13.03.1980
Efri deild: 47. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (1143)

114. mál, ráðgjöf og fræðsla varðandi fóstureyðingar

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég vil byrja á því, þrátt fyrir að ég sé ósammála hv. flm. þessa frv. í meginatriðum, að þakka honum fyrir afbragðsræðu í þessu efni. Ég ber vissulega virðingu fyrir skoðunum hans og sjónarmiðum í þessu efni þó ég sé þeim ósammála. Það er alltaf gott þegar þannig er staðið að málum eins og þessum hér á Alþ., að til þess er vel vandað í alla staði og fyrir því er flutt það sem ég kalla menningarlega framsögu.

Ég stóð að þeirri lagasetningu sem hv. flm. leggur hér til breytingar á. Ég hef rætt þetta mál oft hér á Alþ. og skal þess vegna ekki hafa mörg orð nú. Ég hafði við lagasetninguna ráð þeirra sem ég mat mest í þessu efni. Það er að vísu rétt, að um hana voru ekki allir sammála, en þó hnigu yfirgnæfandi rök þeirra, sem um þetta mál fjölluðu frá sérfræðilegu sjónarmiði og frá, að ég segi, að níörgu leyti mannlegu sjónarmiði einnig, að því að breytingin, sem þá var gerð á fóstureyðingarlögunum, ætti rétt á sér og við ættum að setja hana í lög.

En auðvitað er ekki nóg að hlusta á sérfræðinga í þessu efni. Menn verða líka að ráðgast við eigin samvisku. Það er ekki minna atriði. Það taldi ég mig einnig hafa gert. Ég hef ekki breytt um skoðun, þó ég vilji vissulega — og ég fæ það til meðferðar í þeirri n. sem ég á sæti í, — athuga þetta mál vel og kanna m.a. þær tölur sem hv. flm. flutti hér varðandi fjölgun fóstureyðinga, ástæður þeirra og orsakir. Hér er viðkvæmt mál á ferðinni, sem er vissulega allrar skoðunar vert. Þar af leiðandi get ég fagnað því að það kemur inn í þingsali og heilbr.- og trn. fær það til meðferðar, skoðunar og athugunar.

Varðandi fóstureyðingalögin í heild er auðvitað vitað, að hér er um umdeildasta atriðið að ræða og menn ekki á eitt sáttir. Það er einnig rétt, sem fram kemur hjá hv. flm., að þrátt fyrir velferð okkar á hinum mörgu sviðum vantar okkur enn þá æðimikið á ýmsar úrbætur á þeirri félagslegu aðstöðu sem hann minntist á. Hann hefur einnig í þessu tilefni flutt frv. sem þar á að koma til móts við þarfir. Það er einnig mjög mikillar virðingar vert þegar menn gera hvort tveggja, að ætla að afnema atriðið, sem hann talar um, og vilja koma til móts við þær þarfir, sem óneitanlega er ekki nægilega séð fyrir.

Þetta mál vil ég einnig skoða. Ég hef lengi verið á því, að varðandi mæðralaunin almennt byggjum við við óréttlæti. Ég hef flutt um það brtt. hér á hv. Alþ., þ.e. um það hlutfall sem er á milli mæðralauna með eitt barn og með tvö börn eða fleiri. Tillögur um það hafa verið felldar, því miður, þannig að það hefur ekki verið talin ástæða til að breyta þeim hlutföllum í hag móðurinnar með eina barnið.

Ég sagði við umræður um þetta mál í fyrra, að í mínum huga hefði það ævinlega verið svo, að hér ætti að ganga út frá mjög mikilvægu atriði, þar sem er sjálfsákvörðunarréttur konunnar. Ekki alhliða, ekki algilt á það að vera, en engu að síður vegur það í mínum huga þyngst. þá á ég ekki við rétt sem tekinn er að óhugsuðu máli, að óathuguðu máli, heldur, eins og tryggt á að vera, eftir góða ráðgjöf í þessum efnum, eftir allar ábendingar og alla mögulega aðstoð sem í veg fyrir fóstureyðingar gæti komið. Mín skoðun er sú enn og aftur, hvað sem menn segja um það, eins og hér hefur jafnvel verið tæpt á, þótt hv. flm. hafi vitanlega aldrei gert slíkt, að konur hreinlega sæktust eftir þessu, að slíkt er vitanlega hin mesta firra og til vansæmdar þeim sem það hafa sagt. Hér hlýtur að vera um algert neyðarúrræði að ræða. En vissulega geta ástæður verið slíkar að til þess neyðarúrræðis eigi að grípa.

Við fáum það til umfjöllunar í n., hvers vegna tíðni fóstureyðinga hefur aukist svo mjög. Ég álít að lagabreytingin ein sér, rýmkunin ein sér, eigi hér ekki sök á, í henni sé ekki að finna alla skýringuna. Það kemur upp tvennt sem margoft hefur verið sagt áður í umræðum á Alþ. um þetta mál og við höfum ekki beinar tölur um, en við vitum engu að síður að var staðreynd fyrir þessa rýmkun. Annars vegar eru hinar ólöglegu fóstureyðingar, sem ég efa ekki að hljóti að hafa minnkað. Um það er kannske best að fullyrða sem allra minnst hvað miklar þær haf verið, en engu að síður var talið af þeim, sem um þetta mál fjölluðu þegar breytingin var gerð, að hér væri miklu meira um þær en menn vildu vera láta. Það sama er að segja um ferðir kvenna til útlanda, sérstaklega til Bretlands, og þar veit ég að hv. flm. er með ákveðnar tölur sem eru ekki heldur þess eðlis að þær gefi beina vísbendingu. En engu að síður er ég sannfærður um að hvort tveggja þetta hefur verið til staðar í allríkum mæli áður en rýmkunin kom til, og við verðum a.m.k. að taka þetta alvarlega inn í myndina.

Félagslegar aðstæður vega vissulega þungt í þessum efnum. Við getum hins vegar áreiðanlega deilt um það endalaust, hvort þær eigi yfirleitt að hafa hér áhrif, hvort við eigum yfirleitt að segja alveg ákveðið að vissar félagslegar aðstæður, með þeirri ráðgjöf sem fólgin er í löggjöfinni, geti á nokkurn hátt og nokkurn tíma réttlætt fóstureyðingu. Við eigum sem sagt langt þar í land, við skulum vera sammála um það. Hv. flm. veit að við eigum að einbeita okkur að því að gera hinar félagslegu aðstæður sem bestar. Við eigum m.a. að gera það varðandi breytingu á mæðralaununum. Það er áreiðanlega rétt leið sem hv. flm. bendir þar á. Ég vil hins vegar enn sem fyrr að meginatriði þessa máls verði það, að konan hafi sjálfsákvörðunarrétt að undangenginni allri ráðgjöf og upplýsingum um þá aðstoð sem mögulegt er.

Ég skal ekki hafa um þetta miklu fleiri orð. Ég er enn sömu skoðunar og fyrr, að ég vil hafa þá rýmkun sem sett var í lög 1975. Ég segi það sem sagt enn og aftur, eins og ég sagði í fyrra, að hér eru það forsendur konunnar sem ég álít að eigi að ráða mestu — ekki öllu, en mestu — og að konan sjálf beri þarna ábyrgð. Hún fær til þess ráðgjöf, fyrir því er séð í lögum. Hún fær til þess leiðbeiningar. Það er ekki rasað að neinu um ráð fram í þessu efni. Og mín skoðun er sú enn sem áður, að enginn utanaðkomandi aðili geti þarna tekið ákveðnari og skýrari afstöðu en einmitt konan sjálf.

Ég vil svo aðeins, vegna þeirra umræðna sem hér urðu á síðasta þingi, vitna til þess ræðumanns sem ég bar mikið traust til í þessum efnum, hv. fyrrv. þm. Braga Níelssonar, en hann sagði með leyfi hæstv. forseta, í þessum umræðum, orðrétt:

„Ég felli mig afskaplega illa við orð í grg. þessa frv. og það er að tortíma mannlegu lífi. Þegar fóstur er innan við tólf vikna gamalt getur það ekki lifað sjálfstæðu lífi.“

Lokaorð í ræðu hv. fyrrv. þm. Braga Níelssonar voru svo þessi, og ég vil einnig gera þau orð að mínum lokaorðum ásamt því sem ég hef áður sagt um sjálfsákvörðunarrétt konunnar, — en með leyfi forseta sagði hv. þm. Bragi Níelsson við umræður um þetta mál í fyrra í lokin:

„Ég bið menn að skoða það ekki sem blóðfórn eða einhvern stórkostlegan glæp þó að fóstri, sem er innan við tólf vikna gamalt o getur ekki lifað sjálfstæðu lífi, sé útrýmt úr legi konu. Ég skoða það ekki sem morð. Ég skoða það ekki sem glæp. Ég mundi í sumum tilfellum skoða það frekar sem glæp að neita konu um þann rétt að losna við fóstur.“