19.12.1979
Neðri deild: 6. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

44. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér inn í heimiliserjur vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar. Hv. 2. þm. Reykv. gerði grein fyrir því, hvernig vinnubrögð þeirra voru í sambandi við skattamálin.

Ég get tekið undir það sem hv. 3. þm. Austurl. sagði varðandi frv. sem hér er fram komið sem framhald af lögum nr. 40/1978. Öllum var ljóst að það yrði að gera athugun á þeim lögum og koma fram lagfæringum og leiðréttingum, auk þess sem það frv., sem þá var flutt um staðgreiðslu, hefur enn ekki orðið að lögum og því skortir innheimtukafla í löggjöfina varðandi tekju- og eignarskatt.

Á okkur sjálfstæðismönnum mun ekki standa að liðka fyrir framgangi þessa máls, og við munum að sjálfsögðu athuga það með öðrum nm. Ég vildi láta koma hér skýrt fram, að ekki mun standa á okkur að hægt verði að koma við þeirri afgreiðslu á þessu máli sem þarf til þess að skattalög verði þannig úr garði gerð sem ætlast er til.