18.03.1980
Sameinað þing: 34. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (1218)

59. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Hér hefur margt verið sagt síðan ég tók til máls áðan, og er kannske ekki ástæða til þess að fjalla um það allt, en umræðan hefur farið svolítið í deilur milli hv. þm. Vestf. um hver eigi höfundarréttinn að þessu plaggi. Ég segi fyrir mig, að ég mundi ekki leggja mikið á mig til þess að öðlast hann.Það, sem kom mér kannske dálítið á óvart var hvernig hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir orðaði þetta. Hún sagðist hafa átt hugmyndina, grg. væri næstum því orðrétt frá 1976, en samt fannst henni plaggið ekki nógu vandað.

Herra forseti. Ég vil aðeins leyfa mér að minnast á örfá atriði af því sem hér hefur komið fram.

Í fyrsta lagi vil ég nefna að í því plaggi, sem er hér fyrir framan okkur núna, er farið fram á athugun. Ekki er nú fastar að orði komist, ekki er hv. þm. Karvel Pálmason stórhugaðri en svo í þessu efni. Það hefði verið hægt að flytja hér till. um að ráðast í þessar framkvæmdir. En af hverju vill hann láta fara fram athugun? Ósköp einfald lega vegna þess að m.a. s. hann skilur að það þarf að athuga þetta mál. Það var einmitt það sem gert var við afgreiðslu málsins síðast. Málið var alls ekki drepið — og allra síst með óeðlilegum hætti — hér í þinginu. Því var vísað til umsagnar þeirra sem best máttu þekkja. Það er auðvitað rétt aðferð, í staðinn fyrir að ana út í ófæruna án þess að vita nokkuð. Það er út af fyrir sig í lagi þó að menn blaðri hér og blaðri um það sem þeir hafa ekkert vit á. En það er verra ef á að fara að ráðast í framkvæmdir sem þeir hafa enga þekkingu á. Það þarf sem sagt að kanna málið, það er ljóst, og því er ég einmitt sammála.

Hitt er svo annað mál, að vissir þættir í þessari till. Verka dálítið einkennilega á mig, t.d. að hugsa sér að fara að búa til flugvöll í Bolungarvík til þess að bæta við einhverjum umframflugdögum til Ísafjarðar. Það er ekki hægt að segja að það sé flugvöllur í Bolungarvík. Til þess að taka á móti þeim flugvélum, sem fljúga þarna vestur, þyrfti sem sagt að leggja nýjan flugvöll, stóran flugvöll, við Bolungarvík, og er talið af þeim sem þekkja til að flugdögum kynni kannske að fjölga um 3–5%. Slík fjárfesting er auðvitað óskynsamleg. Það er alveg nóg að slíkar ofboðsumframfjárfestingar séu til í öðrum atvinnuvegum — og nóg um það hér á Íslandi — þó að menn fari ekki að álpast til þess að leggja flugvöll upp á 1400–1500 m fyrir mörg hundruð, jafnvel þúsundir millj., til að geta bætt við örfáum flugdögum vestur, jafnvel þó auðvitað sé nauðsynlegt að reyna að fjölga þeim flugdögum. En menn verða að meta kostnaðinn af því.

Varðandi Holt í Önundarfirði og þá háspennulínu, sem var lögð snyrtilega við brautarendann, er það ein skemmtilegasta og heppilegasta gildra til þess að drepa með fólk, sem er að fljúga, að hafa svona granna línu ofan í aðflugsgeira og auðvitað fáránlegt. Auðvitað var flugráð ekki spurt um þetta. Það er svo í þessu þjóðfélagi, að ein stofnun veit ekkert hvað önnur gerir. Það er hörmulegt að slíkt er enn þá að ske hér þrátt fyrir allar áætlunardeildir og byggðadeildir og framkvæmdastofnanir og hvað það heitir þetta skrifstofudót allt saman. — En það er sem sagt sett háspennulína með margra kílóvolta spennu alveg við endann á brautinni, og þykir mörgum nóg að sjá um að smala fé á flugvöllum hér á landi þó að ekki komi til háspennulínur líka. Og það er ekkert leyndarmál hver ber ábyrgð á því hvar linur eru lagðar. Hana bera auðvitað þeir sem gera það. Og hverjir leggja háspennulínur á Vestfjörðum? Líklega á þessum tíma Rafmagnsveitur ríkisins. Nú mundi Orkubú Vestfjarða væntanlega sjá um verkið. Það þarf auðvitað að taka þessa línu, jafnvel þó að völlurinn sé alls ekkert lengdur. Hún er hættuleg. Þessa línu þarf að færa í jörð fram hjá flugvellinum. Það er út af fyrir sig ekkert flókið mál. Ég geri ekki ráð fyrir því. Kannske má líka láta hana einhvers staðar allt annars staðar. Ég kæri mig ekkert um a.m.k. að bera ábyrgð á því, að slík lina drepi fólk í flugi innanlands.

Það hefur verið dálitið talað um það af hv. þm. Karvel Pálmasyni fyrst og fremst, að öll flugmálaverkefni séu hér í einum hnút, allt sé reyrt í einn hnút og allt tekið jafnt og síðan sé fjármunum skipt í einhverju hlutfalli við stærð eða eitthvað þess konar. Það er alger misskilningur. Hvert mál er skoðað út af fyrir sig, og undanfarin ár hafa menn leitast við að reyna að leysa vandann þar sem erfiðleikarnir eru mestir. Það er einmitt þess vegna sem Vestfirðir hafa fengið, sem betur fer, um tíma, stuttan tíma, talsvert mikla aukningu á framkvæmdafé, m.a. til að koma upp flugleiðsögutækjum. Það er auðvitað nauðsynlegt að koma slíkum tækjum upp víðar. — Ég gleymdi nú í upptalningunni áðan að það er líklega localizer (LLZ) á Sauðárkróki líka. Það er sem sagt sá hluti af blindlendingarbúnaði sem kominn er í gagnið á Sauðárkróki. Það er vegna þess að Sauðárkrókur á að geta verið varavöllur fyrir vissar tegundir flugvéla í millilandaftugi. Það gerir sko sunnanáttin.

Ég er viss um að menn horfa nú til þess að reyna að bæta úr ástandinu þar sem það er verst, enda nauðsynlegt. Hitt er svo annað mál, að sú skoðun kom fram í umræðum í þinginu fyrir nokkrum árum að menn hefðu fyrst átt að standa þannig að því að koma upp flugsamgöngum í landinu að tryggja öllum samtímis jafna aðstöðu. Það er auðvitað misskilningur. Þannig hefði ekkert innanlandsflug komið á Íslandi. Fyrst varð að koma upp aðstöðu þar sem mest var upp úr að hafa að fljúga á milli til að gefa einhvern pening. En þessir menn skilja auðvitað ekkert í rekstri á þessu sviði frekar en öðrum. Það þarf að huga að því hvað hlutirnir kosta og hvaðan á að fá peningana og að hve miklu gagni þeir geta orðið. Þetta eru staðreyndir sem menn ættu að venja sig á að hugsa betur um.

Það var svo í hittiðfyrra að gripið var til þess að loka, eins og kallað var, nokkrum smávöllum í landinu. Þeir eru kannske hundrað. Til þess að halda þeim í fullkomnu standi hefði þurft gífurlega fjármuni og m.a.s. mjög mikla fjármuni, þó eingöngu hefði verið hugsað um Vestfirði. — Að vísu var það gert. Flugvellinum á Gjögri var t.d. haldið við, enda eina útgönguleiðin fyrir þá Strandamenn, frændur mína.

En þetta varð ósköp einfaldlega að gera vegna þess að hefði eitthvað komið fyrir á þessum völlum, sem flugmálastjórn hafði umsjón með, bar flugmálastjórnin og flugráð ábyrgð á þeim slysum sem hefðu getað orðið. Flugráð vildi firra sig ábyrgð, því ástand margra þessara valla var þannig, að um leið og þíða kom varð þetta einn forarpollur. Í þessum forarpollum lentu því miður nokkrar flugvélar og eyðilögðust. Þeim var ekki lokað til þess að hefna sín á Vestfirðingum eða reyna að draga úr samgöngum til þeirra. Það var ósköp einfaldlega verið að loka þeim til að koma í veg fyrir flugslys á þessum litlu völlum.

Um flugfélagið Erni, Arnarflug og Flugleiðir mætti halda hér langa ræðu. En hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir sagði að sjúkraflugið hefði ekki verið nefnt hér, það hefði dregið mikið úr því. Flugfélaginu Örnum á Ísafirði hefur alls ekkert verið bannað að fljúga innan Vestfirðingafjórðungs. Það eina, sem það fékk ekki, var sérleyfið á leiðinni frá Reykjavík til Vestfjarða, sem þó var af þess hálfu, — ég vil taka það fram vegna þess sem hv. þm. Albert Guðmundsson sagði áðan, — að talsvert miklu leyti fólgið í því að fljúga milli flugvalla á Vestfjörðum og útvega þannig flugfélaginu farþega til Reykjavíkur. Það var nú þannig í sjálfri mafíunni. Og mér er nær að halda að Flugleiðir eigi einhvern hlut í Örnum eins og Norðurflugi.

Það mál var þannig, — ég skal eyða örfáum mínútum í það, — að þegar Vængir lögðu upp laupana af þeim ástæðum sem maður veigrar sér við að nefna hér í þingsölum, skorti á öryggi m.a., eftirliti og ýmsum ástæðum, sóttu ýmsir aðilar um að fá sérleyfisleiðir þeirra. Það voru Vængir sem sóttu um þetta aftur, og það var fyrirtæki sem nú er stjórnað af sama fjármálaaðila og var með Vængi, Iscargo, já, lofaði bót og betrun, og það var Norðurflug og það voru Ernir. Það, sem þessir aðilar sóttu um, var ekki að fá öll sérleyfin. Ef það hefði verið hefði kannske mátt afgreiða málið öðruvísi en gert var.

En þeir vildu sem sagt skipta þessum sérleyfum upp. Vestfirðingarnir hjá Örnum, mjög duglegir menn, sóttu um að fá vesturpartinn. Þó var ekki nefnt Snæfellsnesið. Hver átti að sjá um það? Norðurflug sótti um sinn geira, Blönduós og tilheyrandi, með miðstöð á Akureyri. En sannleikurinn er sá, að það var mjög óheppilegt og óskynsamlegt frá rekstrarlegu og viðhaldslegu sjónarmiði að fara að skipta upp þessum sérleyfum. Það er nú einu sinni þannig, að markaðurinn hjá okkur á Íslandi er ekki stærri en svo að það mundi gera rekstur ókleifan, að skipta þessu í allt of marga parta.

En þó að við séum landsbyggðarmenn og viljum landsbyggðinni allt hið besta, þá er það svo, að eðli málsins samkvæmt á miðstöð í svona flugi heima í Reykjavík. Nú hrista þeir höfuðið sem ekki hafa kafað nógu djúpt í næsta leik. Hún á heima í Reykjavík vegna þess að samgöngurnar eru fyrst og fremst miðaðar við samband við höfuðborgarsvæðið. Hins vegar er mjög æskilegt að hafa lítil flugfélög úti í landsfjórðungunum til þess að annast flutninga þar á milli staða. — Og vegna þess að ég minntist á sjúkraflugið vegna ummæla hv, þm. Sigurtaugar Bjarnadóttur, vil ég segja það, að ég tel að ástæðan fyrir minnkandi sjúkraflugi sé ekki að þessir menn fengu ekki sérleyfi til reglubundins áætlunarflugs. Það má einkennilega standa á ef sjúklingar verða allt í einu heiftarlega veikir á áætlunartíma. Ég hef enga trú á því. En þessi starfsemi er auðvitað nauðsynleg. Hún er styrkt, sem betur fer, til ýmissa staða á landinu.

Að mínum dómi er gott að fá tillögur af þessu tagi. Og ég held að það sé gott að láta athuga þessi mál, eins og þessi till. fer fram á. Ég er hins vegar ekki sannfærður um að það geti orðið útkoman að við höfum marga varaflugvelli fyrir Ísafjarðarflugvöll sem þyrfti að hluta til að leggja alveg að nýju. Ég er hræddur um að það yrði allt of dýr aðferð.

Hins vegar vil ég endurtaka það, að ég legg áherslu á að þessir vellir verði lýstir þannig að sé þægilegra að lenda á þeim, ekki síst ef menn hafa aðflugshallaljós á þeim og geta þá betur áttað sig í skammdeginu þar sem birta er kannske ekki nema í tvo klukkutíma á dag.

Herra forseti. Um alla þessa þætti mætti að sjálfsögðu segja býsna margt. En að lokum vil ég aðeins segja það, að ég tel að í flugsamgöngum innan héraðs, þar sem um mjög marga litla flugvelli er að ræða, sé nauðsynlegt að nota flugvélar sem geta lent á stuttum brautum, svokallaðar STOL-vélar, en það er einmitt það sem Vængir hafa. Þeir reka sínar flugrútur m.a. með vélum af því tagi. Og það eru tvær tegundir af vélum, sem við höfum haft í gangi á Íslandi, sem þurfa að hafa stuttar brautir og geta bremsað sig með því að vinda skrúfublöðunum öfugt. Það er eiginleiki sem er nauðsynlegur þegar verið er að reyna að lenda á mjög stuttum brautum, þó að auðvitað þurfi að hafa þar allt öryggi í heiðri þannig að þær séu ekki styttar um of. Það má lenda svona vél, eins og Britten Norman Islander, á kannske 250 metrum. En það er auðvitað ekkert við í að hafa flugbraut sem er 250 m. það sér hver maður. Svo eru til vélar sem flytja talsvert fleiri farþega, eins og t.d. Twin-Otter vélar sem hafa reynst mjög vel. Þetta er auðvitað nauðsynlegt.

En að lokum held ég að sé óhætt að segja það, að Alþ. getur, ef menn eru hræddir við peningahliðina í þessu efni, samþykkt þáltill. án þess að hafa nokkurn bakþanka, vegna þess að þar er um athugun að ræða. Ég held að það sé skylda okkar að athuga vel með hvaða hætti við getum bætt flugsamgöngur í landinu og þó fyrst og fremst á þeim stöðum þar sem erfiðleikarnir eru mestir.