég er viss um að um það mun nást samkomulag, og á ekki von á að uppi sé verulegur efnislegur ágreiningur um þetta mál. Og ég vænti þess, að hv. 4. þm. Vestf. verði áður en lýkur einn af stuðningsmönnum þeirrar lausnar sem þar mun takast. Það er að mínu mati og ég held ríkisstj. allrar brýnt, að mörkuð verði skýrari og ákveðnari stefna í þessum efnum en verið hefur. Ýmislegt af því, sem úrskeiðis hefur farið í okkar orkumálum, sérstaklega raforkumálum, á liðnum árum, er að mínu mati vegna þess að það hefur dregist úr hömlu að marka stefnu um skipulag raforkumálanna og kannske orkumálanna á heildina litið, en umr. um þau efni hefur nú staðið í a.m.k. einn áratug mjög ákveðið og raunar má leita þess lengra til baka, að menn voru að velta fyrir sér að taka þessi mál heildstæðari tökum en tekist hefur til þessa.