13.03.1980
Efri deild: 47. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (1149)

117. mál, almannatryggingar

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 3. þm. Vesturl. fyrir hans góðu undirtektir undir frv., sem hér er til umr., og stuðning hans við efni þess, sem ég met mjög mikils.

Hv. þm. sagði, eða ég skildi hann svo, að það kynni að vera rétt að taka til endurskoðunar fæðingarorlof kvenna í heild. Þá veit ég að hann hefur í huga að þá sé gætt réttar eða hagsmuna einstæðra mæðra, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég vil um það segja, að ekkert hefði ég á móti því að svo væri, en ég taldi rétt í þessu frv. að einskorða mig við einstæðar mæður, vegna þess að þessu frv. er ætlað að stuðla að því, að fjarlægð séu viss félagsleg vandamál sem samkv. gildandi lögum geta heimilað fóstureyðingu. Ég lét mér detta í hug að það væri hyggilegt að binda sig einungis við þennan þátt málsins, í þeirri von líka að málið næði frekar fram að ganga. En ég er að sjálfsögðu opinn fyrir hugmynd hv. 3. þm. Vesturl., ef sú leið er fær og með sama öryggi fyrir einstæðar mæður og gert er ráð fyrir í þessu frv.

Hv. 3. þm. Vesturl. sagði að ég mundi hafa misskilið orð hans varðandi umr. um 2. dagskrármálið á þessum fundi, þar sem fóstureyðingu var líkt við venjulega aðgerð. Það kann að vera að orð mín hafi ekki verið nægilega glögg í þessu efni. En ég vil taka það fram, að það hefur ekki hvarflað að mér að það væri skoðun hv. þm. sem lýsti sér í því sem hann vitnaði til læknisfræði í þessu sambandi. Ég er, eins og hv. þm., ekki læknir, og ég veit alveg að við erum báðir ósammála því að leggja þetta að jöfnu. Þess vegna eigum við líka mjög hægt um vik að ræða saman um þessi mál, eins og við allir sem höfum tekið til máls varðandi þau í dag.

Ég vil aðeins í lokin ítreka þá von mína, að árangur megi nokkur verða af þessum frv. og að þau verði vandlega athuguð og afgreidd í hv. heilbr.- og trn.