13.03.1980
Efri deild: 47. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

117. mál, almannatryggingar

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka frsm. fyrir orð hans hér. Ég vil lýsa yfir fylgi við efni þessa frv. og geri það einlæglega. Eins og kunnugt er stendur nú yfir endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni, og ég hygg að ef menn líta raunsætt á þau mál muni þetta koma inn í þá umr.

Mér þætti ekki óeðlilegt við athugun á þessu máli, að sú athugun færi fram jafnhliða athugun á fæðingarorlofi kvenna. Ráðstafanir þær, sem frv. gerir ráð fyrir, eru þess eðlis, þær eru fjármálalegs eðlis. Ég vil taka það fram, að ég efast ekki um að ef að lögum yrði mundi það fækka eitthvað fóstureyðingum hér á landi í þeim tilfellum þegar féleysi eða annað aðstöðuleysi af þeim sökum veldur því að ungbarn er ekki velkomið í þennan heim.

En varðandi ummæli hv. 4. þm. Vestf. áðan, þá fannst mér hann misskilja örlítið orð mín. Ég talaði um álit læknisfræðinnar. Ég er ekki læknir, og skoðun mín er ekki samdóma því áliti læknisfræðinnar, ég vil taka það skýrt fram. Ég er ekki þannig sinnaður að ég líki fóstureyðingu við að skorið sé burt kýli. Það er ekki mín hugsun í þessu máli. Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri, en ég við að endingu segja að sem heilbr.- og trn.-maður mun ég taka þátt í einlægri athugun á þessu frv. og leggja það lið sem ég get til þess að slíkar ráðstafanir eða aðrar viðlíka verði að lögum.