12.03.1980
Neðri deild: 42. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e. kom sér undan því að svara hér ómerkilegri spurningu, sem ég beindi til hans úr skrifarasæti, en var mjög móðgaður yfir að hann skyldi truflaður hér í pontunni. Ég hélt þess vegna að flokksbræður hans, sem hér væru, kynnu þá siði öllum mönnum fremur að þegja í sætum sínum. En eitthvað virðist sem honum hafi verið áfátt að ræða um slíka hluti. Eitt er víst, að það væri þarft af honum að taka það fyrir á næsta fundi.

Það má margt læra af bændum við Ísafjarðardjúp. En ég veit ekki hvort það er sanngjörn krafa til þeirra, sem búa á því svæði á Vestfjörðum þar sem úrkoma er minnst, að þeir kenni öðrum votheysverkun. Ég veit ekki hvort sú krafa er sanngjörn. Hitt er aftur á móti staðreynd, að votheysverkun hefur verið að vinna á um Vestfirði og mjög víða á hún enn eftir að útrýma þurrheysverkun á því svæði þar sem við búum við mikla úrkomu. Ég vona aftur á móti að stefna Alþfl. í landbúnaðarmálum taki aldrei yfir á Vestfjörðum. Hennar sér víða stað við Ísafjarðardjúp. Þau eru ansi mörg eyðibýlin meðfram Djúpinu. Þar er stefna Alþfl. í verki, sú stefna sem hv. 6. þm. Norðurl. e. telur til mestrar fyrirmyndar.

Mér er ljóst, að það þarf ekki að greiða neinar útflutningsbætur frá þessum býlum, — ekki neinar. Hann mætti gjarnan kynna sér það, hvar sú framleiðsla er mest á Íslandi, hvaðan við fáum mestu framleiðstuna og þurfum að greiða mestu útflutningsbæturnar. Hann mætti gjarnan gera það.

En það var eitt atriði í ræðu þessa hv. þm. sem kom mér sérstaklega til að standa hér upp. Hann sagði að það væri nauðsynlegt að fulltrúar bænda hér á þingi ræddu þessi mál, að mér skildist við fulltrúa neytenda. Mér vitanlega er þetta ekki stéttaþing. Ég er kosinn á þing af Vestfirðingum, mönnum úr öllum stéttum þar. Það má vel vera að blaðamannastéttin líti svo á, að hún eigi bara að starfa fyrir blaðamenn og fréttamenn, það sé þeirra stétt. Það er þá líka rétt að þeir séu merktir sérstaklega, þannig að það sé sérstakt viðvörunarmerki þegar fulltrúar þeirra birtast hér í pontunni með sína yfirborðslegu þekkingu á málefnum atvinnuvega þessarar þjóðar. Það er dálítið erfitt að sitja undir því, eftir að Framsfl. hefur ekki komið í gegn framleiðsluráðslögum á Alþingi Íslendinga frá því um 1970, að það er alltaf verið að bera það á okkur, að við ráðum þessari stefnu, hún sé mótuð af okkur og við ráðum henni. Við störfum í dag eftir lögum frá 1966. Það skyldi þó ekki vera að einn af ræðumönnum, sem hér situr, hafi átt ráðh. í ríkisstj. sem stuðlaði að því að þessi lög urðu að veruleika. Þau hafa löngum verið kennd við Ingólf Jónsson og Gylfa Þ. Gíslason. Ég veit ekki hvort það verður upp tekið, að þeir fari að sverja af sér faðernið að þessum lögum. Eitt er víst, að Ingólfur Jónsson gerir það aldrei.

En það vantar inn í framleiðsluráðslög hér á landi í dag ákvæði sem heimila Framleiðsluráði vissar stjórnunarlegar aðgerðir á framleiðslunni. Þetta varð framsóknarmönnum ljósara en öðrum, einfaldlega vegna þess að þeir höfðu meiri þekkingu á þessum málum en aðrir. Og það er kannske ekki undarlegt, þar sem þeir voru í beinni tengslum við þau vandamál sem af því sköpuðust, ef erfiðlega gekk að selja þessar vörur á erlendum mörkuðum.

Hins vegar verður ekki undan því vikist að geta þess í örfáum orðum, að samanburður Íslendinga við útlönd verður oft harla skoplegur. Það er harla skoplegt til dæmis þegar menn halda því fram eftir okkar stutta sjálfstjórnartímabil í þessu landi, að það sé eðlilegt og sjálfsagt að við séum komnir það langt áleiðis í uppbyggingu okkar atvinnuvega og nýtingu okkar auðlinda að við eigum sömu möguleika og fremstu iðnaðarríki heims til að skapa hér góð lífskjör. Það er ákaflega skoplegt þegar menn halda að okkar staða sé þessi. Á sínum tíma, þegar frystivélar komu til sögunnar, hrundi grunnurinn undan því að evrópskir bændur ættu möguleika á að fá viðunandi launakjör í sinni starfsgrein. Það streymdu inn í löndin ódýrar landbúnaðarvörur frá þjóðum, sem nánast viðhöfðu þrælahald til að framleiða þessar vörur. Og afleiðingin af því varð sú, að Evrópa varð eina heimsálfan sem flutti inn matvæli í stórum stíl. Þetta er söguleg staðreynd. Á stríðsárunum gerðist það aftur á móti, að allmörgum stjórnmalamönnum þessara þjóða varð ljóst að stundum gat verið hæpið að eiga allt undir því að þurfa að flytja matvörur inn í landið.

Það er eitt ákvæði í gömlu framleiðsluráðslögunum sem virðist hafa orðið vissum stéttum og fulltrúum vissra stétta sérstakt ágreiningsefni. Það er gamla lagasetningarákvæðið sem segir, að bændur skuli hafa sömu laun og aðrar stéttir. Ég skil það vel, að fulltrúar fréttamanna hér á þingi telji að svona ákvæði eigi að fara út. Ég skil það mætavel. Hins vegar fagna ég því, að enn er svo skipað málum í sölum Alþingis að þeir menn hafa þar sterkari stöðu sem vilja vinna að heill landsins alls, byggðanna allra og vilja leysa þau mál á þann veg, sem hentar íslenskum landbúnaði, að þar eigi sér stað framleiðslubreyting. Og hún getur átt sér stað ef Framleiðsluráðið fær lagalega aðstöðu til að framkvæma hana, en landauðnarstefnan, sem kennd hefur verið við krata og eyðibýlin við Djúp m.a. bera með sér, — sú landauðnarstefna verður aldrei ofan á hér á landi.