12.03.1980
Neðri deild: 42. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (1119)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Þegar ég kvaddi mér hljóðs áðan hafði ég hugsað mér að ræða það frv. sem hér var mælt fyrir áðan af hæstv. fjmrh., og þrátt fyrir að hv. 6. þm. Norðurl. e. ræddi um landbúnaðarmálin almennt í sambandi við frv. er ég að hugsa um að halda mér við að ræða fyrst og fremst það mál sem hér liggur fyrir.

Ég held að segja megi um þá hnotskurn Alþfl., sem hv. þm. taldi sig ætla að lýsa stefnu sinni úr, að hún sé ekki að meginmarkmiði langt frá því sem ákveðið hefur verið að stefna að um þessar mundir. En ýmis þau ráð til að ná settu marki, sem þm. ræddi um, hygg ég að hann muni'sjá við nánari athugun að nái ekki því marki sem að er stefnt.

Ég hef satt að segja furðað mig á því, að hann skyldi vera að fetta fingur út í að veittir séu t.d. fjármunir til Búnaðarfélags Íslands til þess að reka skrifstofu, eins og hann orðaði það, 300 millj. kr. Ég lít svo til, að öllum þremur útgáfum af fjárlögum, bæði Tómasi, Sighvati og Ragnari, sé þetta ekki nema hluti af því sem Búnaðarfélag Íslands hefur til ráðstöfunar. Þessar 300 millj. standa sem launakostnaður hjá Búnaðarfélagi Íslands. En það eru ekki bara skrifstofumennirnir sem fá laun. Það eru einmitt þeir menn sem hv. þm. taldi að þyrfti að efla til starfa, það eru þeir sem eiga að veita aukna ráðgjafaþjónustu í þeim vandamálum sem við er að fást. Ég verð að segja að mig furðar á svona málflutningi þar sem eitt rekur sig á annars horn.

Ég get líka komið að því hér, að ég tel undrun sæta að mönnum skuli detta í hug að fjargviðrast yfir því þótt til eins atvinnuvegar gangi um 2% af fjárlagaupphæðinni. Hvað mundi þessi maður segja ef hann væri þm. í nálægum löndum? Ég er hræddur um að hann yrði að rétta upp höndina með hærri upphæðum og hærra hlutfalli en þetta er. Ef hann ætti að fjalla um fjárlög Efnahagsbandalags Evrópu yrði hann að rétta upp höndina með því að greiða 70% af ráðstöfunarfé sambandsins til málefna landbúnaðarins. Hann er heppinn að vera hér á Íslandi, þar sem ekki hefur verið rekin óheillavænlegri stefna en hér er sýnt fram á.

Ég ætla þá að snúa mér að því frv. sem hér er til umræðu. Ég vil taka það fram í upphafi, að ég vil lýsa ánægju minni yfir að það skuli loks vera komið til þessarar deildar. Ég tel að það hefði getað gerst fyrr, en það er víðar sem gosmekkir standa á loft en hjá þeim sem standa í þessum ræðustól hér og tala um landbúnaðarmál. Þau gosumbrot, sem urðu í Ed. rétt fyrir þinghléið, urðu mér til sárra vonbrigða og til þess að seinka afgreiðslu þess máls sem hér er til umfjöllunar.

Hæstv. fjmrh. gat um það áðan, að þessi fjárútvegun væri til þess ætluð að greiða hluta af því fé sem bændur hefði vantað á til að ná fullu verði fyrir framleiðsluvörur sínar á verðlagsárinu 1978–1979. Það er þess vegna sýnilegt, að með hverjum mánuði sem líður verður það í verðbólguþjóðfélagi eins og við búum við sýnu minna fé sem fæst út úr þessari aðstoð en upphaflega var til stofnað. Ég minnist þess, að þegar stjórnskipuð nefnd var að fjalla um þessi mál á s.l. vori og sumri gerðu nm. þá áætlun og voru sammála um að sá skakki, sem varð á útflutningnum með þeim ráðstöfunum sem nefndin lagði til, yrði bættur að 2/3 hlutum. Þá var verið að fjalla um nákvæmlega sömu upphæðina, 3 milljarða kr., og nú er verið að fjalla um í frv. fullu hálfu ári síðar. Ég geri ráð fyrir að þeir, sem fá laun sín greidd mánaðarlega, verði þess varir að það þarf fleiri krónur núna í launaumslagið en þurfti fyrir rúmu hálfu ári hjá hverjum einum til þess að mæta sömu þörfum og fyrr. Þess vegna sýnist mér að það sé mjög brýnt að koma þessu máli áfram, og ég vil láta það koma hér fram, að ég mun gera mitt til þess að lagasetningunni verði hraðað svo sem fært er. Ég vona að ríkisstj. sjái sér nú fært um leið að herða á því að útvega þetta fé svo það verði meira en pappírsgagnið sem hér er verið að fjalla um.

Ég vil einnig lýsa ánægju minni yfir því að það hafa verið gerðar nokkrar bætur á frv. í hv. Ed. Mér sýnist það aðgengilegra nú en það var eins og það var lagt fram.

Þessi mál eru svo kunn Alþ. að það ætti ekki að þurfa að hafa um þau mörg orð. En það er rétt að rifja það upp, að þetta er þriðja frv. sem flutt er á þessu þingi varðandi þetta efni. Frv., sem við sjálfstæðismenn stóðum að að flytja í upphafi þessa þings, var á þá leið að við ætluðumst til þess að skattborgarar í landinu þyrftu ekki að taka á sig að neinu marki auknar byrðar vegna aðstoðar við bændur. Þegar þetta frv. var svo lagt fram, það sem við fjöllum nú um, var algjörlega ætlað að greiða féð upp með ríkisframlögum, en gerð var á því sú breyting í Ed. að Byggðasjóður kæmi þarna nokkuð við sögu. Ég tel það vera ábyrgari afgreiðslu þegar litið er til þess, hvernig stendur um ríkisfjármál og dýrtíð í þessu landi.

Ýmsir hafa sagt að það gilti einu hvort fjármunirnir væru teknir úr ríkissjóði eða úr Byggðasjóði. Það má vel vera að einhverjir kunni að reikna svo pent að það sé alveg það sama. En ég vil minna á að það eru um það ákvarðanir, að Byggðasjóður fái ákveðinn hluta af upphæð fjárlaga hverju sinni og að þeir fjármunir, sem ganga til Byggðasjóðs, verði að sjálfsögðu notaðir í því skyni að það komi byggðunum sem best að notum. Ég fæ ekki betur séð en einmitt þessi ráðstöfun á fjármunum Byggðasjóðs sé af því tagi að treysta byggð í landinu. Því vil ég fagna því, að þessi breyting var gerð, og vil enda mál mitt með því að láta það koma hér fram að nýju, að ég mun styðja frv. og við sjálfstæðismenn munum gera það.