18.03.1980
Sameinað þing: 34. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í B-deild Alþingistíðinda. (1217)

59. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ekki veit ég hvað hv. síðasti ræðumaður á við með því að frú Sigurlaug Bjarnadóttir hafi drepið eigið mál á þingi 1978. (Gripið fram í.) Þið verðið að fyrirgefa, það tekur mig dálítinn tíma að vakna, hv. þm. var að svæfa mig með málþófi sínu. Líklega tekst honum betur en nokkrum öðrum að drepa gott mál með málþófi, jafnvel þó að um meginmál sé að ræða.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það, en um það kom frammíkall áðan sem gaf tilefni til þess að segja að hv. 6. landsk. þm. er í réttum flokki. Það er ekki sá flokkur til í þinginu, sem getur hýst hann lengur, annar en sá sem hann er í. (Gripið fram í: Hvað á þm. við?) Þm. á við það, að sá flokkur, sem hýsti hann þegar hann var hér síðast, er ekki lengur á þingi. Er þetta nægilegt svar, fyrrv. dómsmrh.? Ég á við það m.ö.o., að Alþfl. hefur tekið að sér hlutverk þess flokks sem var.

Ég gat ekki fundið af málflutningi frú Sigurlaugar Bjarnadóttur áðan, hv. þm., að hún væri að fordæma þá þáltill. sem nú er hér flutt á þskj. 89. Hún var einmitt að mínu viti að taka undir hana og benda á að hún hefði sjálf flutt þessa hugmynd inn á Alþ. Mér finnst því alveg ástæðulaust af hv. 6. landsk. þm. að gefa í skyn að hún hafi tekið undir þessa till. sína, sem nú er flutt af öðrum, með einhverjum semingi. Ég hef orðið var við það þann tíma sem frú Sigurlaug hefur ekki verið á þingi, að margir Vestfirðingar hafa fundið sig hálfmunaðarlausa og söknuðu hennar af Alþ. Og ég trúi því ekki að hv. 6. landsk. þm. haldi því fram í alvöru, að flm. þessarar till. 1978 hafi þá lagt til að málið yrði drepið. Svona málflutningur er frambærilegur.

Ég er í flugráði og ég skal gjarnan bera það flugráði á næsta fundi, að margir þm., sem tóku til máls um þetta mál í dag, óski eftir að sú framkvæmd, sem hér getur um, verði látin njóta forgangs í verkefnaröð flugráðs. En ég er hræddur um að það verði erfitt fyrir mig að lofa að flugráð samþykki það. Flugráð taldi sig þurfa yfir 2000 millj. kr. á fjárlögum nú til að halda í horfinu samkv. framkvæmdaverkefnaskrá sem flugráð samþ. á sínum tíma þegar við Garðar Sigurðsson, hv. 4. þm. Suðurl., vorum saman í flugráði. En til framkvæmda á fjárlögum núna eru ætlaðar 960 millj., ef ég man rétt, þannig að menn sjá að með hverju ári fer minnkandi það framlag sem flugráð fær til framkvæmda. Hv. 4. þm. Suðurl. gat þess í fyrstu ræðu sinni, að framlag til flugmála hafi verið 4% miðað við heildarfjárlög þegar hann tók sæti í flugráði, en væri nú orðið 0.3%. Þá sjá menn í hvaða átt stefnir.

Það er svo oft, að það er farið afskaplega varlega þegar óskir um fjárframlög berast fjvn. frá stofnunum, hvort sem það er flugráð eða aðrar stofnanir. Þm. verða við fjárlagagerð að sætta sig við þau framlög sem eru samþ. þar. Þegar fjárlög hafa verið samþ. í Sþ. er það sýndarmennska og bara atkvæðaveiðar eða til þess að treysta stöðu sína heima í héraði að koma með fjárfrekar till. Nú er ekki búið að samþykkja fjárlög. Nú er því tíminn fyrir þm. til að standa saman um góð mál og koma þeim inn á fjárlög.

Ég vil skora á hv. þm. að kynna sér vel hvaða verkefni eru í framkvæmdaáætlun flugráðs, hver þau eru í öllum kjördæmum. Það er þrýstingur á flugráð alls staðar að. Þm. ættu nú að sameinast um að flugráð fái næstum því það sem þarf til þess að halda við flugvöllum úti á landi, bæði sjúkraflugvöllum og áætlunarflugvöllum, og þá alveg sérstaklega hvað öryggisbúnað snertir, því að eins og menn muna taldi flugmálastjóri tæplega hægt að flugráð og hann sem embættismaður tækju ábyrgð á því að leyfa flug til ákveðinna flugvalla miklu lengur vegna þess að bæði vélum og mannslífum væri stefnt í voða. Hann tók þannig til orða: ekki aðeins í hættu, heldur í voða. Þetta skulum við hafa í huga. Fjárlög hafa ekki verið samþykkt enn þá. Ef þm. meina eitthvað með málflutningi sínum eru verkefni um allt land. Ég skal samt bera það til flugráðs, að óskað sé eftir því að Ísafjarðarflugvöllur njóti forgangs. Flugmálastjóri hefur einnig margoft bent á þær hættur sem í því felast að minnka fjárframlög frá ári til árs til flugmála.

Ég vil líka taka undir það, sem hv. þm. frú Sigurlaug sagði áðan, að ég tel kannske ekki að það hafi verið óhappaverk að Vængir hættu að fljúga til Vestfjarða, en ég var alla vega ákaflega mikið á móti því að Loftleiðir, því að ég tel að Loftleiðir hafi fengið aukna einokunaraðstöðu í innanlandsflugi, fengju þar einokunaraðstöðu. Ég skipti ekkert um nafn á félaginu. Ég held að það sé eitt af fáum skiptum sem við Garðar Sigurðsson, hv. 4. þm. Suðurl., urðum ósammála í flugráði þegar þetta flugrekstrarleyfi var rætt. Ég held að það út af fyrir sig væri stórmál og verðugt verkefni fyrir Alþ. að taka flugmálin í heild til endurskoðunar. Tek ég að mörgu leyti undir þann málflutning sem hér átti sér stað á s.l. ári, en það var, að mig minnir, 11. þm. Reykv., Ólafur Ragnar Grímsson, sem gerði það að umræðuefni. Það hefur komið í ljós að margt af því, sem hann sagði, kallar á frekari rannsókn.

Ég vil líka að það komi fram hér, að lenging Holtsflugvallar er óhugsandi eins og er með háspennulínuna þar. Þetta hefur verið rætt í flugráði. Flugráð hefur lagt á það mikla áherslu að þessi háspennulína verði fjarlægð og fundin verði önnur lausn. Mér skilst að það sé til önnur lausn, en hún sé dýrari. En flugráð er að sjálfsögðu eindregið gegn því að háspennulinur séu lagðar tiltölulega stutt frá flugbrautarenda, en það eitt út af fyrir sig útilokar frekari lengingu á brautum fyrr en þá háspennulínan hefur verið fjarlægð.

Ég vil að lokum segja það, að ég tek undir þessa till. Hún er góð till. En það eru verkefni víða og þörf á flugvallarframkvæmdum. Það er beðið eftir þeim um land allt. Ég skora á þm. að sameinast um frekari fjár framlög við þá fjárlagagerð, sem nú stendur yfir, en flugráði eru þar ætluð til framkvæmda. Og ég er ekki í nokkrum vafa um að hæstv. samgrh. hefur skilning á þörfinni, því að þau tvö kjörtímabil, sem ég hef setið í flugráði, hefur hann líka verið flugráðsmaður og nú er hann samgrh. Málið ætti því að vera auðsóttara af þeim ástæðum.

Ég skal ekki segja meira en þetta að þessu sinni. En ég get endurtekið, að ég mun láta það koma fram í flugráði að hér hafi menn óskað eftir að Ísafjarðarflugvöllur fengi sérstaka athygli manna á því fjárhagsári sem nú er að hefjast.