12.03.1980
Neðri deild: 42. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (1130)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið.

Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. þm. Árna Gunnarssonar. Hann lýsti því, sem rétt er, að mjólkurframleiðslan hefur vaxið það sem af er þessu ári. Það er alveg hárrétt að slíkt rímar ekki saman við að æskilegt markmið er að draga mjólkurframleiðsluna saman. Það er hins vegar engin reynsla komin á hver verður niðurstaðan þegar upp er staðið um framleiðslu þessa árs í heild og ekki vert að fara með neina spádóma um það. Ég vil hins vegar benda á að samkv. fréttabréfi frá upplýsingaþjónustu landbúnaðarins hefur búpeningi í landinu fækkað verulega á síðasta hausti, t.a.m. mjólkurkúm um 6.8%, nautpeningi í heild um 8.68%, sauðfé um 10.68% og hrossum um 6.07%. Miðað við þær tölur, sem hér eru raktar og t.a.m. snerta kúastofninn, þar sem kúm hefur fækkað um 6.8%, má leiða að því líkur, að sú aukning, sem er á mjólkurframleiðslu fyrstu mánuði ársins, muni ekki halda áfram þegar lengra líður á árið. Það gæti átt sínar skynsamlegu rætur í því, að bændur hafi vegna takmarkaðra heyja á s.l. hausti slátrað fremur síðbærum en snemmbærum. Ég vænti þess, að jafnskarpur maður og hv. þm. Árni Gunnarsson átti sig á því, að þarna getur verið um stundarfyrirbrigði að ræða sem a.m.k. er óvíst að nái yfir þróun í mjólkurframleiðslunni þegar mjólkurframleiðslan er mest, og þá hafa prósentustigin til eða frá miklu meiri áhrif en nú á fyrstu mánuðum ársins.

Hv. þm. benti á að framleiðsla dilkakjöts væri allnokkur hjá öðrum en þeim sem hafa landbúnað að aðalatvinnu. Þetta er alveg rétt. Athuganir, er þetta varða, koma sérstaklega til þegar um þá stefnumótun verður fjallað sem ég hef hér rætt um. Það er hins vegar svo, að hjá þessum aðilum kemur til kasta, miðað við það kvótakerfi sem reiknað er með að tekið verði upp, hámarksskerðing á framleiðslu.

Hv þm. sagði að það væri kostulegt að hlusta á þegar talað væri um stuðning við landbúnaðinn hér á Íslandi, því að þá væri gjarnan vitnað til þess að landbúnaðinum væri líka veittur stuðningur erlendis, í ýmsum Evrópulöndum, þ. á m. löndum Efnahagsbandalagsins. En þetta taldi hv. þm. ekki neitt sambærilegt vegna þess að þar væru virkileg landbúnaðarlönd, hér á norðurhjara væri hins vegar kannske tæplega landbúnaðarland. Ef það er svo, að í hinum ágætu landbúnaðarlöndum Efnahagsbandalagsins þurfi að verja miklum fjárhæðum og hærri hlutfallstölum af ríkisútgjöldum til styrktar landbúnaði en hér, tel ég það fremur sönnun þess að landbúnaðarstefnan hafi þó þrátt fyrir allt ekki fólgið í sér meiri villur en þá hefur verið um að ræða í Efnahagsbandalagslöndunum og að þar sé líka um að ræða vitnisburð um þróttmikla bændastétt. Ég hika ekki við að segja það, þrátt fyrir orð hv. þm. Vilmundar Gylfasonar um smjaður.

Ég held að ég sjái ekki ástæðu til þess að gera fleiri aths. Mér þótti niðurlag á ræðu hv. þm. Árna Gunnarssonar gott, þar sem hann viðurkenndi og kvaðst styðja þá niðurgreiðslustefnu sem hér hefði ríkt. Og mér skildist að hann væri í raun og sannleika í hjarta sínu með þessu frv., sem hér er á dagskrá, þó að hann teldi sig þurfa að sitja hjá við afgreiðslu þess.

Ég vil svo aðeins vonast til þess að þetta mál, sem á sér orðið langa sögu í þingsölum, þó að það hafi ekki átt langa sögu í þeim búningi sem það er í nú, nái hér fljótt afgreiðslu.