18.03.1980
Sameinað þing: 34. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

59. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Eftir því sem kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, hv. 5. þm. Vestf., sem hafði að sjálfsögðu ómælda þekkingu á þessu eins og fleiri sem betur fer, að menn hefðu verið allglaðhlakkalegir undir ræðuhöldum um þessi efni, er óhætt að segja að hér eru alls engin gamanmál á ferðinni. Ég er nú hættur að skipta mér af flugmálum í landinu, og ekki sýnist stefna í betri áttir vegna þess á síðustu og verstu tímum því að framlög til framkvæmda í flugmálum fara sífellt minnkandi að hlutfalli, úr því sem þau voru mest, yfir 4% af fjárlögum eru þau nú komin í 0.3%. Ef miðað er við þá þáltill. um flugmál á Íslandi, sem samþ. var á hinu háa Alþingi fyrir nokkrum árum, vantar sífellt meira og meira fé til þess að geta staðið við þá ályktun.

Það er mjög alvarlegt mál.

Ég kvaddi mér hljóðs fyrst og fremst vegna þess að hv. þm. Karvel Pálmason gerði aths. við afgreiðslu á þessu máli þegar það var hér síðast til meðferðar, og veittist nokkuð að því flugráði, sem þá sat, vegna málsmeðferðar þess. Vegna þess að þá átti ég sæti í flugráði verð ég að gera nokkrar aths. við mál hans varðandi þetta atriði eitt.

Þegar mál af þessu tagi koma á borð flugráðs eru þau auðvitað tekin þar til umr. og afgreidd með mismunandi hætti náttúrlega. En eins og þetta mál er undir sig komið þótti nauðsynlegt að láta sérfræðingana í stofnuninni kanna málið betur vegna þess að þarna væri um faglega hluti að ræða og það þyrfti auðvitað að athuga stöðuna, hvernig hún var, og þá möguleika sem fyrir hendi væru. En umsögnin átti að vera tilbúin nokkru síðar.

Í umsögn frá flugmálastjóra varðandi þetta erindi segir, með leyfi hæstv. forseta, að „þetta mál var lagt fyrir 931. fund flugráðs og samþ. að flugmálastjórn veiti umbeðna umsögn“. Þannig var afgreiðslan. Hún var jákvæð. En af máli hv. þm. mátti skilja að hún hefði verið neikvæð. Afgreiðsla flugráðs var jákvæð. Ég minnist þess, að þegar málið var til umr. var auðvitað tekið mjög jákvætt í athugun á flugsamgöngum við Vestfirði, sem hafa verið mjög erfiðar. — Og svo segir áfram, með leyfi forseta: „Verður væntanlega unnið að þeirri umsögn n.k. sumar.“ Það segir flugmálastjóri. Með samþykktinni í flugráði var málið auðvitað afgreitt úr því. Það, sem á eftir kemur, er framkvæmdaatriði. Flugráð verður varla sakað um hvernig því hefur reitt af, en að sjálfsögðu þyrfti það að fylgjast betur með hvernig framkvæmdir verða í þessum efnum. Ég geri ráð fyrir að slík umsögn sé tilbúin hjá flugmálastjórn nú.

Þessi till. til þál. er að sjálfsögðu góðra gjalda verð. Ég vil segja það, að ég held að flestir séu þeirrar skoðunar að það þurfi að vera lýsing á þeim flugvöllum þar sem um reglulegt áætlunarflug er að ræða, vegna þess hversu dimmt er hér í skammdeginu. Hitt er svo annað mál, að lýsing á flugvelli getur ekki orðið til þess að fjölga flugdögum í dimmviðri. Þar kemur allt annað til. Og lýsing og öryggisbúnaður á flugvöllum breytir því ekki, hvenær hægt er að fljúga vegna veðurskilyrða, það er alveg ljóst. Það er ekkert öruggara að fljúga í smávél eða vél sem þarf stutta braut en vél sem þarf lengri braut ef um blindflugsskilyrði er að ræða. Þannig hagar þó einu sinni til á Vestfjörðum að landslagið er með nokkuð sérstökum hætti, firðir eru þröngir og fjöll há. Það verður ekki lagað með öryggistækjum af þessu tagi.

Á þeim tíma, sem ég sat í flugráði, voru miklar framfarir í þessu efni og ekki síst á Vestfjörðum, en alls ekki nægar, ég vil undirstrika það: alls ekki nægar. Þá kemur auðvitað til greina að skipta þarf mjög litlu fé á mjög marga staði í margs konar verkefni. En hin síðari árin var lögð allmikil áhersla á að reyna að bæta öryggistækin og flugleiðsögutækin, því að það þarf að setja upp flugleiðsögutæki til þess að komast nokkurn veginn á það svæði sem flugvöllurinn er á. Það var einmitt settur upp í Ögri hluti af blindlendingarbúnaði, svokallaður localizer, þ.e. sending á lóðréttu radíógeislaplani, og auk þess var settur við hann sjálfvirkur fjarlægðarmælir. Þessi tæki hafa gert flug í þennan hluta Vestfjarða miklu öruggara en nokkru sinni fyrr op voru stórt framfaraspor. Tæki af þessu tagi eru afar fá á Íslandi. Hér í Reykjavík er gamall búnaður af þessu tagi, sem varla hefur reynst nægilega öruggur og góður, en fjölstefnuvitar eru í Keflavík, á Akureyri og Ingólfshöfða. Þeir þyrftu að koma víðar, t.d. í Vestmannaeyjum, ekki vegna flugs þangað, heldur vegna öryggis í flugi milli landa.

Ég hef þegar sagt, að það er mín skoðun og ég tel einnig flestra þeirra sem fást við þessa hluti, að nauðsynlegt sé að koma upp lýsingu, en hún leysir hins vegar ekki vandann þegar lágskýjað er. Þau lágmörk, sem eru í gildi varðandi lendingar á völlum fyrir vestan, eru býsna ströng vegna landslagsins. Það þarf sem sagt að vera með fullu öryggi fyrir ofan hæstu fjöll. Hvort menn hafa ljós á völlum eða ekki skiptir ekki máli í þeim tilfellum því að menn þurfa að komast niður úr súpunni, eins og kallað er, og það gera menn ekki með neinu öryggi inni í þröngum fjörðum. Hins vegar geta menn komist niður í Djúpið einmitt vegna þessa stefnuvita sem þar er kominn. Síðan þessi tæki komu upp hefur ekki þurft að grípa nema sjaldan til radarsins, ef þá nokkurn tíma, en það var eina öryggistækið sem á sínum tíma var í notkun á þessum stað.

Ég álít að Alþ. eigi að taka mjög jákvætt í till. af þessu tagi. Hins vegar held ég að alþm. verði að gera sér grein fyrir því, að það eru miklar takmarkanir á því, hversu langt er hægt að ganga til að fjölga flugdögum þar sem landslagi og veðráttu er svo háttað sem er á Vestfjörðum. En ljósin á vellina geta orðið til þess að menn geti flogið þar í myrkri ef ekki er um blindflugsskilyrði að ræða, auk þess sem völlurinn á Ísafirði — fyrir þá sem ekki hafa komið þangað — er með þeim ósköpum gerður að vera alveg niður við sjó undir brattri fjallshlíð, og er gjarnan farið með útlendinga, sem í „flugbransanum“ eru, vestur á Ísafjörð til að sýna þeim hvernig skilyrði við þurfum að búa við víða á landinu í þessum efnum.

Herra forseti. Ég get svo sem látið máli mínu lokið um þetta efni að þessu sinni. En ég álít að við eigum að taka jákvætt í till. þessa og við eigum að reyna að berjast fyrir því að fá fjárveitingar til að geta lýst fleiri flugvelli þar sem um reglubundið áætlunarflug er að ræða. En menn skulu ekki vera allt of bjartsýnir þrátt fyrir að það tækist, vegna þess að hin náttúrlegu skilyrði þrengja þá möguleika, þrátt fyrir alla rafeindatæknina, svo mikið að menn ættu að vera viðbúnir því að ekki sé unnt að bæta skilyrðin eins mikið og æskilegt væri.