13.03.1980
Neðri deild: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það væri vissulega ástæða til að eyða nokkrum tíma í viðræður við hv. þm. Alexander Stefánsson, og það er auðvitað ástæðulaust fyrir okkur stjórnarandstæðinga að skorast undan því að halda uppi umr. um þetta mál ef það er meining stjórnarsinna sjálfra og vilji að það sé gert, sem mér sýnist vera. En ég skal verða við tilmælum hæstv. forseta um að gera örstutta aths.

Af hverju er hv. þm. Alexander Stefánsson, formaður félmn. að skrökva til um þetta mál, — beinlínis skrökva? Hann sagði áðan að það væri misskilningur hjá okkur til hvers 10% álagið væri ætlað, það sé ætlað til hækkunar vegna tiltekinna verkefna. Hvar stendur þetta? Það væri gott ef hv. þm. vildi lesa örlitið betur bæði frv. og brtt. hv.

þm. sjálfs. Í frv., sem brtt. hv. þm. er við, segir svo í 3. málsl. 5. gr.:

„Við samningu fjárhagsáætlunar fyrir næsta almanaksár ákveður sveitarstjórn hver hundraðshluti verði lagður á tekjur manna á því ári.“

Brtt. er viðbót við þetta, eins og hún er stíluð, og þar segir:

„Við 5. gr. Við greinina bætist ný mgr., er verði 4. mgr. og orðist svo“ — og nú ætti hv. þm. Alexander Stefánsson að taka eftir: „Nú hrökkva útsvör samkv. 1. mgr. ekki fyrir áætluðum útgjöldum,“ taki menn eftir „áætluðum útgjöldum,“ ekki neinum tilteknum verkefnum, sérstaklega brýnum, „áætluðum útgjöldum og er þá sveitarstjórn heimilt að hækka þau um 10% að fengnu samþykki ráðh.“

Það er áætlun viðkomandi sveitarstjórnar sem hér er lögð til grundvallar, engin tiltekin brýn verkefni. Það er því rangt hjá Hv. þm., formanni félmn., að bera slíkt á borð fyrir hv. alþm., og það er ósæmandi mönnum og blygðunarlaust að fara svo frjálslega með staðreyndir sem þessi hv. þm. virðist gera. Það er lágmark a.m.k. að menn í ábyrgðarstöðum innan þingsins hagi sér ekki með þeim hætti í málflutningi. (Gripið fram í.) Jæja, það er gott. Hæstv. ráðh. vill ekki standa við eigin orð. (Gripið fram í: Hverjir mega haga sér svona?) Þá tekur skrifari við. Hvað sagði hann? (Gripið fram í: Hverjir mega haga sér þannig?) Auðvitað eiga þeir síst að haga sér svona sem eru í ábyrgðarstöðum. Það er, eins og ég segi, ástæðulaust. (Forseti: Ég vil biðja hv. dm. að ræða ekki mikið saman og síst svona hátt. Með því móti gæti umr. dregist óþægilega á langinn.) Ég vil taka fram vegna orða hæstv. forseta, að það er síður en svo að ég sé að mælast til þess að menn grípi fram í. En hæstv. ráðh. kvartaði undan því áðan að skrifari þingsins gripi fram í. Hæstv. ráðh. hefur sjálfur fallið í þá gryfju núna. En hann má það eigi að síður mín vegna.

Ég vil sem sagt ítreka það, að ég hefði ekki tekið hér til máls nema vegna þess að hv. þm. Alexander Stefánsson hegðaði sér með þeim hætti sem hér hefur gerst. Það er ástæðulaust að mönnum líðist að fara svo frjálslega með staðreyndir sem hv. þm. hefur gert núna og raunar gerði í fleiri tilvikum í síðustu ræðu sinni, t.d. þegar hann var að vitna til ummæla sem hv. 10. landsk. þm., Jóhanna Sigurðardóttir, hafði alls ekki í dag. Hv. þm. Alexander Stefánsson var að leggja henni orð í munn. Það kæmi mér ekki á óvart þó að samstarf við formanninn í hv. félmn. gengi erfiðlega ef svo heldur fram sem horfir og með þeim hætti sem hann hefur látið í skína í dag.