12.03.1980
Neðri deild: 42. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í B-deild Alþingistíðinda. (1121)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að þessu sinni að gera að umræðuefni landbúnaðarstefnuna í landinu og það samhengi sem þær greiðslur, sem hér er um að ræða, auðvitað eru í að því er varðar hina almennu stefnu. En á hinu held ég að sé vert að vekja athygli, með hvaða hætti þessi fjárútvegun á að fara fram, eins og gert er ráð fyrir henni í frv. þessu til laga, sem sé þannig að fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að ábyrgjast lán allt að 3 milljörðum kr., en síðan á Byggðasjóður að greiða lánið og að öðru leyti á ríkissjóður að annast afborganir, vexti og kostnað allan af þessu láni, eins og segir í þessu frv. Hér er auðvitað ekki um neitt lán að ræða, hér er um að ræða beina greiðslu, og auðvitað á að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Síðan koma talsmenn þessarar upphæðar hér í ræðustól og tala um lán, jafnvel ekki lán, heldur lántökuheimild. Mismunur er væntanlega sá, að það er ekki víst að lántökuheimild verði nýtt, en lán er væntanlega nýtt eða tekið, svo að auðvitað er hér hvorki um lán né lántökuheimild að ræða. Hér er um að ræða beinar greiðslur úr ríkissjóði, og á þessu tvennu er auðvitað grundvallarmunur.

Þetta mál hefur verið að klúðrast hér um þingsali nú á annað ár. Og þar í liggur eflaust skýring á því, hversu klúðurslegt allt þetta mál er orðið. Það er engu líkara en með þessari framsetningu sé verið að gera gys ekki aðeins að bændum og bændasamtökum, heldur og skattgreiðendum í þessu landi. Hér er ekki um neitt lán að ræða. Hér er ekki um það að ræða, að bændasamtökin í landinu taki lán. Hér er um að ræða beinar tilfærslur á fjármunum, beint frá skattgreiðendum og inn í þessa tilteknu atvinnugrein. Maður hefur á tilfinningunni að ástæðan fyrir þessari samsetningu sé þrátt fyrir allt sú, að þeir, sem árum saman hafa verið að stuðla að þessum flutningum, séu farnir hálfpartinn að skammast sín fyrir hvernig að þessum málum hefur verið staðið og að þessi skömm sé ástæðan fyrir því að hlutirnir eru ekki lengur kallaðir sínum réttu nöfnum, heldur búin til orð og orðskrípi: lán eða lántökuheimild, þegar um allt annað er að ræða. Allur þessi málatilbúnaður er eins og verið sé að friðþægja ungabörnum.

Hér er ekki um lán að ræða, ekki heldur lántökuheimild. Hér er um að ræða beinan flutning á fjármagni frá skattgreiðendum inn í þessa tilteknu atvinnugrein.

Og allur þessi málatilbúnaður, eins og þetta er fram sett í samanlagðri 1. og 2. gr. þessa frv., er auðvitað óþarfur. Það á væntanlega að vera til þess, að það heiti svo að hér sé um lán að ræða, og væntanlega að vera einnig til þess, að þetta renni þá mjúklegar niður hálsana á skattgreiðendum, af því að þetta er lán. En þetta er ekki lán og hefur engin einkenni lána. Þetta er beinn styrkur og ekkert annað. Og ef Alþ. er að samþykkja beina styrki, þá á auðvitað að kalla hlutina sínum réttu nöfnum.

Hv. 1. þm. Norðurl. v., Páll Pétursson, talaði áðan um að ekki mætti koma til úlfúðar á milli framleiðenda landbúnaðarafurða annars vegar og neytenda í þéttbýli hins vegar. Þetta er auðvitað alveg rétt. Slík úlfúð, sé hún til og verði hún til, þá er hún af hinu illa.

Hún er óæskileg. En ef eitthvað er til þess fallið að skapa úlfúð, þá er það svona barnaleg tilraun til blekkinga, svona barnaleg framsetning eins og hér er um að ræða. Það dynur í fjölmiðlum, ríkisfjölmiðlum og öðrum fjölmiðlum, og þetta heitir alltaf lán, jafnvel ekki lán, heldur lántökuheimild. Og einhverjir trúa því eflaust, að hér sé um að ræða.lán og lántökuheimild. En ég vænti þess, þó að menn hér viti miklu betur. Þetta er aðeins ein hlið þessa máls. En ég taldi rétt að vekja á þeirri hlið athygli.