19.12.1979
Neðri deild: 6. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

44. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þetta frv. er komið til umr. með allsérkennilegum hætti, og við það óvenjulega, sem allir þekkja, bætist það nú að hæstv. fjmrh. er ekki viðstaddur umr. (Gripið fram í.) Hann er horfinn úr salnum og hv. þm. Karvel Pálmason, sem helst á að gæta fjmrh. að sjálfsögðu, fullyrðir að hann komi fljótlega.. Það þykir okkur vænt um, hv. alþm. hér viðstöddum.

En kjarni þessa máls er auðvitað sá, án þess að ég fari að ræða það efnislega í einstökum atriðum nú, að hér er afar viðamikið frv. á ferðinni og er útilokað að ætlast til að Alþ. afgreiði þetta mál á þeim sólarhringum sem nú lifa eftir af störfum þingsins til jóla. Það er með öllu fráleitt að ætlast til þess að afgreiða þetta frv. í heild eins og það liggur fyrir.

Ég hef lýst þeirri skoðun minni í viðræðum við hæstv. fjmrh. að ég telji að það sé út af fyrir sig nauðsynlegt að glöggva sig á hvaða tæknileg atriði það eru sem óhjákvæmilegt er að afgreiða á þeim dögum sem eftir eru til jólaleyfis. Þau tæknilegu atriði þarf að taka út úr og fjalla um þau sérstaklega. Nauðsynlegt er að hv. fjh.- og viðskn. fari mjög rækilega ofan í það, hvaða atriði er brýn nauðsyn að afgreiða af tæknilegum ástæðum. En með öllu er fráleitt að ætlast til þess, að Alþ. geti á þeim skamma tíma, sem nú er eftir til jóla, afgreitt þetta frv. eins og það er í heild. Og ég vil bæta því við, að í þessu frv. eru auðvitað ekki bara pennaglöp, leiðréttingar eða tæknilegar lagfæringar. Það sjá allir, að í þessu frv., eins og það liggur hér fyrir, eru pólitísk ákvörðunaratriði sem útilokað er að afgreiða með léttvægum hætti. Það verður sem sagt að fjalla ítarlega um þetta og verður að leita samráðs, og alþm. er skylt að kanna til hlítar hvaða afleiðingar einstakar greinar frv. hafa á það flókna kerfi hér í landinu sem kallað er skattakerfi. Ég veit að þeim mönnum er engin vorkunn að taka afstöðu til þessa máls sem hafa verið að ræða um þetta alllengi, eins og hv. síðasti ræðumaður, en okkur, sem komum nokkuð nýir að þessum þætti málanna, verður að gefast nokkur tími til að ræða um málið og fjalla um það.

Ég vil í þessu sambandi aðeins minna á að meðan síðasta ríkisstj. var að störfum setti hún á laggirnar skattanefnd. Í henni voru fulltrúar frá öllum þáverandi ríkisstj.-flokkum. Ég vil láta það koma fram hér að ítrekað fór ég þess á leit við fyrrv, hæstv. fjmrh., Tómas Árnason, að þessi nefnd yrði látin starfa áfram og af krafti eftir síðustu áramót. Það var ekki gert og m.a. vegna þeirrar neitunar er upp komin sú tímapressa, sem hér er um að ræða, og auðvitað líka vegna þess að flokkur hæstv. núv. ríkisstj. sá ástæðu til að rjúfa þingið á haustdögum, þegar þetta mál var óklárt eins og fjöldamörg önnur. Frammi fyrir þessum vanda stöndum við og afleiðingum hans. Auðvitað skulum við reyna að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að gera gott úr hlutunum, það er okkur skylt að gera. En ég legg á það áherslu, að með öllu er fráleitt að ætlast til þess að við afgreiðum mál af þessu tagi á þeim fáu sólarhringum sem eftir eru fram að jólaleyfi Alþingis.