18.03.1980
Sameinað þing: 34. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í B-deild Alþingistíðinda. (1222)

106. mál, framkvæmdaáætlun í orkumálum vegna húshitunar

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt níu öðrum samflokksmönnum að flytja á þskj. 157 till. til þál. um framkvæmdaáætlun í orkumálum vegna húshitunar. Samkv. þessari till. er gert ráð fyrir að Alþ. álykti að ríkisstj. feli Orkustofnun að gera áætlun um framkvæmdir í orkumálum vegna húshitunar. Er gert ráð fyrir að áætlunin sé gerð til næstu fjögurra ára og miði að því, að:

1) innlendir orkugjafar komi í stað olíu,

2) ódýrari innfluttur orkugjafi verði nýttur í stað dýrari,

3) orkunýting verði bætt.

Þá er það tekið fram í till. þessari að áætlunin skuli ná til tiltekinna verkefna sem eru:

1. Jarðhitaleit.

2. Framkvæmdir við hitaveitur.

3. Lagning háspennulína rafmagns.

4. Styrking rafdreifikerfis.

5. Sveitarafvæðing, sem ólokið er.

6. Orkusparandi aðgerðir.

Enn fremur segir í þessari till., að í áætlun þessari skuli tilgreina kostnað við framkvæmdir hennar, og fjármagn það, sem þarf, skuli fengið með lántökum og beinum framlögum úr ríkissjóði, enda njóti framkvæmdir þessar forgangs.

Þá er í till. lögð áhersla á að áætlunargerðinni sé hraðað svo sem verða má og að henni verði lokið ekki síðar en 1. júlí n.k.

Þessi till. til þál. er flutt til að bæta úr því ástandi sem nú er hjá þeim hluta þjóðarinnar sem notar olíu til upphitunar húsa. Upphitunarkostnaður þessa fólks er nú svo mikill að óbærilegt er. Til að létta þessar byrðar þarf þegar í stað að auka niðurgreiðslu olíu. En ekki má þar við sitja. Þjóðhagslega varðar mestu að leysa hina dýru orkugjafa af hólmi svo sem verða má. En til þess þarf tíma. Olíuniðurgreiðslan á því að vera bráðabirgðaúrræði til að gera ástandið bærilegt meðan unnið er að frambúðarlausn, sem er fólgin í hagnýtingu innlendra orkugjafa í stað olíu. Jafnframt þarf að vinna að því, að sú notkun erlendra orkugjafa, sem óhjákvæmileg er, verði sem hagkvæmust, hagnýtt verði sem best afgangsorka og gerðar verði ráðstafanir til orkusparnaðar.

Þessi þáltill. fjallar um áætlunargerð til þess að unnið verði skipulega og markvisst að þeim framkvæmdum sem nauðsynlegar eru til að koma á sem fyrst frambúðarlausn þess vanda sem hér er um að ræða.

Hér er ekki fjallað um framkvæmdaáætlun fyrir orkumálin í heild. Till. er takmörkuð við þann þátt þeirra sem varðar upphitun húsa. Hún er um hagnýtingu jarðvarma í þessu skyni, jarðhitaleit og hitaveitur. Einnig fjallar hún um hagnýtingu orku til upphitunar húsa. Þá er hún um nýtingu ódýrari innfluttra orkugjafa í stað dýrari. Enn fremur tekur till. til bættrar orkunýtingar, svo sem hagnýtingar afgangsorku og bættrar einangrunar húsa.

Hér er ekki fjallað um áætlanir um virkjun fallvatna til framleiðslu raforku, heldur er hér fengist við verkefni sem vinna þarf til þess að framleidda raforku megi hagnýta til upphitunar húsa eftir því sem hagkvæmt þykir. Hins vegar hafa að sjálfsögðu framkvæmdir, sem þessi till. varðar, svo sem lagning aðalháspennulína og styrking rafdreifikerfis, jafnframt gildi fyrir almenna heimilisnotkun og iðnað.

Till. sú til þál., sem hér er lögð fram, snýr að verkefnum sem vinna þarf til að ná tilteknum markmiðum sem varða upphitun húsa í landinu. Ég skal nú gera grein fyrir þeim verkefnum sem hér er gert ráð fyrir að framkvæmdaáætlun sú, sem till. fjallar um, nái til.

Um 70% landsmanna búa nú við hitaveitu. Gert er ráð fyrir, miðað við þekkingu á jarðhitamöguleikum nú, að um 80% af íbúum landsin§ geti fengið hitaveitu. Fyrir fjórum árum bjuggu um 53% landsmanna við hitaveitu. Sýnir þetta miklar framfarir á skömmum tíma. En betur má ef duga skal.

Mestur hluti þess jarðvarma, sem nýttur hefur verið til þessa, er fenginn á lághitasvæðum. Er þetta einkum vegna þess að lághitasvæði eru yfirleitt betur í sveit sett en háhitasvæði, en einnig vegna þess að varmi lághitasvæða er aðgengilegur til beinnar nýtingar og hentugri við upphitun húsa en gufa eða vatn frá háhitasvæðum.

Til hagnýtingar á jarðvarma þarf umfangsmiklar aðgerðir. Kemur þá fyrst til sjálf jarðhitaleitin, rannsóknir og boranir. Áður en boranir eru gerðar á einhverju jarðhitasvæði er nauðsynlegt að gera ýmsar rannsóknir. Fer það eftir aðstæðum hversu yfirgripsmiklar slíkar forrannsóknir þurfa að vera. Við slíkar rannsóknir er beitt þeim aðferðum í jarðfræði, jarðeðlisfræði og jarðefnafræði sem nauðsynlegar eru ýmist til upplýsinga um hvar sé að vænta jarðhita eða til að ákvarða sem best legu, stærð og hitastig jarðhitakerfis á staðbundnu jarðhitasvæði. Síðan þurfa að koma til rannsóknaboranir til viðbótar yfirborðsrannsóknum til að fá upplýsingar um raunverulegt hitastig, vatnsæðar og afkastagetu tiltekins jarðhitasvæðis.

Þó að jarðhitarannsóknirnar sjálfar séu grundvöllurinn eru vinnsluboranir eftir heitu vatni fyrirferðarmestu framkvæmdirnar í jarðhitaleitinni. Vinnsluborunum hefur fleygt fram á síðari árum. Aukin tækni og bættur tækjakostur hefur gert þetta mögulegt. Nauðsynlegt er að hraða þessum framkvæmdum svo ekki verði óþarfa dráttur á því að jarðvarminn verði hagnýttur hvar sem við verður komið. Mikill kostnaður fylgir þessu og ekki fyrir fram víst um árangur í hverju tilfelli. Samt er réttlætanlegt að leggja í hinn mikla kostnað þar sem svo mikið er í húfi. Það verður að leita af sér allan grun um hagnýtanlegan jarðvarma, þar sem hann er langsamlega hagkvæmasta lausnin til upphitunar húsa. En eftir því sem frumrannsóknir jarðhitaleitarinnar eru vandaðri geta boranir verið hnitmiðaðri og minni sú fjárhagslega áhætta sem jafnan er samfara borunum.

Með tilliti til þessa er ljóst hve mikilvægt er að gera áætlun um framkvæmd þeirra verkefna sem nú kalla að í jarðhitaleitinni, svo að að þeim verði unnið með sem markvissustum og skipulögðustum hætti.

Ekkert er mikilvægara en að hagnýtanlegur jarðvarmi verði tekinn í gagnið svo fljótt sem verða má til upphitunar húsa. Þjóðhagslega er ekkert brýnna en hitaveituframkvæmdir. Um 20 hitaveitur hafa nú verið stofnsettar víðs vegar um landið og eru þær nær allar í eigu sveitarfélaga. Hitaveita Suðurnesja, sem tók til starfa árið 1978, er að því leyti sérstæð að hún er sameign ríkis og sveitarfélaga. Orkubú Vestfjarða, sem tók til starfa í ársbyrjun 1978, er einnig sameign ríkis og sveitarfélaga. En hlutverk Orkubúsins er bæði að annast vinnslu og dreifingu raforku svo og að byggja og reka hitaveitur. Koma þarf í veg fyrir að erfiðleikar fjárhagslega veikra sveitarfélaga hamli eða seinki hitaveituframkvæmdum.

En mál þetta varðar fleira en jarðvarmaveitur. Á þéttbýlisstöðum víðs vegar um landið, þar sem jarðvarmi er ekki fyrir hendi, þarf einnig að gera gangskör að því að koma upp hitaveitum. Hér er um að ræða hitaveitur sem hafa annan orkugjafa en jarðvarma. Á þessum stöðum þurfa að vera fjarvarmakerfi með kyndistöð. Er þá reiknað með tvöföldu vatnsdreifikerfi. Þetta verður þó að vera með þeim fyrirvara að ekki sé fyrir hendi eitthvert sérástand, svo sem að þéttleiki byggðarinnar valdi því að á einhverjum þéttbýlisstöðunum eða hluta þeirra verði styrking rafdreifikerfis hagkvæmari framkvæmd og því réttara að hafa þar beina rafhitun en óbeina. Gert er ráð fyrir að kyndistöðvarnar séu rafkyntar og kyntar með olíu eða öðrum orkugjöfum, svo sem kolum. Slíkar framkvæmdir eru einnig mjög mikilvægar þjóðhagslega, þar sem slíkar hitaveitur geta hagnýtt afgangsrafmagn frá orkuverum landsins og afgangsvarma frá verksmiðjum og kætivatn dísilvéla. Er þá ónefndur sá mikli kostur, að olía sem kyndistöðvar slíkra hitaveitna nota, er miklu ódýrari en sú sem ella er notuð til upphitunar húsa, þar sem notuð er svartolía, en ekki gasolía.

Hitaveitur með kyndistöðvum þurfa að koma til, þó að ekki sé fullreynt nema jarðvarmi kunni að finnast á viðkomandi stað. Það kann a.m.k. sums staðar að verða seint endanlega úr því skorið. Hafa verður og í huga, að það, sem kann að teljast óhugsandi í dag, kann síðar að verða mögulegt vegna bættrar tækni og rannsókna. Ef jarðvarmi finnst síðar er búið að búa í haginn fyrir notkun hans, því að vatnsdreifikerfi hitaveitu er þá fyrir hendi. Ekkert mælir því með frestun slíkra framkvæmda sem hér um ræðir. Kostirnir eru einsæir.

Nú þegar hefur verið hafin starfsemi hitaveitu með kyndistöð á Ísafirði og í undirbúningi er slík framkvæmd á Höfn í Hornafirði. Varðar nú miklu að slíkar framkvæmdir komi til annars staðar í landinu þar sem þær eiga við.

Framkvæmdir við hitaveitur, sem till. þessi fjallar um, eru þeim mun stærra átak í orkumálum landsins þar sem um er að ræða allar hitaveitur, hver sem orkugjafinn er.

Eitt meginverkefnið á undanförnum árum hefur verið samtenging landsins í eitt raforkukerfi. Af hagkvæmni og öryggisástæðum þarf að tengja saman orkuver landsins í eitt aðalorkuflutningskerfi og reka þau í fullkomnum samrekstri með fyllstu nýtingu orkugjafa, mesta rekstraröryggi og lægsta vinnslu- og flutningskostnað fyrir augum. Mikið hefur áunnist í þessum efnum með tilkomu Norðurlínu og Austurlínu. Og treysta verður því, að á þessu ári ljúki lagningu Vesturlinu svo sem ráð er nú gert fyrir.

En mikið er enn ógert í þessum efnum. Sumar byggðir hafa ekki enn verið tengdar landskerfinu og raforku verður þess vegna að framleiða með dísilvélum. Ýmsar línur í aðalorkuflutningskerfinu eru enn ólagðar. Tryggja þarf innbyrðis samræmi í heildarflutningskerfinu varðandi öryggi gegn línubilunum, þannig að einum hluta þess sé ekki að marki hættara við bilunum en öðrum. Það eru slík verkefni sem þessi sem nauðsyn er að vinna skipulega og markvisst að samkvæmt framkvæmdaáætlun þeirri sem till., sem hér er til umr., gerir ráð fyrir.

Rafvæðingu sveitanna, sem hófst að verulegu marki fyrir u.þ.b. aldarfjórðungi, er nú svo langt komið að samveitur ná nú til um 98% allra sveitabýla í landinu. Rafvæðing sveitanna hefur kostað mikið fé, sem hefur komið frá ríkinu gegnum Orkusjóð sem óendurkræft framlag. Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á að koma sem flestum notendum í samband við samveitur.

Í mars 1979 samþykkti orkuráð að leggja til við iðnrh. að hafist verði handa um að styrkja rafdreifikerfið í strjálbýli hér á landi til þess að það geti flutt rafmagn er nægi til almennra heimilisnota í sveitum, fullrar hitunar húsa með rafmagni og búnota hvers konar svo og til margvíslegra annarra nota í strjálbýli, svo sem þjónustu og minni háttar iðnaðar. Samþykkt orkuráðs var gerð á grundvelli ítarlegrar athugunar á dreifikerfi sveitanna og leiðum til að auka flutningsgetu þess, sem ráðið lét gera og byrjað var á síðla árs 1976. Þessi samþykkt tók til verks sem áætlað var að kostaði 8800 millj. kr. á verðlagi í byrjun árs 1979. Má með sanni segja að sú styrking rafdreifikerfisins í strjálbýli, sem hér um ræðir, megi með nokkrum rétti kallast „önnur rafvæðing sveitanna“.

En styrking rafdreifikerfis er ekki bundin við sveitirnar. Þar sem sérstakar aðstæður eru á þéttbýlisstöðum og gera beina rathitun hagkvæmari en óbeina þarf að styrkja innanbæjarkerfi viðkomandi staðar.

Þetta er eitt hinna mikilvægu verkefna sem gert er ráð fyrir í framkvæmdaáætlun þeirri sem þáltill. þessi fjallar um.

Orkuráð markaði þá stefnu árið 1975, að þau sveitabýli, þar sem meðalvegalengd milli bæja færi ekki fram úr 6 km, skyldu tengjast samveitum. Nú er sveitarafvæðingunni það langt komið að samkvæmt þessu eru aðeins um 40 býli eftir af þeim býlum sem orkuráð hefur talið rétt að tengja samveitum. Að auki eru um 40 býli svo afskekkt að þau verða tæplega öll tengd samveitum. Þarf því sérstakar ráðstafanir til aðstoðar þeim býlum sem svo er ástatt um.

Hér er ekki um umfangsmikið verkefni að ræða, en hins vegar mjög þýðingarmikið þeim sem það varðar. Hafa verður í huga að rafvæðing sveitanna undanfarinn aldarfjórðung hefur haft úrslitaþýðingu fyrir búsetu í strjálbýli. Án hennar væru án efa margar blómlegar byggðir fyrir löngu komnar í eyði.

Með tilliti til þess er gert ráð fyrir að framkvæmdaáætlun sú, sem till. þessi fjallar um, nái til þess verkefnis sem enn er ólokið af hinni eiginlegu sveitarafvæðingu, enda verði það gert með þeim hætti að rafmagnið megi hagnýta til upphitunar húsa.

Þótt Íslendingar búi yfir miklu magni ónýttra orkulinda er ástandið í orkubúskapnum þannig, að mikil þörf er á að spara raforku á heimilum svo sem kostur er. Hinn mikli olíukostnaður kallar líka á að fyllstu ráðdeildar sé gætt við upphitun húsa. Margt getur stuðlað að sparnaði á orkugjöfum. Er þar fyrst að nefna upplýsingamiðlun og fræðslustarfsemi. Þá er eftirlit og stilling kynditækja ein einfaldasta og jafnframt kostnaðarminnsta leiðin til lækkunar upphitunarkostnaðar þar sem það á við. En mikilvægasta orkusparandi aðgerðin er fólgin í bættri einangrun húsa. Því getur fylgt mikill kostnaður fyrir húseigendur, sem sumir hverjir eiga erfitt með að standa undir. Slíkar framkvæmdir geta þó ekki orkað tvímælis af þjóðhagslegum ástæðum. Þess vegna þarf hið opinbera að koma til aðstoðar með því að sjá um að nauðsynlegu fjármagni sé beint til þessara þarfa.

Till. þessi gerir ráð fyrir að áætlun sé gerð um skipulegar og markvissar framkvæmdir til orkusparnaðar. Herra forseti. Ég hef nú skýrt markmið og verkefni þeirrar framkvæmdaáætlunar sem till. þessi fjallar um. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir samkvæmt áætlun þessari verði fjármagnaðar með lántökum og beinum framlögum úr ríkissjóði. Ekki þykir orka tvímælis að framkvæmdir þessar eigi að hafa forgang við fjármagnsráðstöfun ríkisvaldsins.

Framkvæmdaáætluninni er ætlað að taka til fjögurra ára. Þó þörfin sé brýn er þess naumast von að svo umfangsmiklum framkvæmdum sem hér er um að ræða verði lokið á skemmri tíma. Er þess ekki heldur að dyljast, að það er mikið átak bæði fjárhagslega og tæknilega að ljúka verkefnum þessum á ekki lengri tíma en till. mælir fyrir um.

Samkvæmt till. skal fela Orkustofnun að gera framkvæmdaáætlunina. Það verk verður unnið í umboði ríkisstj. eða ráðh. þess sem fer með orkumál. Það er hlutverk Orkustofnunar að vera ríkisstj. til ráðuneytis um orkumál. Orkustofnun á samkvæmt lögum að annast hvers konar rannsóknir og athuganir á málum sem varða framkvæmdaáætlun þá sem hér er gert ráð fyrir. Hlýtur því áætlunargerðin að styðjast við verk sem þegar hafa verið unnin af sérfræðingum Orkustofnunar. Að sjálfsögðu mundi Orkustofnun leita til annarra aðila við gerð áætlunarinnar eftir því sem ástæður gæfu tilefni til.

Það er mikils um vert, að áætlunargerðinni verði flýtt svo sem verða má. Þess vegna er gert ráð fyrir, eins og ég hef áður tekið fram, að henni verði lokið ekki síðar en 1. júlí 1980.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar á þessu stigi um þetta mál. Þetta er mál sem er mjög ofarlega á baugi nú, ef ekki það mál sem er efst á baugi. Þá á ég við að nú ræða menn vart um annað meira en að gera ráðstafanir til að draga úr kostnaði þeirra sem búa við olíukyndingu til upphitunar húsa sinna. Til þess að bæta úr bráðasta vandanum í því efni kemur okkur saman um að sé einungis ein leið. Hún er sú að auka stórlega niðurgreiðslu á olíu til upphitunar húsa. En það getur ekki verið nema bráðabirgðaráðstöfun, ráðstöfun til bráðabirgða meðan okkur gefst svigrúm til að gera það sem dugar og gerir mögulegt að leysa af hólmi olíuna sem orkugjafa til upphitunar húsa. Því er það, að svo mikilvægir sem aðrir þættir þessara mála eru er sá þáttur, sem þessi framkvæmdaáætlun fjallar um, svo þýðingarmikill að ekkert er í raun og veru þýðingarmeira. Með áætlunargerð þessari er gert ráð fyrir að stefnt sé markvisst að því að ljúka á sem skemmstum tíma þeim framkvæmdum sem við verðum að gera ef við ætlum að koma á frambúðarlausn þeirra mála sem valda þeim vanda sem upphitun húsa með olíu hefur skapað nú.

Ég vil, herra forseti, þegar umr. þessari hefur verið frestað, leggja til að till. þessari verði vísað til atvmn.