12.03.1980
Efri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (1107)

119. mál, Hitaveita Suðurnesja

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Mig langar til að leggja örfá orð í belg hér í þessari umr.

Hitaveita Suðurnesja hefur sýnt að hún er mikið og gott fyrirtæki sem hefur komið að verulegu gagni í þeirri orkukreppu sem nú ríkir. Það fyrirtæki hefur nú náð til flest allra sveitarfélaga á Suðurnesjum með þær framkvæmdir, sem það er stofnað til, þ.e. að virkja til vatnshitunar eða vera hitaveita eins og nafnið bendir til. Síðan kemur í ljós að hitaveitan er til fleiri hluta nytsamleg, að þarna er um að ræða, eins og fram kom hér í umr. áður, einn besta eða hagkvæmasta kost sem nú er uppi til virkjunar raforku. Þessu ber að sjálfsögðu að fagna, og ég vil taka undir það sem aðrir hv. þm. í þessari deild hafa réttilega bent á, að að þessu munum við standa og þetta munum við styðja.

Það, sem gerir það að verkum samt, að ég vildi koma hér upp og ræða örlítið um málið, eru þær umr. sem hafa orðið um Kröfluævintýrið, eins og það var kallað áðan í umr. Nú vita allir, og það kom reyndar fram hjá hæstv. iðnrh., að um þetta hefur verið mikið rætt hér á hv. Alþ. og er ekki ástæða til þess að vera nú að rifja þær umr. upp að miklu leyti. En það vita allir, að eldsumbrot eiga sér víða stað og ekki síður á Reykjanesi en annars staðar á landinu. Það er líka kannske rétt að minnast þess fyrir þá Alþfl.-menn, sem hafa haldið uppi nokkurri gagnrýni á Kröfluvirkjun, að áætlaður kostnaður við snjómokstur í þeim alþingiskosningum, sem þeir stóðu að fyrr á þessum vetri, var eins og að bora eina tilraunaholu við Kröflu. Það mætti kannske minna á það í leiðinni. (KJ: Hvað var það?) Því betur fór svo að veðurguðirnir voru okkur hagstæðir í þessari kosningabaráttu og ekki þurfti að eyða miklum peningum í snjómoksturinn, en það leiddi ýmsan annan kostnað af þessum alþingiskosningum, og hefði kannske verið hægt að verja því fé betur. Það er gott ef veðurguðirnir eru Alþfl.-mönnum hagstæðir. Þeir voru það við okkur öll sem stóðum í þessari kosningabaráttu, því er nú betur. En það var, held ég, ekki alfarið þeim Alþfl.-mönnum að þakka.

Ég vildi aðeins benda á eða nefna þetta með Kröflumálin, en ég tel að þau eigi ekki endilega að koma inn í þessa umr. og ekki að spila inn á þetta mál, en ég gat ekki stillt mig um að geta þeirra lítils háttar. Ég vil hins vegar fagna því, að þetta skuli vera hér komið inn og það skuli vera svo hagkvæmt sem virðist að virkja þarna raforku og bæta þar með úr því ástandi sem ríkir í orkumálunum. Ég mun að sjálfsögðu standa að samþykkt þessa frv.

Varðandi skipulagsmálin, sem hafa líka verið hér nokkuð til umr., er rétt að geta þess, að við framsóknarmenn höfum verið því fylgjandi að eitt orkuöflunarfyrirtæki ætti að vera ráðandi. En hvort mörkin um megawöttin eiga að vera 6 eða 10, um það er ég ekki reiðubúinn að setja hér fram algilda reglu fyrir mitt leyti.

En ég tel að það mál þurfi þó að athuga og verður vafalaust rætt líka í n. hvort þetta sé sá háttur sem réttastur sé í þessu máli.