18.03.1980
Sameinað þing: 34. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

92. mál, málefni farandverkafólks

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hér er hreyft mjög þörfu máli, en að vísu aðeins hluta þess. Hv. þm. hafa væntanlega fylgst með því í fréttum undanfarnar vikur og mánuði, að í ljós hefur komið að víða á landinu er svo illa búið að því verkafólki, sem vinnur við undirstöðuatvinnuveg þessa lands, að á engan hátt verður talið mannsæmandi. Við teljum okkur menningarþjóðfélag, við teljum okkur velferðarþjóðfélag, en samt sem áður viðgengst það í okkar þjóðfélagi, að víða í verstöðvum landsins er svo búið að aðkomuverkafólki að ekki verður jafnað til 20. aldar siða og væri nær að kenna við aðbúnað þrælahalds fyrr á tímum. Þessi aðbúnaður er með slíkum hætti, að þessu fólki er gjörsamlega fyrirmunað að lifa mannsæmandi lífi hvað snertir hvíldaraðstöðu, hvað snertir tómstundir, en kannske umfram allt hvað snertir hreinlætisaðstöðu og heilbrigðishætti.

Ég er ekki viss um að öllum þm. sé kunnugt nm það, hve illa er búið að farandverkafólki víða í þessu landi. Þó eru til staðir þar sem það er með sómasamlegum hætti. En þessi slæmi aðbúnaður er enn verri fyrir þá sök, að það er ljóst að veigamikil fyrirtæki í útflutningsatvinnuvegum okkar, fyrirtæki sem við stundum nefnum með stolti undirstöðufyrirtæki okkar þjóðarbús, eru að laða hingað til lands ungt fólk, karla og konur, þó kannske fyrst og fremst ungar konur, úr fjarlægum heimsálfum á fölskum forsendum, á forsendum sem á engan hátt samrýmast þeim samningum sem hér eru í gildi við íslenskt verkafólk, á forsendum sem á engan hátt samrýmast þeim kjara- og aðbúnaðarmálum sem við teljum frumskilyrði fyrir Íslendinga. Og það er ekki okkur sæmandi sem menningarþjóð að fá til okkar ungt launafólk erlendis frá á fölskum forsendum og bjóða því aðbúnað með þeim hætti sem raun ber víða hér í verstöðvum landsins. Hitt er svo enn verra, að það hefur gerst hér upp á síðkastið að atvinnurekendur á einstökum stöðum hafa reynt að beita lögregluvaldi til þess að reyna að knýja þetta unga fólk til aga og til undanlátssemi frá sjálfsögðum kröfum þess. Ég held þess vegna að það sé mjög brýnt viðfangsefni, bæði fyrir þá sem annast hagsmuni launafólks í landinu almennt, en ekki síður fyrir okkur hér á Alþ., að taka þessi mál til gaumgæfilegrar meðferðar.

Í þeirri tillögu, sem hér er flutt, er hreyft aðeins hluta þessa máls, þ.e. endurskoðun á lögum um rétt erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi. Vissulega er það rétt, að þau lög þarf að endurskoða, vegna þess að í þeim eru ákvæði sem binda verkafólkið með gjörsamlega óeðlilegum hætti við þann atvinnurekanda sem stuðlar að því að fá það hingað til landsins, og það sem meira er: ákvæði sem hefur verið beitt á þann hátt að þetta fólk er jafnvel fjötrað við atvinnurekandann þótt hann framfylgi ekki samningsbundnum skyldum sínum við það.

Stærri hluti þessa máls er hins vegar sá aðbúnaður sem boðinn er farandverkafólki, íslensku sem erlendu, í verstöðvum í landinu, — farandverkafólki sem er slíkur lykilþáttur í sjávarútvegi landsmanna að mér er til efs að ýmsar veigamestu verstöðvar þessa lands, þar sem stærstur hluti útflutningsfiskafurða er unninn, gætu þrifist ef þetta farandverkafólk kæmi ekki svo fjölmennt til þessara staða. Það hefur hingað til sætt sig við þann hróplega aðbúnað sem því er þar boðinn, oftast nær vegna þess að það er vankunnandi um það, hvernig aðbúnaðurinn er, og á síðan ekki annarra kosta völ, þegar það birtist á staðnum, en að vera þar áfram. Þess vegna þarf í raun og veru að gera hér stórátak til að byggja upp gistiaðstöðu, dvalaraðstöðu í verstöðvum landsins, sem er mannsæmandi, og ég tek jafnvel svo stórt til orða að segja: aðstöðu sem er ekki lífshættuleg — vegna þess að fregnir hafa borist af því síðustu daga, að víða er aðbúnaðurinn með þeim hætti að hann er beinlínis lífshættulegur.

Mér er kunnugt um það, að á vegum bæði samtaka launafólks og eins á vegum félmrn. er unnið að því þessa dagana að finna leiðir til þess að endurskoða skipan þessara mála. Sú endurskoðun þarf að gerast annaðhvort með lagaákvæðum hér á Alþ. eða með því að endurskoða reglugerðir, t.d. um lög um veitingaþjónustu og gististaðahald. Í reglugerð,sem er um þau lög, frá 1964, eru ákvæði um verbúðir og aðstöðu íbúa þeirra. Þessa reglugerð þarf að mínum dómi að endurskoða hið fyrsta og gera hana miklu ítarlegri og nákvæmari en nú er. Í reglugerðinni þurfa að vera ákvæði um stærð íveruherbergja, fjölda einstaklinga í herbergjum, ákvæði um hreinlætisaðstöðu, ákvæði um tómstundaaðstöðu, ákvæði um matstofur og ákvæði um fæðiskostnað. Ég veit ekki hvort hv. þm. er kunnugt um það, að víða í verstöðvum hefur kjaramálum farandverkafólks verið háttað þannig, að það hefur varla unnið fyrir fæðiskostnaðinum sem atvinnurekandinn hefur tekið í sinn hlut, og er þó ljóst að verðlagning matvælanna er með þeim hætti, að atvinnurekandinn hlýtur að stórgræða á rekstri matsölunnar.

Hvar sem á þetta mál er litið, þá tel ég að hér sé á ferðinni einhver svartasti blettur í skipan vinnumála í landinu. Farandverkafólk hefur ekki fyrr en á allra síðustu mánuðum haft samtök sín á milli, þegar nokkrir ungir menn tóku sig saman og héldu fundi þar sem þeir kynntu málstað farandverkafólks. Það hefur tvisvar gerst hér í umræðum, að hv. þm. Pétur Sigurðsson hefur talið sérstaka ástæðu til þess að vekja athygli á því og gera gys að því, að ég sat slíkan umræðufund farandverkafólks til að kynna mér málstað þess. Og þessi frægi maður, sem þekktari er meðal þjóðarinnar undir viðurnefninu sjómaður, hv. þm. Pétur Sigurðsson, hefur talið það sérstakt gamanmál og ástæðu til þess að reyna að fleyta frekar þunna brandara hér í þingsölum á því, að ég skyldi sækja þennan fund. En það er sérstaklega athyglisvert, að þegar málefni farandverkafólks koma til umræðu hér í þinginu sér hv. þm. Pétur Sigurðsson enga ástæðu til þess að vera viðstaddur. Þá er þessi fyrrverandi miðstjórnarmaður Sjálfstfl. í Alþýðusambandi Íslands, þá er þessi maður, sem fremstur allra Íslendinga hefur reynt að nota sér sjómannsheitið í pólitísku framapoti — (Gripið fram í: Þingmaðurinn er nú ekki viðstaddur.) Nei, hann er nefnilega ekki viðstaddur. Það er ekki siðleysi að ávarpa þennan mann með þessum hætti, vegna þess að það er nauðsynlegt að vekja athygli þjóðarinnar og þingsins á því, að sá þm., sem hefur tvisvar áður í þingsölum, við allt önnur tækifæri, talið sérstaka ástæðu til þess að abbast út í það að þingmenn væru að kynna sér málstað farandverkafólks, hann sér ekki ástæðu til þess að vera viðstaddur umræður um það mál hér. Og þessi eini fulltrúi, sjálfskipaður fulltrúi launafólks í þingflokki Sjálfstfl., telur málefni farandverkafólks ekki svo mikils virði að það sé vert að sinna umræðum um það mál hér í þinginu. Og þó að hv. þm. sé fjarverandi, þá verður ekki fram hjá því gengið í þessari umræðu að vekja athygli á fjarveru hans. Það er hins vegar algjört aukaatriði í þessu máli, því það er náttúrlega ljóst, að eftir framgöngu hv. sjálfstæðismanna í umræðum um félagsmálalöggjöf þá sem hæstv. vinstri stjórn síðasta beitti sér fyrir á fjölmörgum sviðum, þar sem þeir gengu erinda Vinnuveitendasambandsins í fjölmörgum málum, þá var kannske ekki við því að búast, að þm. Sjálfstfl. mundu gerast hér sérstakir þátttakendur í umræðum um þetta mál, nema ef vera skyldi til þess að flytja boðskap frá Vinnuveitendasambandinu. En við skulum sjá til hvað gerist í umræðunni síðar.

Hér er á ferðinni mál þar sem þingið, verkalýðssamtökin og reyndar þjóðin öll verður að gera kröfu til þeirra atvinnurekenda sem þessar verbúðir eiga, að á þeim verði gerð gagnger breyting þegar í stað. Það erlenda verkafólk, sem hingað kemur til að bjarga verðmætum sjávarins fyrir okkur Íslendinga, — vegna þess að við hefðum ekki vinnuafl til þess að sinna þessum afla í fjölmörgum verstöðvum ef ekki kæmu til þau hundruð ungra kvenna sérstaklega sem hingað hafa komið til landsins á undanförnum árum, — það fólk má ekki bera Íslandi þá sögu, þegar það fer héðan, að á ferðalagi sínu um hnöttinn hafi það fyrst kynnst aðbúnaði þrælabúða þegar það gisti Ísland. Það er ekki sá málflutningur um menningarþjóð sem við viljum gjarnan að heyrist á erlendri grund um okkar hag hér.

Ég gat þess áðan, að mér er kunnugt um það, — og tel rétt að segja frá því, þótt ég hefði talið eðlilegra að hæstv. félmrh. gerði það, — að í félmrn. er verið að vinna að því að endurskoða lög og reglugerðir um aðbúnað farandverkafólks í þeim verbúðum og þeim matstofum sem þeim er ætlað að sækja og dvelja í fyrst og fremst. Ég tel að þegar í vetur þurfi að nást samkomulag um slíka nýja reglugerð eða setningu nýrrar löggjafar ef með þarf. Það sem meira er, ég tel að þingið eigi að beita sér fyrir því, sérstaklega í samvinnu við samtök atvinnurekenda, að það fjármagn verði útvegað þegar á þessu ári og á næstu árum sem þarf til þess að breyta þessum aðbúnaði. Hér er ekki um að ræða verk sem kostar bara nokkrar milljónir eða nokkra tugi milljóna, hér er um verk að ræða sem kostar hundruð milljóna, ef við viljum færa þessar verbúðir í það horf sem við teljum allsæmilegt. Ég tel að þingið ætti að lýsa því í raun og veru yfir með einhverjum sérstökum hætti, að það sé vilji þess, að svo verði gert.

Ég vil svo að lokum vekja athygli á því, að það er ekki aðeins varðandi farandverkafólk í sjávarútvegi sem pottur er brotinn, heldur er mér einnig kunnugt um það, að víða hafa verið brotin réttindi og víða skortir á að farandverkafólk í landbúnaði hljóti þann aðbúnað sem réttlætanlegur er samkvæmt gildandi kjarasamningum og ákvæðum í lögum. Farandverkafólk í landbúnaði hefur ekki heldur haft með sér nein samtök. Það eru engin stéttarfélög í landinu sem hafa sérstaklega tekið að sér að gæta hags þessa fólks, heldur hefur þar hver og einn orðið að sjá um sig og oft við erfiðar aðstæður. Því miður er það þannig, án þess að ég ætli sérstaklega að fara að bera bændastéttinni í heild á brýn sök í þessum efnum, — því miður er það þannig, að það eru allt of mörg dæmi um léleg kjör og slæman aðbúnað og réttindaleysi þess farandverkafólks sem hér hefur farið um sveitir, sérstaklega yngra fólks, til þess að rétta bændum hjálparhönd við búskapinn. Ég held að á sama tíma og átak verður gert í sjávarútvegi til þess að tryggja réttindi og aðbúnað farandverkafólks þurfi að gera hliðstætt átak, þó með nokkuð öðrum hætti verði, til þess að tryggja réttindi, kjaramál og aðbúnað farandverkafólks til sveita.

Það er svo komið okkar atvinnuháttum, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að þrír af grundvallaratvinnuvegum landsins, sjávarútvegur, fiskiðnaður og landbúnaður, gætu í dag ekki þrifist með þeim hætti sem þeir gera, ef ekki kæmu til þær þúsundir farandverkafólks sem gegna lykilhlutverki í þessum atvinnuvegum. Það væri íslenskri þjóð til vansæmdar, ef hún léti það viðgangast mörg ár enn að aðbúnaður þessa grundvallarvinnuhóps í okkar þjóðfélagi væri með þeim hætti, að á engan hátt væri talið mannsæmandi ef um almennan aðbúnað í þjóðfélaginu væri að ræða.