12.03.1980
Efri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

115. mál, verðlag

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það var eins gott fyrir hæstv. ráðh. að halda sig við bláu bókina svo að hann færi ekki að tala eftir sannfæringu sinni óvart, heldur eftir texta dagsins, sem honum ber að lifa eftir. Það virðist vera einkenni á íslenskum stjórnmálum, að menn fást ekki til að læra af reynslunni, bregðast jafnvel ókvæða við þegar minnst er á afglöp sem hafa verið gerð, sbr. þær umr. sem fóru fram áðan um Kröfluvirkjun. Eins virðist vera í verðlagsmálunum, að jafnvel þó að menn eigi að hafa fyrir augunum að það kerfi, sem fyrir hendi er, hafi gengið sér gersamlega til húðar, sé ónýtt, verða þeir að fletta upp í einhverjum bæklingum, sem teknir hafa verið saman, svo að þeir fari ekki út af línunni, en tolli í gamla farinu.

Ég held að það sé alveg augljóst að það verðlagningarkerfi, sem við erum með, hafi gengið sér til húðar, það sé úrelt og það sé ekki hægt að ákveða verðlag í landinu með handauppréttingu úti í bæ áratugum saman. Reynsla mín af nánum afskiptum af verðlagsmálum í tiltölulega skamman tíma færðu mér fullkomlega heim sanninn um að þetta væri svona, og þóttist ég þó vita það að nokkru fyrir. Það voru líka á stjórnartímabili mínu gerðar nokkrar tilraunir til að feta inn á nýjar brautir. Ég taldi nauðsynlegt að reyna að taka á verðlagsákvörðunum með nokkuð samræmdum hætti eftir því sem mögulegt væri. Það tókst að ná samstöðu með verðlagsráðinu um að verðlagshækkunum yrðu sett takmörk. Það voru engin reglugerðarskrif höfð uppi, og þá fóru málin ekki í hnút eins og núna. Það tókst með samvinnu við verðlagsráðið að hafa takmarkanir á verðlagshækkunum. Þessi aðferð var notuð vegna þess að það er líklegt að einmitt núna sé meginatriðið að um samræmdar aðgerðir verði að ræða á öllum sviðum, þ. á m. í verðlagsmálum, ef ná á tökum á efnahagsmálunum.

En þá var það líka gert jafnframt, að verðlagning var gefin frjáls á tilteknum vörum á sama tíma. Ég beitti mér fyrir því, að verðlag á dagblöðum var gefið frjálst. Mér fannst það svo gráupplagt að sjálfsagt væri að gera það, þó að hámark gilti um verðlagsbreytingar að öðru leyti á vegum verðlagsráðsins. Ég beindi reyndar líka þeim tilmælum til verðlagsráðsins, að verðlag á notkun vinnuvéla væri gefið frjálst, en þá var verðlagsráðið ekki tilbúið. Þannig eiga menn auðvitað að fikra sig áfram í þessum efnum.

Það, sem hefur gerst síðan hæstv. núv. ríkisstj. tók til starfa, er að það átak, sem var á leiðinni í þessum efnum, það samfellda átak, ekki bara í verðlagsmálunum, heldur í ýmsum öðrum málum, er runnið út í sandinn. Við töldum sjálfsagt í samræmi við þessa stefnumótun að vinnslustöðvar landbúnaðarins yrðu að taka á sig nokkuð, alveg eins og við ætluðum öðrum fyrirtækjum í landinu að gera. En hvað gerir hæstv. núv. ríkisstj. um leið og hún kemur til valda? Hún þarf að reka upp ramakvein um að það verði að skila aftur þessum 2% eða hvað það var til vinnslustöðvanna. Afleiðingin er sú, að daginn eftir er auðvitað fiskverðinu sagt upp og allt er komið á fleygiferð.

Ef menn ætla að ná tökum á verðbólgunni er náttúrlega ekki einasta að aðgerðir eigi að ná til verðlagsþátta, heldur er ýmislegt annað ekki síður mikilvægt. Við fylgdum mjög aðhaldssömum aðgerðum í ríkisfjármálum. En hvað hafa menn fyrir augunum núna í nýjasta fjárlagafrv.? Það kippir öllum stoðum undan viðnámi gegn verðbólgunni og ekki nokkur vegur að ætlast til að það sé hægt að setja þær skorður við verðlagshækkunum sem menn eru nú að gera skóna. Ekki er nema von að við þessar aðstæður rísi verðlagsráð, sem hafði þó áður verið samvinnuljúft í þessum efnum, upp á afturfæturna. Mér sýnist horfa í óefni í þessum efnum.

Kannske var dálítið lærdómsríkt að hlusta á hæstv. viðskrh. tala um að það væri ekki unnt að tryggja nægilega mikið sparifé í landinu, það væri ekki nægur sparnaður í landinu. Þetta segir hann á sama tíma og hann stendur að því að horfið sé frá raunvaxtastefnu, sem var á góðri leið að auka sparifjármyndun í landinu mjög verulega, — svo verulega að það horfði til þess að aukningin, sem kæmi til ráðstöfunar út úr bankakerfinu næmi 10 –15 milljörðum kr. En hvað er að gerast þessa dagana? Peningarnir streyma út úr bönkunum og þeir sparifjáreigendur, sem hafa lagt inn á bundnar bækur hafa verið sviknir. Það kemur vissulega úr öfugri átt þegar hæstv. viðskrh. fer að kvarta undan því, að ekki sé unnt að tryggja að nægilega mikið sparifé sé fyrir hendi í landinu. Hann er einmitt með þeim aðgerðum, sem núv. hæstv. ríkisstj. stendur að, að sjá til þess að svo verði ekki.

Það má kannske í þessu sambandi, vegna þess að hæstv. ráðh. las úr bláu bókinni sinni, benda á að í viðskrh.-tíð minni beindi ég því til verðlagsstjóra, að sett yrðu sérstök ákvæði varðandi afborgunarkaup, og fól honum að ganga frá því með þeim hætti að fólk gæti áttað sig á hvers konar kjör það væru í raun og sannleika sem það nyti þegar það er að kaupa hluti á afborgunarkjörum. Þetta er mjög einfalt með því að reikna út raunvextina, sem eru á afborgunarkjörum, miðað við staðgreiðslu, og til þess er auðvitað hægt að veita mönnum aðstoð. Þetta skref held ég að hæstv. ráðh. ætti að stíga. Hann ætti að hrinda þessu í framkvæmd sem allra fyrst.

Árangurinn af þessari stefnu minnihlutastjórnar Alþfl. var alls ekki svo óverulegur. Það tókst að koma verðbólgunni niður úr 10 – 12% á hverjum þremur mánuðum í 6.6–8%, eftir því hvaða mælikvarði er notaður. Þetta er náttúrlega verulegur áfangi, en ég verð að segja að ég sé ekki annað en núv. hæstv. ríkisstj. sé að sjá til þess að það verði ekki haldið áfram á þessari braut, heldur verði áframhaldandi óðaverðbólguþróun. Hún kippir burt öllum stoðum, sem búið var að setja undir í þessum efnum, og hæstv. viðskrh. getur ekki ætlast til þess heldur, að fylgt verði aðhaldssamri launastefnu þegar svona er á málum haldið af hálfu ríkisins.

Sannleikurinn er sá um Framsfl., að hann hrópar alltaf: Launin, launin! En það, sem við Alþfl.-menn höfum verið að reyna að gera og teljum að sé nauðsynlegt, er að ríkið gangi á undan í eigin málum, annars sé ekki aðhalds að vænta af launþegum þessa lands. Þetta er einungis sagt vegna þeirrar ræðu sem hæstv. viðskrh. hélt áðan.

Menn hljóta auðvitað að velta því fyrir sér hvers konar verðlagskerfi á í raun og sannleika að vera hér á landi. Það hefur verið vitnað í skýrslu verðlagsstjóra um þessi efni. Ég held að ég geti dregið saman niðurstöðurnar úr skýrslu verðlagsstjóra í fáeinar setningar.

Um heildsöluna eða innflutningsverslunina er það að segja, að niðurstaðan er þessi að mínum dómi: Heildsalarnir taka sér þá álagningu innanlands og utan sem þeir telja að þeir hafi þörf á. Ef þeir ná henni ekki innanlands gera þeir það utanlands, annaðhvort með því að láta hækka verð erlendis eða með „kommission“. Þetta er dómurinn yfir því verðlagskerfi sem við erum með. Afleiðingin er sú, að gjaldeyrir skilast ekki til landsins, gjaldeyrir nýtist ekki. Vafalaust fylgja þessu líka skattsvik eða a.m.k. tilhneiging til skattsvika umfram það, sem væri ef við byggjum hér við eðlilegt kerfi.

Mönnum dettur auðvitað í hug að við þessar aðstæður eigi að vera hægt að hafa eftirlit með því að svona sé ekki að málinu staðið. Ég held að það sé alveg sama hvað menn setja upp flókið og merkilegt eftirlitskerfi, það mun aldrei geta lítið eftir þessu meðan hvatningin til að haga sér með þessum hætti er innbyggð í kerfið. Ég held að það sé rétt að menn fikri sig yfir á braut frjálsrar verðmyndunar á sviði innflutningsverslunar, og ég tel að það hafi verið eitt af því sem var forsendan að þeim lögum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti sem voru sett hér á sínum tíma, en hér er flutt till. um að nái sinni upprunalegu mynd. Mér er að vísu stórlega til efs að þetta lagafrv. eitt sér, þó að það komi til framkvæmda, muni duga. Ég held að það þurfi að leggja inn í verðmyndunarkerfið nýja hugsun að mjög verulegu leyti. Það á vafalaust við um innflutningsverslunina, að þar eiga menn að fikra sig yfir í frjálsa verðlagningu eftir því sem mögulegt er. Það eiga menn að gera í áföngum. En það eru fleiri þættir sem koma til. Við erum hér með innlendan iðnað og innlenda framleiðslu. Í vissum tilvikum á það við þar, að verðmyndun geti verið frjáls, en í öðrum tilvikum, þar sem um einokunaraðstöðu er að ræða, er áreiðanlega ljóst að þar verða að vera ákvæði um hámarksverð. Þetta verða menn að meta eftir aðstæðum á hverjum tíma, og það verðmyndunarkerfi, sem við eigum að vera með, þegar menn eru hættir að lesa upp úr blaði og bókum, á að vera blandað að þessu leytinu.

Það er kannske ástæða til þess að fara nokkrum orðum um smásöluna, vegna þess að ég held að hún sé í öðrum sporum en heildsalan. Þar held ég að það eigi við, að smásalarnir séu í mjög miklu fjármagnssvelti umfram aðra þætti í viðskiptalífinu og að heildsalarnir séu orðnir einhvers konar skömmtunarstjórar fjármagns til smásalanna. Þess vegna trúi ég því, að sérstök ástæða sé til að rýmka um að því er varðar fjármagnssvigrúm í smásölu. Það mundi að líkindum skapa verulega samkeppni á sviði smásölunnar og ætti að koma henni út úr þeirri kreppu sem hún er nú í.

Ég minntist áðan aðeins á innlenda þjónustu og innlendan iðnað. Það er heilt kerfi sem hefur verið byggt upp í sambandi við t.d. þjónustu í byggingariðnaði. Allt það kerfi er gersamlega ónýtt. Það er ónýtt vegna þess að eins og það hefur verið sett upp standa vinnuveitendur og launþegar í rauninni sömu megin samningaborðsins. Kaup meistarans er hlutfall af kaupi sveinsins. Meðan ekki hefur verið skorið á þau tengsl er þess ekki að vænta, að heilbrigð verðmyndun verði í byggingariðnaðinum og hliðstæðri þjónustu. Þess vegna þarf að taka upp algerlega nýja verðmyndunaraðferð í þeirri grein. Hún á að byggjast á því, að það verði um raunverulega samninga að ræða milli sveina og meistara, þannig að verð til meistarans sé ekki komið undir því hvert kaup sveinsins er. Ég held að greiðasta leiðin í þeim efnum sé sú, að í sem alflestum tilvikum verði farið inn á þá braut, að samtök byggingarmeistara gangist undir að verkefni, sem þeir taka að sér, verði samningsbundin á ákveðnu verði, auðvitað miðað við verðlagsþróun. Síðan er það mál meistarans við sveininn hvernig hann semur við sveininn og hvort unnið er í uppmælingu, í bónusvinnu eða í tímavinnu. Það á ekki að vera mál hins endanlega verkkaupa að skipta sér af því, með hvaða hætti sveinninn semur við meistarann að þessu leyti. Og bara með breytingu af þessu tagi, sem ég hef reyndar rætt við ýmsa iðnaðarmenn, er ég sannfærður um að ná mætti verulegum áfanga í því að hreinsa til í þessum efnum.

Allt verðmyndunarkerfið þarfnast þannig endurskoðunar. Það er athyglisverð reynsla að spyrja forsvarsmenn fyrirtækja að því, hvernig þeim lítist á útlitið — eða kannske öllu frekar að hlusta eftir því, hvað það er sem þeir hafa mestan áhuga á að vita. Og það, sem þeir spyrja ævinlega fyrst um, er hvað verðbólgan verði mikil á næstu mánuðum eða á næsta ári. Og svarið við því, hvers vegna þeir spyrja þessa, er ákaflega einfalt. Þeir eru farnir að láta verðbólguna stjórna fyrirtækjum sínum. Þetta er meginatriðið sem þeir byggja ákvarðanir sínar á á hverjum tíma, þ.e. hvað verðbólgan verður mikil. Þetta þurfa þeir að miða við þegar þeir fara að berjast fyrir því að verðlag á vöru þeirra sé hækkað með handauppréttingu úti í bæ, enda er það orðinn gegndarlaus slagur. Við höfum komið okkur upp því kerfi, að það er fjöldi af mönnum, sem sitja sveittir við að reyna að halda aftur af verðlaginu, og enn þá stærri hópur er á þönum og gerir ekkert annað en krefjast þess að verðlagið hækki. Ég þóttist jafnvel sjá þess merki á ýmsum ákvörðunum varðandi verðlag á undanfarandi ári, að sjónarmið, sem ekki hefðu með þjóðarhag eða kostnaðarþróun að gera, gætu komið inn í þá mynd, — sjónarmið sem byggðust á því að maður þekkti mann. Þess vegna segi ég það og endurtek enn einu sinni, að ég er sannfærður um að ekki er heilbrigt og ekki er hægt að ákveða verðlag í landinu áratugum saman með handauppréttingu úti í bæ. Þess vegna trúi ég því, að menn verði að fikra sig út úr því kerfi sem fyrir hendi er. Ég held að það frv., sem hér er gerð till. um að fari í upprunalegan búning, geti verið góðra gjalda vert í þessum efnum og stefni til réttrar áttar. En mér er stórlega til efs að það muni nægja. Ég tel að það þurfi mjög mikið af nýrri hugsun inn í þetta verðmyndunarkerfi.