19.12.1979
Neðri deild: 6. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

44. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég vil ekki tefja þingstörf með því að fara að fjalla í löngu máli um efnisatriði þessa frv. Ég vildi segja að þetta frv., sem nú er komið fram, er mjög aðkallandi að því leyti, að nú er að hefjast undirbúningur að álagningu skatta á næsta ári og þess vegna er mikilvægt að þær breytingar, sem kunna að verða gerðar á þeim grundvelli sem lagt er á eftir, liggi sem fyrst fyrir. Þetta vissu menn mjög vel þegar þing var rofið og efnt til nýrra kosninga. Þetta var eitt af þeim málum sem vitað var um að var knýjandi nauðsyn að taka á, og þetta er mál sem Alþ. hefði þurft að hafa til meðferðar um nokkurt skeið. En nú er ljóst að stuttur tími er til umfjöllunar á þessu máli og er það miður.

Í sjálfu sér er nauðsynlegt að hæstv. ríkisstj. fari að gera sér glögga grein fyrir hvaða mál það eru sem alger nauðsyn er á að verði lokið fyrir jól, þannig að hægt sé að beina kröftunum fyrst og fremst að þeim málum, en þau þá látin bíða fram yfir áramót sem hægt er að láta bíða.

Ég er þeirrar skoðunar, að það sé nauðsynlegt, ef hægt væri, að afgreiða þetta frv. En hins vegar verð ég var við að enn er verið að flytja hér ýmis frv. og m.a. er eitt frv. komið á borð þm. sem snertir að nokkru þetta mál og ákvæði í lögum um tekjuskatt og eignarskatt, en það er frv. til l. um skattadóm og rannsókn skattsvikamála, sem fjallað er um að nokkru leyti í lögum um tekjuskatt og eignarskatt, eða nánar tilgreint í 108. gr. Mér er fullkomlega ljóst að það er ýmsum erfiðleikum háð fyrir Alþ. að ljúka þessu máli nú fyrir jól, en ef það reynist ekki unnt er nauðsynlegt að það verði gert strax eftir áramót. Margt bendir til að slíkt væri mögulegt, þó að það sé náttúrlega ekki æskilegt fyrir þá sem þurfa að styðjast við þessi lög við framtöl sín og undirbúning sinna mála.

Það má segja að frv. það, sem hér kemur fram, sé beint framhald af lögum nr. 40/1978. Um þau lög var veruleg samstaða hér á Alþingi, þ.e.a.s. þann grundvöll sem þar lá fyrir, skilgreiningu á tekjuhugtakinu og skilgreiningu á eignarhugtakinu. Mönnum var ljóst að gera þyrfti ýmsar lagfæringar. Ég vil aðeins vitna til þess sem m.a. ég sagði við framsögu meiri hl. fjh.- og viðskn. í Ed. Þar sagði ég m.a.: „En ég vil aðeins ítreka það, að ég tel nauðsynlegt að tíminn verði vel notaður í sumar til þess að fullkanna þessi atriði og athuga fleiri leiðir í þessum efnum“ — þ.e.a.s. meðferð á svokölluðum mótreikningi sem fjallað er um í 44. og 45. gr. laganna. Að þessu hefur verið unnið síðan, og má segja að meginhluti þessa frv. séu þær niðurstöður sem komu út úr þeim athugunum og menn töldu nauðsynlegt að breyta þannig að sæmileg skynsemi væri í. En það er rétt að menn athugi að hér er verið að fara út á brautir sem ekki hafa verið farnar í öðrum löndum, og því þarf ekki að koma á óvart þó að það taki tíma að finna bestu leiðir í þessum efnum, þ.e.a.s. hvernig eigi að aðlaga skattkerfið að okkar verðbólgutímum, hvernig eigi að aðlaga tekjuhugtakið og eignarhugtakið þeirri stöðu sem komin er upp í þjóðfélaginu þannig að öllu réttlæti sé fylgt, því að við vitum að það er fyrst og fremst verðbólgan sem hefur orðið þess valdandi að misrétti ríkir í skattamálum.

Í öðru lagi lá það fyrir vorið 1978 að ekki mundi verða unnt að koma á staðgreiðslukerfi skatta jafnvel þótt lögin um tekjuskatt og eignarskatt gerðu ráð fyrir því. Og ég vil einnig vitna til þess er ég sagði þá, en ég sagði m.a.:

„Í mínum huga er ljóst að ekki er raunhæft að stefna að því að taka upp slíkt kerfi“ — þ.e.a.s. staðgreiðslukerfi skatta — „um næstu áramót, en þetta frv. heldur alveg gildi sínu þótt svo verði ekki, ef auðnast má að taka upp slíkt kerfi 1. jan. 1980.“

Ég held að það hafi verið mistök, að gert skuli hafa verið ráð fyrir því í lögum nr. 40/1978 að staðgreiðslukerfi skatta væri komið á 1. jan. 1979. Við vissum þá að það var óraunhæft markmið. Ég held að hyggilegra sé að setja sér raunhæf markmið og vinna því harðar að því að koma þeim fram. Um það frv., sem lagt var fram vorið 1978, sem kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. að hafði dagað uppi hér á Alþ., — ég held að ekkí sé rétt að segja að það hafi dagað hér uppi því að það var flutt á síðustu dögum þingsins og komst, að því er mig minnir, rétt til n., — um það hafði ekkert verið fjallað hjá hinum ýmsu hagsmunaaðilum í þjóðfélaginu. Alþ. verður því vart kennt um þótt það frv. hafi ekki verið lögfest. En síðan má segja að lítið hafi gerst í þeim málum og lítið hafi verið unnið að því að koma á staðgreiðslukerfi skatta, sem allir stjórnmálaflokkar hafa þó lýst yfir að stefna beri að. Væri því æskilegt að menn settu sér í þessum efnum sem öðrum nokkuð raunhæf markmið þannig að við gætum komið þeim fram á skynsamlegum tíma. En ég held að það megi vera fullljóst að jafnvel þótt ákvörðun um staðgreiðslukerfi skatta yrði tekin í dag væri þess vart að vænta að slíkt væri hægt fyrr en svona 1. jan. 1982. Það er mikið mál að framkvæma slíka breytingu. Aðrar þjóðir hafa farið út í slíka breytingu án mikils undirbúnings og út úr því hefur komið veruleg óreiða og vandræði í viðkomandi þjóðfélögum.

Það frv., sem hér er, er því að mínu mati eðlilegt framhald af því sem gert var og lögfest var vorið 1978. Þarf því fyrst og fremst að skoða það í því ljósi að hér er um lagfæringar að ræða á grundvelli, skattstofnum, sem verulegt samkomulag var um hér á Alþingi. Hitt er svo annað mál, að hér er á engan hátt fjallað um skattstiga og skattprósentu, en það var aftur á móti allverulegt deilumál vorið 1978, hvernig þau skatthlutföll skyldu vera, og eðlilegt að mismunandi sjónarmið ríki um það. Er að öllu leyti eðlilegt að slíkt bíði nýrrar ríkisstjórnar.

Það kemur fram í þessu frv. að þær breytingar, sem gert er ráð fyrir að verði á meðferð vaxtagjalda og vaxtatekna, komi ekki til framkvæmda fyrr en við álagningu 1981, þ.e.a.s. fyrir tekjuárið 1980. Þetta hefur í för með sér að ekki þarf að gera breytingar á skattframtali einstaklinga sem búið er að gera uppkast að og tilbúið er til prentunar, þannig að jafnvel þótt ekki mundi nást að lögfesta þetta frv. fyrir áramót mundi það ekki hafa áhrif á skatteyðublað einstaklinga. Hins vegar kemur frv. til með að hafa mjög mikil áhrif á framtal atvinnurekstrarins, á endurmat eigna í atvinnurekstri og ýmislegt fleira er hann varðar. Ég tel því út af fyrir sig mögulegt að Alþ. fái heldur lengri tíma til meðferðar á þessu máli, en það er að vísu háð því að samstaða sé um það á Alþ. að þingið komi saman hið fyrsta eftir áramót. Ef það stendur ekki til, og það stendur e.t.v. til að Alþ. komi ekki saman fyrr en seinni hluta janúarmánaðar, er algerlega nauðsynlegt að lögfesta þær breytingar sem hér er gert ráð fyrir. En þegar um svo viðamikið mál sem þetta er að ræða tel ég mjög eðlilegt að Alþ. vilji taka sér nokkra daga til að skoða slíkt mál. Það er óneitanlega ekki góður svipur á því að afgreiða svo stórt mál með skjótum hætti því nú líður óðum að jólaleyfi. Vissulega væri því kostur að geta tekið sér aðeins lengri tíma til þess.

En við hljótum að standa frammi fyrir því á ýmsum sviðum þjóðlífsins, að þegar Alþ. starfar ekki að neinu leyti á haustmánuðum hefur það ýmsar afleiðingar í þjóðfélaginu. Menn hljóta að hafa gert sér grein fyrir því, þegar slík ákvörðun var tekin, hvaða afleiðingar það mundi hafa. Við stöndum m.a. frammi fyrir þeim í þessu máli. Ég er ekki að segja að það séu nein rök fyrir því að málinu eigi að fresta, en hins vegar, þó að ég sé fyrir mitt leyti tilbúinn að standa að afgreiðslu þessa máls fyrir jólaleyfi, hef ég verið — (Gripið fram í.) Hefur þetta mál verið í n. í tvö ár? (Gripið fram í: Ja, eitthvað í kringum það. ) Ég veit ekki alveg um hvort það hefur verið í n. í tvö ár, en ég get ósköp vel skilið að aðrir telji að æskilegt sé að málið verði ekki afgreitt fyrr en fyrstu daga janúarmánaðar.

Ég vil aðeins ítreka það, að ég vil ekki tefja þingstörf með því að fjalla í löngu máli um efnisatriði þessa máls og mun gera það síðar, þegar málið hefur hlotið meðferð í fjh.- og viðskn. Nd.