13.03.1980
Neðri deild: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (1162)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til þess að svara hér nokkru af því sem fram kom fyrr í dag í máli hv. þm. Alexanders Stefánssonar. Var ekki annað að heyra af máli hans en að till. mín um að koma í veg fyrir aukna skattbyrði landsmanna hefði komið honum verulega úr jafnvægi. Hv. þm. Alexander Stefánsson talaði um, að þessi till. á þskj. 199 hafi verið órædd í félmn., og talaði með miklum gífuryrðum um leiksýningu af minni hendi fyrir að vilja ekki auka skattbyrðina í landinu. Því er til að svara, að í nál. á þskj. 189 kemur fram að einstakir nm. áskilja sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt. Það hefur hv. þm. Alexander Stefánsson gert og hefur hann varla neinn einkarétt á því. Það að þessi till. sé órædd í n. á sér ofureinfalda skýringu. Þessi hugmynd mín, sem fram kemur í brtt. á þskj. 199, varð ekki til fyrr en málið hafði verið afgreitt úr n. og ljóst varð nú í vikunni, þegar brtt. á þskj. 191 var lögð fram, að einstakir nm. ætluðu að gera alvöru úr því með þessu heimildarákvæði að leggja auknar byrðar á skattgreiðendur. Ef þessir sömu nm. hafa áhuga á að koma til móts við þessa brtt. og athuga hana í n. og greiða þar með götu þess, að ekki komi til aukin skattbyrði, þá er hægur vandi að fresta þessari umr. og athuga brtt. Og það virðist kannske ekki veita af að athuga hana í n. ef marka má ummæli hv. þm. Alexanders Stefánssonar, sem telur hana flókna, verið sé að gera gerbyltingu á skattakerfinu og þar fram eftir götunum.

Ég skal upplýsa hv. þm. um það, að þeir sveitarstjórnarmenn og skattasérfræðingar, sem ég hef talað við, telja till. vel framkvæmanlega, að ég ekki tali um auðskilda, þó að hún virðist eitthvað tormelt fyrir hv. þm., auk þess sem hún muni koma til móts við þarfir sveitarfélaganna. Spurningin, sem hv. alþm. standa frammi fyrir nú, er einungis: Gerum við þetta með tekjutilfærslu milli ríkissjóðs og sveitarfélaganna eða á enn einu sinni að seilast í vasa skattgreiðenda? Annars hefur þessi brtt. legið fyrir á borðum þm. á annan sólarhring, og hafi verið áhugi hjá formanni n., hv. þm. Alexander Stefánssyni, að athuga hana í n., þá voru hæg hjá honum heimatökin að kalla n. saman í morgun og kalla til sveitarstjórnarmenn og fá álit þeirra á málinu. En skýringin er eflaust sú, að hv. þm. hefur lítinn áhuga á að brtt. á þskj. 199 nái fram að ganga. Honum er meira í mun að brtt. á þskj.191 verði samþ., sem leggur íþyngjandi byrðar á skattgreiðendur, þó svo hann viti fullvel að till. mín gerir sama gagn fyrir sveitarfélögin.

Ég skal láta hv. þm. vita um það, að ég er ekki eini nm. sem leggur fram brtt. við þetta frv. án þess að fá leyfi Hv. þm. Alexanders Stefánssonar, formanns n. Ég minni á till. þm. Sjálfstfl. í n. Þeir lögðu fram brtt. sem órædd var einnig í n. þegar hún var lögð fram. Hv. þm. Alexander Stefánsson lagði þá spurningu fyrir mig, hvernig hægt sé að taka þessar tekjur af ríkissjóði og flytja yfir til sveitarfélaganna, það hafi hingað til ekki verið hægt nema með aukinni skattlagningu. Ég skal segja hv. þm. það, að til er önnur leið en sú, sem hann vill fara, í vasa skattborgaranna. Það er nefnilega, hv. þm. Alexander Stefánsson, hægt að skera niður útgjöld ríkissjóðs á móti. Ég sagði í minni fyrri ræðu — en hv. þm. virðist ekki hafa tekið eftir því — að við Alþfl.-menn værum tilbúnir að leggja fram sparnaðartillögur á móti ef þessi brtt. næði fram að ganga. Það er hægt með tekjutilfærslu frá ríkissjóði til sveitarfélaganna. Það er nefnilega til leið, hv. þm. Alexander Stefánsson, að leysa vanda sveitarfélaganna án þess að það sé á kostnað skattborgaranna. Og ég er reyndar viss um að þótt hv. þm. Alexander Stefánsson kalli þessa till. mína leiksýningu, þá muni skattborgarar ekki kalla þessa brtt. leiksýningu, ef þessi leiksýning verður til þess að skattbyrði þeirra þyngist ekki um 5 milljarða kr. Og ég fullyrði að það hafa verið haldnar leiksýningar um ómerkara mál en þetta á hv. Alþingi.

Að lokum eitt atriði til umhugsunar fyrir hv. þm. Alexander Stefánsson. Það er ekki síður ástæða til þess að hafa áhyggjur af fjárhagserfiðleikum heimilanna en sveitarfélaganna, það skyldi hv. þm. muna í skattagleði sinni og þeirrar ríkisstj. sem hann styður.

Ég sé að lokum fulla ástæðu til þess að þakka undirtektir hv. þm. Sjálfstfl., sem hafa talað við þessa umr., undir þá brtt. sem ég flyt á þskj. 199.