18.03.1980
Neðri deild: 45. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

120. mál, tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er flutt, miðar að því að taka af öll tvímæli um nám og réttarstöðu tannsmiða, en mikil óvissa hefur ríkt um margra ára skeið varðandi þessi mál þeirra.

Forsaga þessa máls er að á árinu 1971 eru sett lög um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir og skyldi framkvæmd laganna, m.a. löggilding starfsheita og menntunarkröfur, vera í höndum heilbrmrh. Í grg. með frv. því, sem lagt var fyrir 91. löggjafarþing um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir, kemur fram að ráð er fyrir gert að tannsmiðir falli undir samheitið heilbrigðistæknir. Var þetta gert þvert ofan í vilja tannsmiða og án þess að leita álits þeirra sjálfra á þessari tilhögun, en tannsmiðir vildu fá nám sitt viðurkennt sem iðnnám og að með nám þeirra og starfsréttindi yrði farið samkv. iðnfræðslulögum. Allar götur síðan 1971, þegar lög um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir voru samþ. hér á Alþ., hafa tannsmiðir og Tannsmiðafélag Íslands mótmælt því, að tannsmiðir væru taldir til tæknimenntaðra heilbrigðisstétta samkv. ákvæðum þeirra laga og á þá litið sem aðstoðarfólk tannlækna og með námsskipulag þeirra farið samkv. ákvörðun og tillögun tannlækna. Hafa tannsmiðir bent á í því sambandi, að samkv. skilgreiningu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar teljast tannsmiðir ekki til heilbrigðisstétta, heldur til þeirra iðnaðarmanna sem fást við fínsmíðar. Sama gildir í flestum nágrannalöndunum, þar sem tannsmíði er viðurkennd sem iðngrein.

Eftir mikla baráttu tannsmiða sjálfra setur menntmrh. reglugerð nr. 323/1972, þar sem tannsmiði er gerð að löggiltri iðngrein með stoð í iðnfræðslulögum, nr. 48/1966. Tannlæknar brugðust hart við þessu og reyndu árangurslaust að fá menntmrh. til þess að breyta ákvörðun sinni. Rök þeirra voru þau, að menntun og þar af leiðandi starfsréttindi tannsmiða væru best komin undir stjórn tannlækna, og vitnuðu þeir til þess, að þannig væri þetta á Norðurlöndum. Málflutningur þeirra varðandi námstilhögun og réttarstöðu tannsmiða á Norðurlöndum hefur ekki við rök að styðjast, og er í því sambandi, sé þess óskað, hægt að leggja fram gögn því máli til stuðnings. En bæði tannsmiðir og menntmrn. hafa látið athuga það mál vandlega.

Sætir raunar furðu, hvað tannlæknar hafa lagt mikið kapp á að fá að ráðskast með málefni tannsmiða. Vekur það raunar upp margar spurningar sem vert væri að hugleiða, t.d. hvaða ávinning þeir hafa af því að stjórna málefnum tannsmiða þvert ofan í óskir tannsmiða sjálfra og aðra tilhögun á málefnum tannsmiða í nágrannalöndunum. Telja tannlæknar að tannsmiðir geti eingöngu unnið samkv. fyrirmælum þeirra, og hafa þeir til þessa dags verið einráðir um menntunarmál tannsmiða. Sjálfir telja tannsmiðir að nám þeirra hafi síst verið til fyrirmyndar undir handleiðslu tannlæknanna og með því fyrirkomulagi, sem á námi þeirra hefur verið, og mikið vanti á ákjósanlega námstilhögun og allt skipulag í námi þeirra.

Á þeim tíma á árinu 1972, þegar menntmrh. setur reglugerð með stoð í iðnfræðslulögum um að tannsmíði sé viðurkennd iðngrein, eru tannsmiðir samkv. lögum um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir taldir til heilbrigðistækna.

Á árinu 1973 er lagt fram á Alþ. frv. til l. um tannlækningar. Í grg. með því frv. kemur glöggt fram, að enn frekar á að tryggja og árétta að tannsmiðir eigi allt sitt að sækja til tannlækna um menntun og starfsréttindi. Frv. þetta náði ekki fram að ganga, m.a. fyrir eindregin mótmæli Tannsmiðafélags Íslands. Og enn magnast óvissuástandið í málefnum tannsmiða þegar heilbrmrh. setur reglugerð um tannsmiði, nr. 92/1974, með stoð í lögum um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir. Kemur þar fram að hann ætlar sér að veita tannsmiðum starfsréttindi. Þar kemur einnig fram að óheimilt er að ráða til tannsmíðastarfa aðra en þá sem heilbrmrh. veitir starfsréttindi. Liggur beint við að ætla að sú reglugerð sé sett til þess að tryggja að með málefni tannsmiða sé farið samkv. lögum um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir og þeir því örugglega enn frekar undir hælnum á tannlæknum, en ekki farið með málefni þeirra samkv. iðnfræðslu- og iðnaðarlögum, sem þó var ætlun menntmrh. með útgáfu reglugerðar 1972 með stoð í iðnfræðslulögunum frá 1966 og í samræmi við óskir tannsmiða sjálfra. Og enn heldur togstreitan áfram um málefni tannsmiða milli menntmrn. og heilbrmrn. þegar menntmrh. ítrekar enn árið 1974 með reglugerð um iðnfræðslu, nr. 268/1974, að tannsmíði teljist löggilt iðngrein.

Á 99. löggjafarþingi var svo lagt fram frv. til l. um tannsmiði. Samtök tannsmiða voru efni þessa frv. mótfallin og töldu að síður en svo væri gengið þannig frá réttarstöðu tannsmiða að þeir teldu hana fullnægjandi með samþykkt þeirra laga. Náði það frv. ekki fram að ganga.

Athyglisvert er það sem fram kemur í grg. með því frv., en þar segir að það sé álit menntmrn. að meðan tannsmiðir sinni tannsmíði einvörðungu sé eðlilegt að líta á tannsmíði sem iðngrein, en fari svo að tannsmiður fái heimild til að móta tennur í munn viðskiptavina, þá falli greinin undir ákvæði um heilbrigðisstéttir. Ætti þetta álit menntmrn. að koma heim og saman við vilja tannlækna, en í tannlæknalögum, sem í gildi eru frá 1947, er öllum nema þeim, sem tannlæknaleyfi hafa, óheimilt að móta tennur eða máta í munn sjúklings, með fáeinum undantekningum sem þá voru veittar vegna skorts á tannlæknum. Kemur þetta álit menntmrn., sem ég gat um áðan, einnig heim og saman við álit Tannsmiðafélags Íslands og Sambands tannsmíðaverkstæðiseigenda, sem hafa ekki kröfur uppi um að ganga inn á verksvið tannlækna, eins og tannsmiðir þó gera víða erlendis. Mætti þó ætla, — þó það sé ekki tilgangurinn með þessari lagabreytingu að ganga inn á verksvið tannlækna, — að kostnaður við gervitennur yrði mun minni ef námi tannsmiða væri hagað á þann hátt, að þeir mættu vinna við mótun og máttöku, þar sem tannsmiðir fá aðeins greitt um 1/3 af því sem gervitennur kosta. Liggur þó í augum uppi að smíðarnar sjálfar hljóta að vera langstærsti þátturinn í heildarkostnaðinum. Og það, að tannlæknar taki 2/3 kostnaðarins fyrir að taka mál og koma tönnum, sem smíðaðar eru af tannsmiðum, í munn sjúklingsins, er auðvitað umhugsunarvert einnig.

Ég vil þó enn ítreka að það er á engan hátt ætlunin með þessu frv. að breyta því fyrirkomulagi sem gilt hefur hvað þetta varðar, enda ekki kröfur uppi um það, eins og ég áður sagði, hjá Tannsmiðafélaginu eða tannsmíðaverkstæðiseigendum, þó vel megi vera að það sé framtíðarmarkmið sem gæti skilað ódýrari þjónustu á þessu sviði.

Ljóst er af því sem ég hef hér rakið að staðan í málefnum tannsmiða virðist vera þannig í dag, að mikil óvissa ríkir um hvort túlka beri að tannsmiður falli undir lög um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir, nr. 64/1971, eða tannsmíði sé löggilt iðngrein, sbr. reglugerð um iðnfræðslu, nr. 268/1974, og iðnfræðslulög, nr. 48/1966.

Hérlendis hafa aldrei verið í gildi sérlög um tannsmíði. Menntun tannsmiða hefur lengst af verið með þeim hætti, að tannlæknar taka nema í nám. Hefur námstíminn verið þrjú ár, en skólavistin ekki lengri en u.þ.b. einn mánuður á ári og námið farið fram í kvöldskóla. Styðjast þessir kennsluhættir ekki við lagaákvæði, og þó tannlæknar hafi um árabil tekið nema í tannsmíði hafa þeir ekki með því áunnið sér rétt til að taka tannsmíðanema í nám, enda felst ekki í tannlækningaleyfinu sem slíku réttur til þess að kenna tannsmíðanemum. Verður því að telja að hér sé á engan hátt verið að ganga á rétt tannlækna, heldur er með frv. þessu einungis verið að færa nám og réttarstöðu tannsmiða í það horf, að þeir öðlist menntun sína í samræmi við lög um iðnfræðslu og öðlist starfsréttindi og reki starfsemi sína samkv. iðnfræðslulögum. Verði ekki höggvið á hnútinn í þessum efnum er hætt við að til verði tvenns konar tannsmíðanám í landinu: annars vegar tannsmiðir sem hljóta menntun sína í verknámsskólum samkv. skipulagðri námsskrá um tannsmíði, og hins vegar þeir, sem sækja ófullkomið nám til tannlækna, sem að áliti flestra tannsmiða rís alls ekki undir þeim kröfum sem verður að gera til tannsmíðanáms.

Þegar tannsmíði var gerð að löggiltri iðngrein 1972 má ætla að ætlunin hafi verið að koma fastri skipan á nám tannsmiða og tryggja þeim sem besta menntun, en það hafi dregist úr hófi fram að koma fastri skipan á námið vegna þeirra deilna sem uppi hafa verið um námstilhögun tannsmiða. Á vegum iðnfræðsluráðs og í samvinnu við fræðslunefnd tannsmiða er um þessar mundir unnið að námsskrá fyrir tannsmiði, en eins og áður hefur verið sagt hefur allan þann tíma, sem tannlæknar hafa séð um menntun tannsmiða, heldur lítið farið fyrir að föst skipan væri á námi tannsmiða.

Nauðsyn er því á að samræma hið fyrsta nám tannsmiða í iðnfræðslulögum. Væri námi þeirra vel fyrir komið í verknámsskóla, og mætti hugsa sér að hluti af námi þeirra gæti farið fram í tengslum við tannlæknadeild Háskóla Íslands. Væri ekkert því til fyrirstöðu heldur, að verklegi þátturinn færi fram á tannsmíðaverkstæðum. Aðalatriðið er að koma fastri skipan á nám tannsmiða og létta af því óvissuástandi, sem lengst af hefur verið ríkjandi í því efni, og ekki síst að tannlæknum verði ekki látið líðast að ráðskast á eigin spýtur með nám og starfsréttindi tannsmiða. Með samþykkt þessa frv. yrði þessu hagsmunamáli tannsmiða komið í höfn, og ætti samþykkt þess einnig að tryggja vilja löggjafans til að viðurkenna tannsmíði sem löggilta iðngrein og staðfestingu á reglugerð um iðnfræðslu, nr. 268/1974, en að ekki séu í gildi tvær reglugerðir sem endurspegli þá óvissu sem ríkir um réttarstöðu tannsmiða og nám þeirra almennt. Hafi menntmrn. og heilbrmrn. ekki getað útkljáð þessi mál sín í milli, ber löggjafanum að grípa inn í, þannig að réttarstaða og nám tannsmiða sé tryggt með svipuðum hætti og gerist hjá nágrannaþjóðunum.

Herra forseti. Það er von mín, að frv. þetta fái greiða meðferð hér á hv. Alþ. og það verði samþ. nú á þessu þingi. Að lokinni þessari umr. óska ég eftir að málinu verði vísað til 2 umr. og hv. heilbr.- og trn.