17.03.1980
Sameinað þing: 32. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (1173)

116. mál, fjárlög 1980

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, á sér óvenjulegan aðdraganda, eins og öllum hv. alþm. er kunnugt. Núverandi ríkisstj., sem tók við völdum 8. febr. s.l., setti sér strax það mark, að fjárlög yrðu afgreidd fyrir páska. Ákveðið var að byggja meginefni frv. á fjárlagafrv. því sem fyrrv. fjmrh. Tómas Árnason lagði fyrir Alþingi í byrjun októbermánaðar á s.l. hausti. Þar sem aðstæður hafa breyst í verulegum atriðum síðan það frv. var úr garði gert í ágúst og septembermánuði og með hliðsjón af breyttum forsendum eftir myndun nýrrar stjórnar hefur að sjálfsögðu þurft að gera fjölmargar breytingar á frv., eins og nánari grein verður gerð fyrir hér á eftir.

Meðan starfsstjórn Alþfl. sat að völdum lagði þáv. fjmrh. fram nýtt fjárlagafrv. á Alþingi og mælti fyrir því daginn áður en starfsstjórnin lét af völdum. Frv. þetta byggði á sömu launa- og verðlagsforsendum og fyrir lágu í frv. Tómasar Árnasonar, þ.e.a.s. á upplýsingum frá því í ágúst og september, en þessar forsendur voru orðnar úreltar í verulegum atriðum þegar í desembermánuði. Munurinn á frv. Tómasar Árnasonar og Sighvats Björgvinssonar lá einkum í því, að frv. þess síðar nefnda byggðist í nokkrum mikilvægum atriðum á kosningastefnuskrá Alþfl. Ekki kom til álita að leggja það frv. til grundvallar fjárlagagerð.

Þegar ég geri grein fyrir þessu nýja frv. í einstökum atriðum og fjalla um afkomu ríkissjóðs og þjóðhagshorfur vil ég fyrst draga hér saman nokkur meginatriði frv. og víkja að forsendum fyrir helstu breytingum sem gerðar hafa verið frá því frv. sem lá til grundvallar.

Í ríkisfjármálum er það meginatriði í stjórnarstefnu núv. ríkisstj., að ríkissjóður verði rekinn með greiðsluafgangi. Í þessu frv. eru tekjur umfram gjöld um 5.5 milljarðar króna. Þar sem við það er miðað, að afborganir af skuldum ríkissjóðs nemi hærri fjárhæð en upphæð nýrra lána nemur, er greiðsluafgangur frv. nokkru lægri en rekstrarafgangur eða sem nemur rúmum 2 milljörðum kr. Svigrúm fjvn. og Alþingis nemur því tæpum 2 milljörðum króna, nema einhver útgjöld frv. séu lækkuð eða tekjur auknar.

Það hefur verið yfirlýstur ásetningur ríkisstjórna á mörgum undanförnum árum að reka hallalausan ríkisbúskap. Þó hefur þetta ekki tekist og hefur verið meiri eða minni greiðsluhalli hjá ríkissjóði á hverju ári síðan 1973. Á seinasta ári nam rekstrarhalli á greiðslugrunni tæpum 3 milljörðum kr. samkvæmt nýjustu upplýsingum. Óhjákvæmilegt er að aðhald verði aukið í ríkisbúskapnum svo og hvers konar viðleitni til sparnaðar sem hægt er að ná fram án þess að þjónusta hins opinbera minnki. En hitt er ekki síður mikilvægt, að áætlunartölur fjárlaganna séu raunhæfar og í sem bestu samræmi við óhjákvæmileg útgjöld. Greiðsluhalli ríkissjóðs á undanförnum árum stafar áreiðanlega ekki síst af því, að sumar greiðslur og önnur óhjákvæmileg útgjöld reynast hærri en fjárlög hafa gert ráð fyrir, en tekjur skila sér ekki að sama skapi. Breyttar verðforsendur, sem komið hafa á daginn síðan frv. Tómasar Árnasonar var samið, leiða til útgjaldaaukningar sem nemur 10.6 milljörðum kr. Hins vegar er áætluð tekjuaukning vegna sömu breytinga á verðforsendum einum milljarði kr. lægri, eða sem nemur 9.6 milljörðum kr. En auk þessa liggja nú fyrir betri upplýsingar um fjölmarga þætti ríkisúrgjalda en þegar ákvarðanir voru teknar um útgjaldatölur í frv. Tómasar Árnasonar, og leiða þær til aukinna útgjalda ríkissjóðs, t.d. nýsamþykkt lög, eins og lögin um eftirlaun aldraðra. Í öðrum tilvikum hafa breytingar verið gerðar í ljósi reikningsniðurstöðu ársins 1979 og nema hækkanir af þessu tagi rúmum 6 milljörðum kr. Þessi endurskoðun og styrking fyrra frv. ætti að auka líkurnar á því að ekki verði halli í ríkisbúskapnum á þessu ári, en vissulega hefði verið æskilegra að áætlaður greiðsluafgangur hefði verið meiri.

Frv. gengur í grófum dráttum út frá hliðstæðri skattlagningu og var á síðari hluta síðasta árs. Því miður er ekki sjáanlegt að nokkurt svigrúm sé til skattalækkunar eins og nú er ástatt í fjármálum ríkisins, og tillögur í þá átt virðast nokkur úr lausu lofti gripnar. Ýmsir verulegir útgjaldaliðir bætast við á þessu ári í fullu samræmi við lagasetningu Alþingis á s.l. vetri. Sem dæmi má nefna Framkvæmdasjóð öryrkja sem fær nú rúman 1 milljarð til ráðstöfunar, en í fjárlögum síðasta árs var varið tæpum 300 millj. kr. til slíkra viðfangsefna. Hitt vegur þó miklu þyngra, að reiknað er með að tollar lækki hlutfallslega á þessu ári sem nemi rösklega 5 milljarða kr. tekjutapi en þar af er 4 milljarða kr. tollalækkun vegna samninga Íslands við Efnahagsbandalagið og EFTA.

Með þetta í huga, sem hér hefur verið sagt um aukin útgjöld og minnkaðar tekjur, var með öllu útilokað að endar næðu saman í þessu frv. nema útgjöld væru nokkuð skorin niður. Olíustyrkur til þeirra, sem kynda hús sín með olíu, nam rúmum 900 millj. kr. í fjárlögum seinasta árs. Almenn samstaða er um það hér á Alþingi að auka þennan styrk verulega, og ætla má að greiðslur í þessu skyni þurfi að nema 4–5 milljörðum króna á þessu ári. Frv. um fjáröflun til þessara greiðslna er enn ekki fullmótað. Uppi hafa verið hugmyndir um að halda þessari sérstöku millifærslu milli þegna þjóðfélagsins utan fjárlaga og beina greiðslustreyminu í gegnum sérstakan sjóð samkvæmt sérstökum lögum. Það mál er í athugun enn, og er þess að vænta að sem fyrst verði úr því skorið, hvernig með millifærslur þessar skuli fara. Að olíustyrknum frátöldum felst þessi niðurskurður í nokkurri lækkun framlag til fjárfestingarsjóða, Hafrannsóknastofnunar og Landhelgisgæslu, og nemur þessi niðurskurður um 3 500 millj. kr., ef miðað er við frv. Tómasar Árnasonar.

Ríkisstj. áformar að greiða niður skuldir ríkissjóðs við Seðlabankann, og er 8.1 milljarður kr. ætlaður í því skyni á þessu ári. Heildarskuld ríkisins við Seðlabankann nam um s.l. áramót um 28.5 milljörðum kr. þegar verðbótaþætti lána hefur verið bætt við. Bróðurparturinn af þessari skuld á rætur sínar að rekja til hallarekstrar ríkissjóðs á árunum 1974, 1975 og 1978. Vafalaust mun taka mörg ár að greiða upp þessa skuld, enda varðar mestu fyrir þróun efnahagsmála á næstu árum að ekki komi til frekari skuldasöfnunar. Hins vegar er skuldin það stór, að óraunhæft er með öllu að gera ráð fyrir að hún verði greidd upp á skömmum tíma, meðan baráttan við verðbólguna stendur sem hæst og háum fjárhæðum er varið til að greiða niður vöruverð.

Í stjórnarsáttmálanum eru sérstakar aðgerðir boðaðar í því skyni að draga úr verðbólgu. Verðhækkunum á þeim vörum og þjónustu, sem verðlagsráð fjallar um, verða sett ákveðin efri mörk ársfjórðungslega, þannig að einstakar verðhækkanir vöru og þjónustu fram til 1. maí fari ekki fram úr 8%, til 1. ágúst ekki fram úr 7% og loks til 1. nóvember ekki fram úr 5%. Verðhækkanir á búvöru skulu fylgja sams konar reglum, enda er ráð fyrir því gert að niðurgreiðslur verði ákveðnar sem fast hlutfall af útsöluverði árið 1980 og 1981. Þó er sú undantekning gerð, að á tímabilinu fram að 1. maí er ætlunin að afgreiða sérstaklega hækkunarbeiðnir fyrirtækja og stofnana sem nauðsynlegar kunna að teljast, til þess að verðbreytingar slíkra aðila geti síðan fallið innan þess ramma sem fyrrnefnd mörk setja. Einnig er ráð fyrir því gert, að ríkisstj. setji sérstakar reglur um verðhækkanir af erlendum uppruna sem ekki rúmast innan ofangreindra marka að mati verðlagsráðs.

Þetta eru strangar reglur sem ekki verður auðvelt að framfylgja. En í trausti þess, að það verði gert, eru verðlagsforsendur frv. miðaðar við þessi áform.

Samsvarandi takmörk launabreytinga eru ekki í stjórnarsáttmálanum. Ríkisstj. mun ekki lögbinda kaupgjald nema í sérstökum undantekningartilvikum, enda séu þá allir aðilar að ríkisstj. sammála um það og samráð haft við samtök launafólks, eins og segir í stjórnarsáttmálanum. Laun verða áfram verðtryggð, og meðan viðskiptakjör þjóðarinnar fara heldur versnandi, eins og nú er, aukast verðbætur á laun heldur minna en nemur verðlagsbreytingum.

Þróun kjaramála á þessu ári mun ráðast í frjálsum samningum. En ljóst er að útilokað verður að halda verðhækkunum innan þeirra marka sem ég nefndi áðan ef almennar grunnkaupshækkanir ganga yfir á sama tíma. Þetta er flestum ljóst sem betur fer, og því hlýtur það að koma til vandlegrar athugunar í komandi kjarasamningum launamanna, að áhersla verði lögð á ýmiss konar félagsleg réttindamál, en jafnframt hugað sérstaklega að því að bæta hag þeirra sem lakast eru settir og lægst hafa launin. Það er einmitt þáttur í þeirri viðleitni ríkisstj. að bæta kjör þeirra sem lakast eru settir, að samkvæmt stjórnarsáttmálanum verður tekjutrygging aldraðra og öryrkja hækkuð um 5% 1. júní n.k. Margvísleg félagsleg réttindamál eru nú í undirbúningi eða eru að koma til framkvæmda, þ. á m. ýmis mál sem verkalýðshreyfingin kann vel að meta.

Niðurgreiðslur búvöruverðs verða hlutfallslega minni á þessu ári miðað við liðið ár. Það er eitt af meginstefnumiðum ríkisstj. í verðlagsmálum að koma í veg fyrir þær miklu sveiflur sem verið hafa á verði landbúnaðarvara, og verður kappkostað að halda því niðurgreiðsluhlutfalli, sem ákveðið verður í vor, sem föstu hlutfalli af verði landbúnaðarvara. Verða 24.4 milljarðar kr. til ráðstöfunar til niðurgreiðslna á þessu ári.

Ríkisstj. telur það skyldu sína að verja kjör bænda gegn meiri háttar áföllum og mun greiða fullar útflutningsuppbætur í samræmi við framleiðsluráðslög. Áætlað er að 10% landbúnaðarframleiðslunnar á yfirstandandi verðlagsári nemi um 8.4 milljörðum króna. Hins vegar er ljóst að tjón bænda af óverðtryggðum útflutningi búvara frá þessu verðlagsári verður miklu meira en svo, að útflutningsuppbætur hrökkvi þar til. Má því búast við að ríkið verði að veita Framleiðsluráði einhverja fyrirgreiðslu í þessu sambandi fyrr eða síðar, en ákvarðanir í þessu efni verða að bíða um sinn, enda er ráð fyrir því gert í stjórnarsáttmálanum, að lausn á þessum vanda tengist heildarstefnumótun í framleiðslumálum landbúnaðarins.

Í þessu frv. felst ákveðin stefnumörkun í málefnum iðnaðarins. Gert er ráð fyrir að 850 millj. kr. af innheimtu aðlögunargjaldi renni til iðnaðarins í ár, en þessi upphæð var ekki færð til gjalda í því frv. sem lagt var fram í október. Aðlögunargjaldið rennur að miklum meiri hluta til Iðnrekstrarsjóðs, en að nokkru til nýiðnaðar og hagræðingarverkefna. Gert er ráð fyrir að 1134 millj. kr. af jöfnunargjaldi renni til endurgreiðslu söluskatts iðnfyrirtækja, en upphæðin nemur 2/3 hlutum gjaldsins eins og það var áætlað í ársbyrjun. Stefnt verður að því að hraða greiðslu gjaldsins umfram það sem áður hafði verið ákveðið.

Í stjórnarsáttmála ríkisstj. er ákveðið, að ríkissjóður beri kostnað af félagslegum framkvæmdum Rafmagnsveitna ríkisins og framkvæmdum sem þeim er falið að annast. Þessi mál eru nú í sérstakri athugun, en í fjárlagafrv. er ráð fyrir því gert, að greiðslum vegna félagslegra framkvæmda Rafmagnsveitna ríkisins verði þannig hagað, að veittar verði 1000 millj. kr. til að mæta greiðslum af lánum vegna félagslegra framkvæmda fyrirtækisins á fyrri árum.

Í stjórnarsáttmála ríkisstj. er því lýst yfir, að fjárveitingar til menningarmála verði auknar. Ég held að því verði ekki á móti mælt, að framlög til menningarmála eru ótrúlega lítill hluti af heildarútgjöldum ríkisins. Ég hef nýlega kannað hvert hafi verið framlag til lista og menningarmála í fjárlögum ríkisins árið sem innlend stjórn var færð inn í landið, árið 1904. Mér telst til að framlagið hafi numið 43 þús. kr. eða rúmlega 4% af ríkisútgjöldum á þeim tíma. Samsvarandi tala er í þessu frv. um 0.8%. Framlög til lista og menningarmála þurfa að hækka í nokkrum áföngum á næstu árum. Hækkunin í þessu frv., miðað við frv. sem lagt var fram í október s.l., nemur 265 millj. kr.

Framkvæmda- og lánsfjáráætlun fylgir ekki þessu frv. af augljósum ástæðum. Lánsfjáráætlun hefur nær alltaf verið afgreidd nokkrum mánuðum síðar en fjárlagafrv., og nú hefur undirbúningur A-hluta fjárlaganna haft algjöran forgang. Gagnasöfnun til undirbúnings lánsfjáráætlunar er þó mjög langt komin, en eftir er að ákveða hvað rúmast innan áætlunar. Miðað við kröfur framkvæmdaaðila, sem þó hafa verið skornar talsvert niður, er útlit fyrir að erlendar lántökur kunni að fara yfir 100 milljarða kr. Hér er að sjálfsögðu stefnt í erlendar lántökur úr hófi fram og er ljóst að þessi miklu framkvæmdaáform þarf enn að skera talsvert niður. Í stjórnarsáttmála ríkisstj. er ákvæði þess efnis, að erlendar lántökur verði takmarkaðar eins og kostur er og að því stefnt að greiðslubyrði af erlendum skuldum fari ekki fram úr u.þ.b. 15% af útflutningstekjum þjóðarinnar á næstu árum, efri mörk erlendar lántöku verði þó ákveðin nánar með hliðsjón af eðli framkvæmda og með tilliti til gjaldeyrissparnaðar og gjaldeyrisöflunar.

Skýringin á þessari miklu þörf á erlendri lántöku er einfaldlega sú, að nú standa framkvæmdir við Hrauneyjarfossvirkjun sem hæst og er áætlað að þær kalli á erlendar lántökur að upphæð um 30 milljarðar kr. Áform um aðrar raforku- og rafveituframkvæmdir nema rúmlega 20 milljörðum kr. en þar af er ætlað af lánsfjáráætlun, einkum með erlendum lántökum, um 17 milljarðar kr. Þessu til viðbótar koma áform um stórfelldar framkvæmdir við hitaveitur og fjarvarmaveitur og þessi framkvæmdakostnaður áætlaður rúmir 24 mill jarðar kr., en þar af yrði erlend fjármögnun rúmir 10 milljarðar kr. Af þessu sést, að samanlögð áform um orkuframkvæmdir í landinu stefna á rúma 74 mill jarða kr., og yrðu þá erlendar lántökur í þessu skyni a.m.k. 57 milljarðar kr. Að sjálfsögðu er útilokað að öll þessi áform verði að veruleika á þessu ári. Hér verður að velja og hafna eins og á öðrum sviðum og fresta hluta af þessum framkvæmdum til næsta árs. Hins vegar megum við sannarlega þakka fyrir að mikill skriður er á orkuframkvæmdum í landinu eftir þá gífurlegu verðhækkun á innfluttu eldsneyti sem var á s.l. ári. Orkuframkvæmdir spara gjaldeyri í stórum stíl og skila þjóðarbúinu miklum arði, og því er alls ekki réttlætanlegt að skera þær verulega niður vegna þess eins að þær kosti of miklar erlendar lántökur. Vissulega ber að varast að innflutningur erlends lánsfjár skapi þenslu í atvinnulífi og ýti undir verðbólgu. En á hitt ber að líta, að stór þáttur raforkuframkvæmda er innflutningur á erlendum fjárfestingarvörum, vélum og tækjum, og lántökur í því skyni hafa ekki þensluáhrif í íslensku efnahagslífi.

Ríkisstj. mun hraða gerð framkvæmda- og lánsfjáráætlunar á næstu vikum og leggja hana fyrir Alþingi svo fljótt sem kostur er. En engin von er til þess, að frv. um lánsheimildir í tengslum við framkvæmda- og lánsfjáráætlun verði afgreitt fyrr en að loknu páskaleyfi.

Eftir að hafa gert hér grein fyrir meginforsendum þessa frv. og stefnumálum ríkisstj. í því sambandi vil ég nú víkja að þróun efnahagsmála á liðnu ári og þjóðhagshorfum á árinu 1980.

Eins og nokkur undangengin ár skiptir mjög í tvö horn um framvindu efnahagsmála á árinu 1979. Margir þættir efnahags- og atvinnumála voru hagstæðir. Sjávarafli var afar mikill og framleiðsla fór vaxandi í heild sinni, atvinna var næg og nokkurn veginn jöfnuður í utanríkisviðskiptum. Á hinn bóginn fór verðbólga vaxandi í kjölfar gífurlegra hækkana á olíuverði, en stjórnarkreppa og þingrof á haustmánuðum kom algjörlega í veg fyrir gagnráðstafanir. Verðbólga var því orðin meiri undir lok ársins en nokkru sinni fyrr. Hækkun olíuverðs varð þess einnig valdandi, að viðskiptakjör okkar gagnvart erlendum þjóðum snarsnerust til hins verra.

Samkvæmt bráðabirgðatölum er þjóðarframleiðslan í heild talin hafa aukist um 3% á árinu 1979 eða um 2% á mann. Viðskiptakjörin drógust á hinn bóginn saman sem nemur um 4% af þjóðarframleiðslu, mest vegna hækkunar olíuverðs, en einnig rýrði lækkun á gengi Bandaríkjadollars kaupmátt útflutningstekna gagnvart innflutningi. Þessi rýrnun viðskiptakjara veldur því, að þjóðartekjur eru taldar hafa dregist saman um 2% á mann. Eftir þennan afturkipp eru þjóðartekjur á mann orðnar svipaðar og á árinu 1977.

Framleiðslan í einstökum atvinnugreinum var með mjög misjöfnum hætti á síðasta ári. Framleiðsla sjávarafurða jókst afar mikið eða um 14%. Talið er að iðnaðarframleiðslan hafi aukist um 4–5%. En búvöruframleiðslan hefur líklega dregist saman um 5–6% vegna harðinda og óþurrka. Samdráttur er einnig talinn hafa orðið í byggingarstarfsemi. Heildarframleiðslan til útflutnings jókst að líkindum um 13%, en vegna þess hve mikið var gengið á birgðir á árinu 1978 og útflutningur varð mikill á því ári jókst vöruútflutningurinn minna en nam framleiðsluaukningunni eða um 9–10%.

Þjóðarútgjöld eru talin hafa aukist um 1% á árinu 1979, einkaneysla og samneysla um 1 – 2%, en fjármunamyndun hefur sennilega dregist saman um 5%. Vöruinnflutningur hefur að raunvirði orðið svipaður og árið áður. Innflutningsverð hækkaði hins vegar mikið. Að frátalinni olíu hefur það að jafnaði hækkað líkt og útflutningsverð eða um 8% í erlendri mynt, en að olíu meðtalinni nemur verðhækkun alls innflutnings 20% í erlendri mynt. Þar sem verð erlends gjaldeyris í krónum hækkaði um 34% svarar þetta til um 60% innflutningsverðshækkunar í krónum á móti 45% verðhækkun útflutnings.

Bráðabirgðatölur um verðmæti útflutnings og innflutnings allt árið 1979 sýna að útflutningur hefur orðið um 278 milljarðar, en innflutningur röskum 9 milljörðum minni, og því hefur orðið afgangur í vöruskiptunum við útlönd. Er það sannarlega athyglisverð niðurstaða þegar olíuverðshækkunin er höfð í huga. Á hinn bóginn er áætlað að nokkur halli hafi orðið í þjónustuviðskiptum, ekki síst vegna samdráttar í tekjum af samgöngum og flugi, og nemur hann hærri upphæð en afgangur í vöruskiptunum. Reynist áætlanir réttar hefur því orðið lítils háttar halli í viðskiptum við útlönd á árinu 1979, en halinn er það innan við 1/2% af þjóðarframleiðslu. Útkoman má því teljast vel viðunandi, m.a. þar sem útflutningsvörubirgðir um s.l. áramót voru mun meiri en í upphafi ársins. Vegna innstreymis erlends lánsfjár hefur greiðslujöfnuður orðið hagstæður og gjaldeyrisstaða batnað um 17 milljarða kr.

Erlendar skuldir þjóðarbúsins hafa að líkindum aukist um 24 milljarða á seinasta ári, og í árslok kunna erlendar skuldir að hafa numið rúmlega 280 milljörðum eða u.þ.b. þriðjungi af þjóðarframleiðslu ársins, og er það svipað hlutfall og árið áður. Greiðslubyrði af löngum erlendum lánum, þ.e. greiðslur vaxta og afborgana í hlutfalli við útflutningstekjur, er áætluð 14% eða svipuð og undanfarin 4 – 5 ár. Í þessu sambandi tel ég ástæðu til að vekja á því athygli, að því hefur oft verið spáð á seinustu 5 – 6 árum, að þessi hundraðstala, þ.e. greiðslubyrðin af erlendum lánum, færi hækkandi og nálgaðist jafnvel 20%, en þetta hefur ekki reynst rétt af ýmsum ástæðum.

Á mælikvarða framfærsluvísitölu hækkaði verðlag á liðnu ári um 45% að meðaltali, en um rúmlega 60% frá upphafi til loka ársins. Vísitala byggingarkostnaðar hefur hækkað jafnar yfir árið en framfærsluvísitala og er því stundum betri mælikvarði á verðlagsþróunina, m.a. vegna mismunandi áhrifa niðurgreiðslna á framfærsluvísitölu. Byggingarvísitalan hækkaði um 46% að meðaltali á liðnu ári, en frá upphafi til loka ársins var hækkunin um 54%. Undir árslok má ætla að hraði verðbreytinga hafi svarað til 55 – 60% verðbólgu á ári.

Kauptaxtar hækkuðu heldur minna að meðaltali á árinu en verðlag, einkum vegna áhrifa af versnandi viðskiptakjörum, en ráðstöfunartekjur heimilanna eru þó taldar hafa aukist svipað og verðlag að jafnaði á árinu. Meðalkaupmáttur hefur því haldist nokkurn veginn óbreyttur.

Á árinu 1979 vorum við Íslendingar ekki einir á báti með vaxandi verðbólgu. Efnahagsframvindan í flestum ríkjum heims breyttist til hins verra. Áætlanir alþjóðastofnana benda til að þjóðarframleiðsla iðnríkjanna hafi aukist um tæp 3% á árinu 1979 samanborið við 4% aukningu næstu tvö árin á undan. Víða gætir svartsýni um horfur fyrir næstu misseri. Í mörgum ríkjum hefur hvort tveggja gerst, að bæði verðbólga og átvinnuleysi hefur verið í vexti. Hefur þar í senn gætt áhrifa stórfelldrar hækkunar olíuverðs á árinu og minnkandi hagvaxtar í Bandaríkjunum, sem jafnvel er talið að geti snúist í alvarlegan afturkipp. Olíuverðshækkunin er nú þeim mun erfiðari viðfangs víða um lönd að hún bætist ofan á verðbólgu- og atvinnuleysisvanda sem ærinn var fyrir. Þetta ótrygga efnahagsástand í umheiminum veldur óneitanlega mikilli óvissu fyrir íslenska þjóðarbúskapinn næstu misserin.

Þjóðhagsforsendur þessa frv. eru reistar á drögum að þjóðhagsspá Þjóðhagsstofnunar frá því í febrúar s.l. Þar er m.a. gert ráð fyrir að botnfiskafli á þessu ári verði svipaður og á árinu 1979, en loðnuaflinn minni. Þó er reiknað með að útflutningsframleiðsla og útflutningur í heild aukist nokkuð vegna aukningar iðnaðarframleiðslu til útflutnings, einkum áls og járnblendis.

Viðskiptakjör héldu áfram að rýrna á síðasta fjórðungi liðins árs og eru um þessar mundir lakari en reiknað var með á s.l. hausti. Horfur um verðþróun í utanríkisviðskiptum eru afar óvissar, sérstaklega hvað varðar olíuverð. Sé gert ráð fyrir að heldur dragi úr verðhækkun innflutnings (annars en olíu), frá því sem var á síðari hluta árs í fyrra og útflutningsverð í heild hækki heldur minna en í fyrra, yrðu viðskiptakjörin á árinu 1980 að meðaltali 4 –6% lakari en á árinu 1979, miðað við það olíuverð, sem skráð var um miðjan febrúar. Þetta er nokkru meiri viðskiptakjararýrnun en áður var reiknað með, en eins og nú horfir virðast líkur á að rýrnunin gæti jafnvel frekar orðið meiri en þetta.

Versnandi viðskiptakjör hafa m.a. orðið þess valdandi, að kaupmáttur kauptaxta á fyrsta fjórðungi þessa árs er 3 – 4% minni en ársmeðaltalið 1979.

Forsendur um þróun kauplags og verðlags eru reistar á áætlunum fyrir fyrri hluta ársins og hugmyndum um breytingar síðari hluta árs. Niðurstaða þeirra bendir til þess, að kaupmáttur kauptaxta verði á árinu 1980 svipaður og á fyrsta fjórðungi ársins að óbreyttu grunnkaupi. Kaupmáttur ráðstöfunartekna 1980 yrði þá sennilega heldur minni en á árinu l 979 og er þá miðað við að beinir skattar verði svipaðir sem hlutfall af tekjum og á seinasta ári, en lífeyristekjur hækki nokkru meira en kauptaxtar. Samkvæmt þessu mætti búast við að heldur drægi úr einkaneyslu á árinu.

Horfur um fjármunamyndun eru enn ekki ljósar þar sem fjárfestingar- og lánsfjáráætlun liggur ekki fyrir og heildarútlán fjárfestingarlánasjóða eru enn óráðin. Fyrstu drög að fjárfestingarspá á árinu 1980 benda til nokkurrar aukningar heildarfjárfestingar, en að frátöldum ýmsum meiri háttar framkvæmdum, m.a. orkuframkvæmdum og innflutningi skipa og flugvéla, eru hins vegar líkur á að almenn fjármunamyndun dragist nokkuð saman. Samkvæmt þessu má gera ráð fyrir að almenn þjóðarútgjöld dragist saman á árinu, ef til vill um 2%, og er sú forsenda notuð um magnbreytingu helstu stofna óbeinna skatta.

Þær forsendur og áætlanir, sem hér hafa verið raktar, eru enn um margt óráðnar, en á grundvelli þeirra má ætla, að þjóðarframleiðslan í heild verði svipuð eða aukist lítils háttar 1980. Jafnframt yrðu utanríkisviðskiptin nálægt jafnvægi ef þjóðarútgjöld verða innan þeirra marka, sem ég hef nú nefnt, og viðskiptakjör rýrna ekki frá því sem nú er reiknað með. Líklegast er þó talið að þjóðartekjur dragist saman vegna áhrifa viðskiptakjararýrnunar á ráðstöfunarfé þjóðarinnar.

Fjárlög ársins 1979 voru afgreidd með greiðsluafgangi að fjárhæð um 2.5 milljarðar kr. Tekjur umfram gjöld voru áætlaðar 6.6 milljarðar kr., en áformað var að greiða rúmum 4 milljörðum kr. meira en nam nýjum lántökum á árinu. Samkvæmt bráðabirgðayfirliti ríkisbókhalds námu heildarútgjöld ársins 1979 241.6 milljörðum kr. á greiðslugrunni og heildartekjur 238.7 milljörðum kr. Gjöld umfram tekjur urðu því á greiðslugrunni 2.9 milljarðar kr. Miðað við áætlun fjárlaga varð rekstrarafkoma ríkissjóðs um 9.5 milljörðum lakari en að var stefnt. Skuldaaukning ríkissjóðs við aðra en Seðlabankann nam um 3.9 milljörðum kr., sem er 2.3 milljörðum hærri fjárhæð en fjárlög gerðu ráð fyrir.

Viðskipti ríkissjóðs og Seðlabanda Íslands urðu í stórum dráttum þannig á árinu 1979, að heildarskuld ríkissjóðs jókst um 0.4 milljarða kr. og nam um 26.7 milljörðum kr. í lok ársins. Þá hefur ekki verið tekið tillit til uppfærslu lána vegna verðbótaþáttar að fjárhæð 2. milljarðar kr. Á árinu 1979 var gerð formbreyting á skuldum ríkissjóðs í bankanum. Var þá horfið frá gengistryggingu lánanna, en þess í stað fylgja þau framvegis verðlagsþróun innanlands. Ákveðið hefur verið að skuldir ríkissjóðs við Seðlabanka og aðra aðila verði hér eftir færðar upp um hver áramót í samræmi við verðlagsþróun. Á fjárlögum ársins 1979 var gert ráð fyrir greiðslu lána til Seðlabankans að fjárhæð 5.1 milljarði kr. og bættri stöðu á viðskiptareikningi um 2.5 milljarða kr. Stöðubreyting við Seðlabankann hefur því orðið 10 milljörðum króna lakari en að var stefnt. Ef eingöngu er lítið á greiðsluhreyfingar ríkissjóðs við Seðlabankann á árinu varð greiðsluafkoman við bankann hagstæð um 2.2 milljarða króna, og er þá ekki tekið tillit til skuldaaukningar vegna uppfærslu lána við bankann með tilliti til gengismunar og verðbótaþáttar.

Afkoma ríkissjóðs á seinasta ári var ótvírætt talsvert miklu lakari en að var stefnt þegar á heildina er litið, og á það sér ýmsar skýringar. En ljóst er að ákvörðun um aukna tekjuöflun í ríkissjóð í september s.l. var vissulega óhjákvæmileg og dugði þó ekki til.

Svo að aftur sé vikið að því fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, eru það niðurstöður þess, að gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði um 340 milljarðar kr. og gjöld 334.5 milljarðar kr. Tekjur umfram gjöld nema því um 5.5 milljörðum kr. eins og ég hef þegar nefnt. Reiknað er með að úr ríkissjóði verði greiddir 2.7 milljarðar kr. á þessu ári vegna lánahreyfinga, umfram það sem greitt verður inn í ríkissjóð. Að auki er gert ráð fyrir 0.8 milljarða kr. útstreymi á viðskiptareikningi umfram innstreymi. Afborganir af lánum ríkissjóðs samkvæmt 1. gr. frv. nema alls um 12.4 milljörðum kr., en þar af renna 8.1 milljarður kr. til Seðlabankans, bæði til greiðslu af skammtímalánum, sem aflað var á árinu 1979, og lánum til langs tíma. Lánsfjárþörf vegna A- og B-hluta ríkissjóðs nemur alls 29.5 milljörðum kr. Þar af renna um 19.8 milljarðar kr. til B-hluta fyrirtækja og sjóða, en 9.7 milljarðar kr. eru lántaka vegna A-hluta frv. Af heildarlántökum eru um 11.8 milljarðar kr. innlend uppspretta lánsfjár, en um 17.7 milljarðar kr. eru fyrirhugaðar erlendar lántökur. Að sjálfsögðu verður ekkert um það fullyrt með vissu, hve traustur grunnur frv. er varðandi verðlags- og launamál. Framvinda efnahagsmála í heild getur miklu breytt. Reynt hefur verið að áætla útgjöldin eins og kostur er og af fyllsta raunsæi. Hins vegar er ljóst, að ætla verður fyrir greiðsluafgangi á fjárlögum eða nokkurri fjárhæð vegna óvissra útgjalda eigi ekki að vera veruleg hætta á að halli á ríkissjóð í lok hvers árs.

Eftir að frv. hefur verið afgreitt mun ég beita mér fyrir strangri greiðsluáætlun innan fjárlaga ársins og vinna að því að herða innheimtu opinberra gjalda, enda nokkuð ljóst að þar er pottur brotinn. Jafnframt tel ég brýnt að tímabundnum halla ríkissjóðs verði mætt með fjármögnun frá viðskiptabönkum í einu eða öðru formi.

Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð alls 3334.5 milljarðar kr. Samkvæmt bráðabirgðayfirliti námu gjöld 1979 um 241.6 milljörðum kr. Útgjöld hækka því um 92.9 milljarða króna eða 38.5%. Sé samanburður aftur á móti gerður við fjárlög ársins 1979 er hækkunin 132.2 milljarðar kr. eða um 65.3%. Skýringin á þessari háu prósentutölu er einfaldlega sú, að við gerð frv. var stuðst við ákveðnar forsendur um feril launa og verðlags út árið 1980, eins og ég hef áður rakið, en fjárlög fyrir árið 1979 voru miðuð við verðlag í desember 1978.

Ég ætla mér að vera fremur stuttorður um heildargjöld ríkissjóðs, en þó verður ekki hjá því komist að drepa á nokkur veigamestu atriðin.

Í heild nemur launakostnaður rúmum 95 milljörðum kr. sem er rúmlega 77% hækkun frá fjárlögum 1979. Laun einstakra stofnana eru sett fram á desemberverðlagi 1979, en áætluð launahækkun 1980, sem talin er leiða til tæplega 12 milljarða króna viðbótarútgjalda ríkissjóðs, er færð á sérstakan lið fjmrn.

Að áætluðum launahækkunum 1980 frátöldum hækkar launaliður frv. um 55.2% frá fjárlögum 1979 og má skýra þá hækkun þannig: Í fyrsta lagi nemur hækkun launataxta og launatengdra gjalda frá des. 1978 til des. 1979 um 49.5%. Í þessari hækkun er tekið tillit til afnáms vísitöluþaks á launum í árslok 1978, 3% grunnkaupshækkunar 1. apríl s.l. og hækkunar verðbóta á laun. Í öðru lagi hafa frá síðustu fjárlögum bæst við nýjar stofnanir, ný verkefni og fjölgun starfsfólks sem leiðir til aukinna launaútgjalda. Þessi þáttur skýrir um 4% launahækkunarinnar eða sem svarar 2 milljörðum kr. í útgjöldum. Í þessu tilliti vegur þyngst hækkun launaliðar vegagerðarinnar um 700 millj. kr. umfram almennar taxtabreytingar, eftirlaunasjóður aldraðra rúmar 700 millj. kr. nýjar stöður á ríkisspítölum tæpar 400 millj. kr. og ýmis verkefni önnur, svo sem embætti ríkissáttasemjara, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands o.fl. Ýmis önnur atriði í launamálum hafa og leitt til hækkunar þessa útgjaldaþáttar ríkissjóðs. Má þar nefna breytta flokkaskipun heilbrigðisstétta auk Sóknarsamninga snemma árs 1979. Alls skýra áhrif þessara þátta 1.4 –

1.6% heildarlaunahækkunarinnar.

Önnur rekstrargjöld eru áætluð rúmur 21 milljarður kr. og er það tæplega 53% hækkun frá fjárlögum. Stafar þetta fyrst og fremst af verðhækkunum milli ára. Sérstaklega hefur orkukostnaður stofnana og fyrirtækja hækkað mjög mikið.

Útgjöld vegna viðhalds eru áætluð rúmir 8 milljarðar kr. og er það rúmlega 54% hækkun frá fjárlögum 1979. Þá ber að hafa í huga að um 71% alls viðhalds er vegna viðhalds vega, en til viðhalds vega renna alls 5.870 millj. kr., og er það hækkun um 58.6%. Sérstaklega tel ég rétt að nefna að samkvæmt lögum nr. 57 frá 1978, um heilbrigðisþjónustu, skal ríkissjóður greiða 50% viðhaldskostnaðar sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva. Til þessa verkefnis renna 600 millj. kr. Á árinu 1979 var viðhald greitt sem hluti af daggjöldum með um 85% þátttöku ríkissjóðs. Verður nú að taka afstöðu til þess, hvernig best verði staðið að þátttöku ríkissjóðs í viðhaldi sjúkrastofnana, þannig að framkvæmd stangist ekki á við lög og valdi ríkissjóði auknum útgjöldum sem hvergi er áætlað fyrir.

Vaxtakostnaður af atmennum lánum ríkissjóðs er áætlaður rúmir 16 milljarðar kr., og er það rúmlega 9 milljarða kr. hækkun.

Framlög til almannatrygginga nema alls um 86.5 milljörðum kr. og er það hækkun um tæpa 39 milljarða kr. eða rúm 80%.

Þessi mikla hækkun er eins og á öðrum sviðum vegna þess, að hér er reiknað með verðlagsbreytingu frá árslokum 1978 til meðalverðlags 1980. Í aths. frv. er gerð ítarleg grein fyrir útgjöldum vegna lífeyris- og sjúkratrygginga. Ég tel því ástæðulaust að fjölyrða frekar um þennan veigamikla þátt ríkisútgjaldanna. Á þrem atriðum vil ég þó vekja athygli. Í fyrsta lagi er brýnt, að tilhögun og fjármögnun barnsmeðlaga verði tekin til endurskoðunar. Óhæft er að Tryggingastofnun ríkisins bindi alla sína varasjóði í barnsmeðlögum sem ekki innheimtast. Láta mun nærri að skuld Innheimtustofnunar sveitarfélaga við Tryggingastofnun ríkisins vegna þessa hafi numið um 2.6 milljörðum, 2600 millj. kr. s.l. áramót. 1 öðru lagi er ráð fyrir því gert í frv., að þátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði og kostnaði við sérfræðiþjónustu aukist hlutfallslega eins og útgjöld sjúkrasamlaga vegna þessara þátta. Í þriðja lagi þarf að ákveða endanlega þátttöku ríkisins í viðhaldi sjúkrahúsa, eins og ég hef þegar nefnt.

Framlög til ríkisframkvæmda og ýmissa framkvæmdasjóða nema alls rúmum 55 milljörðum kr. og er það hækkun um tæpa 17 milljarða eða 43.5% frá fjárlögum ársins 1979. Framlög til verklegra framkvæmda, þ.e. hreinna ríkisframkvæmda og framkvæmda sem kostaðar eru af fleiri aðilum, hækka um rúma 11 milljarða kr. eða 57.5%.

Frv. er miðað við upphæðir í gildandi vegáætlun. Hins vegar er áformað að endurskoða vegáætlun og verður ákvörðun tekin um heildarframlag til vegamála í tengslum við gerð lánsfjáráætlunar.

Framlög til fjárfestingarlánasjóða hækka um 3.522 millj. kr., eða um rúm 30%, og er þá fylgt þeirri stefnu að framlög til flestra fjárfestingarlánasjóða eru lækkuð hlutfallslega.

Í þessu frv. nema framlög til fjárfestingarlánasjóða alls 15.170 millj. kr. Ljóst er að verðtrygging útlána fjárfestingarsjóðanna hefur styrkt fjárhagslega stöðu þeirra mjög verulega og er því minni ástæða en áður til að byggja ráðstöfunarfé sjóðanna á óafturkræfum framlögum úr ríkissjóði. Með frv. til laga um lántökuheimildir, ríkisábyrgðir o.fl. verða lagðar fram tillögur um lagabreytingar sem miðaðar verða við að ríkisframlög til þeirra takmarkist við þær upphæðir sem nefndar eru í þessu frv.

Hins vegar er ráðgert að athuga fjárþörf sjóðanna í tengslum við gerð lánsfjáráætlunar, svo að tryggt sé að þeir geti gegnt hlutverki sínu. Í þessu sambandi er rétt að benda á, að ekki er áformað á þessu ári að skylda Byggingarsjóð til að kaupa skuldabréf af Framkvæmdasjóði fyrir skyldusparnaðarfé og gengur það óskert til húsnæðismála, en á seinasta ári var gert ráð fyrir að skerða þennan tekjustofn um 2.000 millj. kr. Í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstj. er fyrirhugað að afla 1.000 millj. kr. til verkamannabústaða og leiguíbúða sveitarfélaga umfram það sem ella yrði varið í þessu skyni samkvæmt nánari ákvörðun í tengslum við gerð kjarasamninga. Að öðru leyti verður kannað við gerð lánsfjáráætlunar hver fjárþörf sjóðsins er þannig að tryggt verði að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar. Einnig er rétt að benda á að framlag til Byggingarsjóðs verkamanna er hækkað um 50 millj. kr. frá því sem var í fjárlagafrv. sem lögð voru fyrir 101. og 102. löggjafarþing, þ.e. í okt. og jan. s.l.

Við undirbúning fjárlagafrv. var frestað að taka afstöðu til tillagna iðnrn. um hækkun á framlögum til ýmissa orkuframkvæmda, þar á meðal til Rafmagnsveitna ríkisins vegna innanbæjarkerfa, til Kröfluvirkjunar vegna gufuöflunar og til Orkusjóðs vegna styrkingar dreifikerfis og jarðhitaleitar. Allt eru það liðir er varða fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1980, og verður tekin afstaða til þeirra við gerð hennar.

Framlag til Lánasjóðs íslenskra námsmanna hækkar um 1.221 millj. kr., miðað við fjárlagafrv. sem lagt var fram í október á síðasta ári, en auk þess er lántökuheimild aukin um 500 millj. kr. og nemur þá alls 1700 millj. kr. Er þetta stærsta breytingin í hækkunarátt á framlögum til einstakra sjóða og stofnana frá fyrri frumvörpum. Framlög ríkissjóðs og lánsfjarútvegun til sjóðsins hefur vaxið hröðum skrefum undanfarin ár og hækkað úr 1640 millj. kr. samkv. fjárlögum 1977 í rúmar 7000 millj. kr. skv. þessu frv. Þrátt fyrir þessar miklu hækkanir hafa framlög til Lánasjóðsins verið miðuð við óbreyttar forsendur á síðari árum, þ.e. að lánveitingar svöruðu til 85% af umframfjárþörf námsmanna, og er svo enn. Í stjórnarsáttmála ríkisstj. er þó gert ráð fyrir að lögin um Lánasjóðinn verði tekin til endurskoðunar með hliðsjón af samkomulagi sem gert var við námsmenn á s.l. vori, en það fól í sér að lánahlutfallið yrði hækkað í þremur áföngum úr 85% í 100%, en endurgreiðslum til sjóðsins hraðað frá þeim námsmönnum sem hafa miklar tekjur að loknu námi.

6. gr. frv. er nokkuð breytt frá fyrri frumvörpum fyrir þetta ár. M.a. má nefna, að þar er leitað heimildar til þess að lækka ríkisútgjöld um 2 milljarða kr. á árinu 1980 ef þörf krefur. Auk þess er leitað heimildar til þess að hafna endurráðningu í stöður, sem losna hjá stofnunum og fyrirtækjum, og með þessum hætti reynt að auka aðhald og eftirlit með starfsmannamálum ríkisins.

Ítarlegt yfirlit um tekjur og gjöld ríkissjóðs á árinu 1979 kom fram í ræðu fyrrv. fjmrh. Sighvats Björgvinssonar þegar hann mælti fyrir frv. sínu 7. febr. s.l., og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka þær upplýsingar hér, en sný mér næst að nýrri tekjuáætlun fyrir þetta ár.

Tekjuáætlun þessa frv. er reist á þeim þjóðhagsforsendum sem áður voru raktar. Áætlanir um helstu stofna óbeinna skatta eru miðaðar við að velta dragist saman um 2% að raungildi frá fyrra ári. Gert er ráð fyrir að kauptaxtar hækki að meðaltali um 42% milli áranna 1979 og 1980 og innlent verðlag hækki að meðaltali um 46.5%. Munurinn liggur einkum í versnandi viðskiptakjörum eins og áður hefur verið rakið. Í áætlun um aðflutningsgjöld er gert ráð fyrir 2% samdrætti almenns vöruinnflutnings og að innflutningsverð hækki um 38% í krónum en 8% í erlendri mynt. Í ársbyrjun 1980 lækkuðu tollar samkvæmt tollskrárlögum, auk þess sem tollhlutfall er talið lækka nokkuð vegna samdráttar í innflutningi hátollavöru. Áætlanir um tekjuskatt einstaklinga eru miðaðar við að tekju- og eignarskattur skili sömu álagningu og verið hefði með gömlu skattalögunum, að því gefnu að skattvísitala hefði hækkað eins og skattskyldar tekjur til jafnaðar. Í tekjuáætlun er gert ráð fyrir að skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði og sjúkratryggingagjald verði framlengd óbreytt út árið 1980, en þessir skattar gengu úr gildi um s.l. áramót. Þá hefur verið tekið tillit til áorðinna gjaldskrárbreytinga og jafnframt reiknað með að þeir skattar, sem fylgja verðlagi, hækki í samræmi við verðlagsforsendur frv. Að öðru leyti er miðað við óbreytt lög og reglur um mikilvægustu skatta og gjöld frá því sem er í ársbyrjun 1980.

Innheimtar tekjur ríkissjóðs á árinu 1980 eru áætlaðar samtals 340 milljarðar kr., samanborið við 238.7 milljarða 1979 og 209 milljarða í fjárlögum ársins 1979. Samkvæmt þessu aukast heildartekjur ríkissjóðs um rúman 101 milljarð eða um 42% frá fyrra ári. Frá fjárlögum 1979 nemur aukningin hins vegar 131 milljarði eða 63%, en þessi samanburður er auðvitað ekki marktækur, eins og margoft hefur verið vikið hér að.

Niðurstöðutölur tekjuáætlunar í fjárlagafrv., sem lagt var fram í október, voru 330.3 milljarðar kr. Tekjuáætlun þessa frv. sýnir því 9.6 milljörðum meiri tekjur en frv. Tómasar Árnasonar, en þar af nemur aukning almennra tekna ríkissjóðs þó ekki nema 7.5 milljörðum kr. Þessi tekjuáætlun er svo jafnframt byggð á bráðabirgðauppgjöri tekna ársins 1979, en þær reyndust í heild nokkru hærri en þær áætlanir sem frv. Tómasar Árnasonar var reist á. Á hinn bóginn hækkar tekjuáætlunin minna en þessar breytingar gefa tilefni til, og stafar það annars vegar af því, að nú er reiknað með samdrætti í veltu á árinu 1980, en frv. Tómasar Árnasonar gerði ráð fyrir að velta breyttist ekki að raungildi milli áranna 1979 og 1980. Jafnframt hafa áætlanir um tolltekjur verið lækkaðar, þar sem nú þykir sýnt að tollhlutfall verði mun lægra en áður var reiknað með.

Ég mun hér á eftir geta helstu tekjustofna sem þegar hafa ekki verið nefndir, en vísa að öðru leyti til greinargerðar um tekjuáætlun með frv.

Áætlanir um innheimtu eignarskatta á árinu 1980 eru í þessu frv. óbreyttar frá fjárlagafrv. því sem lagt var fram á 101. löggjafarþingi, en ákvarðanir um skattfrjálsa eign hafa enn ekki verið teknar.

Um tekjuskatt félaga gildir hið sama og um tekjuskatt einstaklinga, að áætlunartölur eru miðaðar við eldri skattalög. Veruleg óvissa ríkir um þennan lið tekjuáætlunarinnar, m.a. um áhrif þeirra breytinga sem Alþingi hefur nýlega samþykkt á tekjuskattsákvæðum. Áhersla skal á það lögð, að áætlanir frv. um tekju- og eignarskatta eru ekki reistar á grunni nýju skattalaganna. Hér er um að ræða viðmiðunartölur gerðar á grundvelli eldri laga og í þeim felst því ekki mat á álagningarreglum hinna nýju laga.

Ljóst er að verði tekjur af atvinnurekstri verulega miklu minni en áætlun fjárlaga gerir ráð fyrir getur orðið óhjákvæmilegt að leggja á viðbótarskatt, og tel ég persónulega að þá komi einkum til greina hækkun eignarskatts eða veltuskattur á aðstöðugjaldsstofn. En þetta er óafgreitt með öllu enda neyðarúrræði sem við verðum að vonast til að ekki þurfi að grípa til.

Í áætlun fyrir árið 1980 verður enn að gera ráð fyrir lækkun tollhlutfalls, eins og var á seinasta ári, bæði vegna tollalækkunar í ársbyrjun og þar sem reikna verður með samdrætti í innflutningi hátollavöru. Er reiknað með að tollhlutfallið lækki úr 9.5% í 7.5%. Veldur það rösklega 5 milljarða tekjutapi, eins og áður hefur verið nefnt. Áætlanir um tolla af bílum eru miðaðar við innflutning 7 000 bíla á árinu 1980, og er þá höfð hliðsjón af miklum innflutningi síðustu ára og forsendum um samdrátt innflutningsmagns, einkum á hátollavörum. Tollur af bensíni jókst mjög á s.l. ári vegna innflutningsverðhækkunar og er talinn hafa orðið um 5.8 milljarðar kr. Í áætlun fyrir árið 1980 er reiknað með svipuðum bensíninnflutningi og á s.l. ári og að bensínverð í innflutningi verði svipað og á seinasta fjórðungi ársins 1979. Þessi verðforsenda er að sjálfsögðu afar óviss, en samkvæmt þessu er bensíntollur áætlaður 8.4 milljarðar kr. á árinu 1980.

Samkvæmt þessum forsendum eru tolltekjur ríkissjóðs áætlaðar rúmir 39 milljarðar kr. á árinu 1980 og er það aðeins 19% aukning frá árinu 1979. Bensínsala á árinu 1979 varð töluvert minni en reiknað var með á fjárlögum. Í áætlun fyrir árið 1980 er reiknað með að bensíngjald verði innheimt af rúmum 120 milljörðum lítra, en í því felst tæplega 1% aukning milli áranna 1979 og 1980, en um 1% minnkun milli áranna 1979 og 1980. Reiknað er með að bensíngjaldið hækki í samræmi við verðlagsforsendur frv., og á þessum forsendum eru tekjur af bensíngjaldi áætlaðar 11 milljarðar kr. á árinu 1980.

Samkvæmt tekjuáætluninni verður innheimtur söluskattur um 331/2% af heildartekjum ríkissjóðs 1980, en hann varð um 31% á árinu 1979. Þessi hækkun skýrist af hækkun söluskattsins í september, en hún er talin skila ríkissjóði röskum 10 milljörðum af þeim 114 sem skatturinn er talinn gefa. Tekjur Jöfnunarsjóðs af söluskatti eru áætlaðar tæpir 9 milljarðar kr., en þar af stafa 900 millj. kr. af söluskattshækkuninni. Rekstrarhagnaður ÁTVR er áætlaður 24 milljarðar kr. á árinu 1980, en rétt er að vekja á því athygli hér, að nú er reiknað með að hagnaður fyrirtækisins hafi numið 17.2 milljörðum kr. á árinu 1979, en ekki 18.2 milljörðum eins og áður hafði komið fram, m.a. í því fjárlagafrv. sem hér er til umræðu. Rekstrarhagnaður af áfengis- og tóbakssölu virðist því frekar ofáætlaður en vanáætlaður.

Á miðju s.l. ári sagði Bandalag starfsmarina ríkis og bæja upp aðalkjarasamningi sínum við fjmrh. frá og með 1. júlí 1979 og Bandalag háskólamanna sagði upp sínum samningum frá og með 1. nóv. 1979.

18. febr. s.l. kvað Kjaradómur upp dóm um aðalkjarasamning BHM og fjmrh. til næstu tveggja ára. Skv. dómi Kjaradóms skulu grunnlaun háskólamanna vera óbreytt á samningstímanum og verðbætur á laun greiðast skv. ákvæðum laga um efnahagsmál, nr. 13/1979. Sérkjarasamningar aðildarfélaga BHM eru nú til meðferðar fyrir Kjaradómi og skulu dómar um þá kveðnir upp eigi síðar en 18. apríl n.k.

Kjaradeilu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og fjmrn. var á liðnu sumri vísað til ríkissáttasemjara og standa sáttaumleitanir yfir.

13. mars s.l. sendi ég stjórn og samninganefnd BSRB bréf þar sem lýst er viðhorfum ríkisstj. til samningamálanna.

Í bréfinu kemur fram, að ríkisstj. telur að yfirlýst áform um að draga úr verðbólgu með ströngum verðlagshömlum séu algerlega háð því, að ekki verði almennar grunnkaupshækkanir í þjóðfélaginu á þessu ári. Með þær forsendur í huga og til þess að greiða fyrir samningum lýsti ríkisstj. yfir að hún væri reiðubúin að ræða ýmis almenn réttindamál félagsmanna BSRB sem samninganefnd bandalagsins hefur lagt áherslu á.

Hér er um að ræða samningsréttarmál, rýmkaða aðild að lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna, atvinnuleysistryggingar, aukin framlög til fræðslumála BSRB og stofnun starfsmannaráða í ríkisstofnunum. Þá er boðið upp á samráð við BSRB, eins og við önnur stór launþegasamtök, um ráðstöfun þess fjár sem ætlað er að verja til félagslegra framkvæmda á þessu ári, sbr. stjórnarsáttmálann, m.a. til að greiða fyrir kjarasamningum.

Stjórn og samninganefnd BSRB hefur nú svarað tilmælum ríkisstj. Samtökin taka, verður að teljast, heldur jákvætt í erindi ríkisstj., þótt ekki felist í því, að BSRB falli frá fyrri kröfum sínum.

Samninganefnd BSRB hefur nú skipað 5 manna nefnd til að hafa forustu af sinni hálfu í viðræðum um aukin félagsleg réttindi í þágu bandalagsins og félagsmanna þess. Afstaða stjórnar og samninganefndar BSRB er góðs viti og eykur vonir manna um að unnt verði að leiða samningamál launamanna til lykta um sinn án þess að sprengja þann verðlagsramma sem ríkisstj. hefur sett í því skyni að draga úr verðbólgu á þessu ári.

Herra forseti. Ef til vill væri ástæða til að fara hér fleiri orðum um ríkisfjármálin. En það verður að bíða betri tíma.

Undirbúningur frv. um staðgreiðslukerfi skatta fer senn að hefjast. Áður en unnt verður að fastsetja gildistöku samtímaskatts er óhjákvæmilegt að Alþingi taki stefnumarkandi ákvörðun um tilhögun skattsins með setningu laga um staðgreiðslu og breytingu á þeim lögum sem tengjast framkvæmd málsins. Þegar Alþingi hefur þannig markað stefnuna er unnt að byrja undirbúning málsins á ákveðnum grundvelli. Þá fyrst þegar undirbúningur er kominn í fullan gang verður tímabært að ákveða endanlega hvenær nýtt innheimtukerfi getur tekið gildi.

Þótt margt sé óljóst um staðgreiðslu skatta er þó ljóst að almennur áhugi og útbreiddur skilningur er á því, að tekjuskattur verði innheimtur um leið og teknanna er aflað. Hins vegar er að minni hyggju miklu meiri óvissa um kosti og galla virðisaukaskatts. Áður en sá skattur tekur við af söluskatti þurfa menn að svara ýmsum pólitískum spurningum, m.a. þeirri, hvort menn telja æskilegt og framkvæmanlegt að afnema hinar mörgu undanþágur sem gilda um innheimtu söluskatts, t.d. leggja slíkan skaft á matvæli að nýju. Ljóst er að þessi nýja tegund skattlagningar hefði í för með sér nokkra hækkun vöruverðs og auk þess verulega skriffinnsku, enda yrðu innheimtuaðilar skattsins a.m.k. tvöfalt fleiri en nú eiga að innheimta söluskatt. En hinu er ekki að neita, að virðisaukaskatturinn hefur einnig ýmsa augljósa kosti fram yfir söluskattinn.

Ég tel að nú sé brýnt, eins og á stendur, að leita allra leiða til að herða innheimtu söluskatts og tryggja sem allra best að skatturinn komist til skila. Það er viðfangsefni sem ekki þolir bið; en árangur á því sviði mundi einnig koma að gagni þótt söluskatturinn breyttist síðar í skatt með virðisaukasniði. Ég mun því innan skamms skipa nefnd til að gera tillögur um herta innheimtu söluskatts.

Herra forseti. Ég leyfi mér svo að lokum að leggja til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. fjvn. Vissulega er það aðeins formsatriði, þar sem nefndin hefur nú unnið í tvær vikur að afgreiðslu mála á grundvelli þessa frv.

Ég vil hins vegar nota þetta tækifæri til að þakka fjvn. fyrir það, að vinna við frv. er nú í fullum gangi þó að það sé fyrst nú að koma formlega til nefndarinnar. Og ég hvet nefndarmenn úr öllum flokkum til að taka nú höndum saman og hrista af okkur alþingismönnum þá skömm, sem á okkur hvílir, með því að afgreiða frv. örugglega fyrir páska.